Beltin bjarga
Já, það má svo sannarlega segja það í þessu slysi, þá björguðu beltin fjórum manneskjum frá Djúpavogi frá stórslysi og jafnvel lífi þeirra. Í bílnum voru þrír ungir menn, ásamt ökumanni en drengirnir voru á leið í Egilsstaði til að keppa í fótbolta. Ungmennin höfðu verið að ræða um beltanotkun nokkrum mínútum áður en slysið varð og hneykslast á hve margir myndu enn ferðast í bíl án þess að nota bílbelti og því miður, þá er mikið til í því.Þú sem lest þessa grein, gerðu það, þér til gamans að fylgjast með bílbeltanotkun í umferðinni, til dæmis innanbæjar. Við hugsum það allt of oft: „það kemur ekkert fyrir mig." Ég er viss um að þau hugsuðu þannig en þau voru samt öll í belti. Eftir að hafa skoðað myndir af vettvangi þá er mér ómögulegt að skilja hvernig í ósköpunum slapp þetta fólk án þess að stórslasast eða þá að komast lifandi af úr þessu slysi.
Mér hefur alla tíð verið annt um að reka áróður fyrir öryggi í umferðinni, sérstaklega þó í þessu slysi þar sem barnabarn mitt var einn af farþegum þessarar bifreiðar. Að lokum vil ég segja við þig lesandi góður, framundan eru helgar þar sem umferð verður mjög mikil og ég hvet þig til að halda uppi áróðri fyrir beltanotkun.
Spennum beltin og sýnum hvert öðru tillitsemi í umferðinni, þá getur allt gengið vel.