Af Dr. John Rae

john rae malverk wikimediaÍ Vélasafninu við Ásbryggju á Vopnafirði stendur yfir sýning út þessa viku. Yfirskrift sýningarinnar er „Yfir hrundi askan dimm", hún byggir á meistaraverkefni Elsu Guðnýjar Björgvinsdóttur í þjóðfræði sem fjallaði um upplifun Austfirðinga af gosinu í Öskju 1875-. (Austurglugginn 18. júlí.)

Annar meistari, Eiríkur Magnússon bókavörður í Cambridge stóð fyrir fjársöfnun í Bretlandi þetta ár, keypti korn og fór með á Eskifjörð um haustið, var kominn þar 20. september.

Hann hafði stofnað söfnunarnefnd með vinum sínum og kunningjum og hér tek ég út úr eitt nafn: Dr. John Rae. (Saga Eiríks Magnússonar.)

Hann var fæddur og uppalinn nærri Straumnesi á Orkneyjum og mentaði sig í læknisfræði í Edinborg.

Straumnes var síðasta höfn hjá skipum Hudsonflóafélagsins á leið vestur um haf og tvítugur varð hann skipslæknir á skipinu Prins af Wels og kom til Elgs búða (Moos Factory) 1833-.

Þetta hef ég af vef sögufélags Manitoba þar sem segir að Dr. John Rae sé enn lítt þekktur, jafnvel í Winnipeg, þar sem hann hafi þó átt mikil tengsl. Hann kannaði yfir 1700 mílur af heimskautaströndinni í þrem ferðum, hann leitaði að Franklinleiðangrinum, mældi fyrir símalínu frá Winnipeg yfir Klettafjöllin að Kyrrahafi. Hann var þekktur fyrir að kunna að lifa á því sem landið gaf af sér og ferðast á þrúgum. Af tveggja mánaða vetrarskógarferð, 1200 mílna, gáfu Inúítar honum nafnið Aglooka sem ku merkja skreflangur. (Af síðu sögufélags Manitoba.)

Hann fór eftir síðasta leitarleiðangurinn að Franklín og félögum með Young skipstjóra á Fox til Íslands og yfir það frá Djúpavogi norður um og til Reykjavíkur í ágúst 1860 til að kanna símalögn. (Skipið Fox og Young kapteinn voru líka í leitinni að Franklín.) Í landleiðangrinum voru auk Johns Rae, Carl F. Theodor Zeilau (1829 – 1901) danskur lautinant og Tal P. Schaffner Bandaríkjamaður sem var potturinn og pannan í þessu síma ævintýri. Zeilau skrifaði ferðabók á dönsku.

„Sem betur fór, höfðum við lyfjakistu meðferðis. Og þó að það tæki stundum dálítinn tíma frá okkur, var það ánægjulegt að sjá dr. Rae svo hjálpsaman að sinna öllum þeim sem komist varð yfir að sinna, sem auðvitað tæmdi kistuna okkar að lokum. Það var fagurt að verða þess vitni, hve það fékk á þennan fræga mann, að vera þess ekki lengur umkominn að hughreysta einn eða annan vesaling, með fáeinum dropum eða plástri, sem komið hefðu í veg fyrir afleiðingar af skorti aðstoðar í tæka tíð." (Foxleiðangurinn 1860, lestu.is)

Það var semsagt 15 árum seinna sem Eiríkur fékk þennan félaga sinn, eða vin, til að sitja í stjórn söfnunaraðgerða vegna hamfara sem dunið höfðu á fólki sem John hafði hitt. En Jón Rae hitti fleira fólk en Jökuldælinga.

Úr sjálfsæfisögu Vilhjálms Stefánssonar síðu 133 -.
„Um langt skeið hirti enginn um þá yfirlýsingu mína, að ég hefði aldrei sagzt hafa fundið þá. Ég hafði aldrei sagt annað, en að ég hefði fyrst frétt um ljóshærða Eskimóa sumarið 1906, þegar Klingenberg kom úr vetursetu á suðvestanverðri Viktoríueyju. Það var hann, sem sagðist hafa fundið 100 Eskimóa eða fleiri – sumir virtust kynblendingar – sem sögðu honum, að aðeins fáir af elztu mönnum þeirra hefðu nokkru sinni séð hvíta menn ( bersýnilega R. Collinson skipstjóra og dr. John Rae) og héldu því fram, að hörundslitur þeirra ætti ekkert skylt við hvíta menn."

Vilhjálmur náði ekki að hitta Rae; en hann var dáinn fyrir 19 árum þegar hann hélt fyrirlestur hjá Landafræðifélaginu í Lundúnum 10. mars veturinn 1913. Á síðu 136 segir Vilhjálmur af ferð sinni til London síðla árs 1912 en þar fréttir hann af skoðanabróður sínum John Rae.

„Ég frétti of seint um dr. Rae og athuganir hans á Eskimóunum á Viktoríueyju til að nota hann í mína þágu í deilunni um „ljóshærðu Eskimóana". En ekki er of seint að geta þess hér. Afsakanir mínar á að vera svo seint á ferðinni eru að vissu leyti réttlætanlegar. Verki Raes var alls ekki sinnt af samtíð hans".

Í raun var það ekki fyrr en árið 2001 sem Ken McGoogan, kanadískur sagnfræðingur og rithöfundur, réttir rækilega hlut þessa ljúfa vísindamanns með bókinni „Fatal Passage" sem nú hefur verið gerð heimildarmynd eftir. Að vísu tókst nú Vilhjálmi að rétta að nokkru orðspor hans ef marka má þetta úr sjálfsævisögunni. „ Það var að nokkru leyti enduruppgötvun mín á honum, sem fékk Hudsonflóafélagið, fyrrverandi húsbændur hans, til að finna fyrir stolti yfir honum".

Það er óneitanlega forvitnilegt að skoða hvað það var sem kom í veg fyrir viðurkenningu „vísindasamfélagsins" á lækninum og landkönnuðinum frá Orkneyjum. Eitt var auðvita að hann var utan af landi, alinn upp í sjávarplássi og ekki kominn í gegnum herinn, hvað þá aðalinn. Svo, þótt hann segði frá Norðvesturleiðinni og örlögum manna Franklins var hann ekki einasta hundsaður heldur beinlínis ráðist á hann og það ekki af neinum smá penna, Mr. Dickens.

Eins og gengið hefur að upplýsa lekamálið úr íslenska innanríkisráðuneytinu eru ekki miklar líkur til að það verði upplýst hver og hvers vegna skýrslu Johns Rae, til Flotamálaráðuneytisins breska, var lekið í blöðin. Það sem sagði í skýrslunni var að leiðangursmenn hefðu lagst í mannát og bornir fyrir því Inúítar. Rae var sem sagt kjöldreginn fyrir að trúa „villimönnum" og voga sér að bera vitnisburð þeirra á borð fyrir Breta. Það hefur sjálfsagt heldur ekki hjálpað til að dr. Rae lagði fram sönnur þess að áfengi og heimskautavist væri vægt sagt banvænn kokteill.

Lítum aftur í sjálfsævisögu Vilhjálms:

„Þegar ég lít um öxl, hygg ég, að ég hafi kannske tekið of djúpt í árinni í hrósi mínu á Rae, og þá ef til vill af því að ég hafði, mér til skammar, haldið því fram, að ég hefði sjálfur uppgötvað þægindin af að búa í Eskimóasnjóhúsi, því að ég varð þess áskynja , að í þessu efni, eins og í mörgum öðrum, þar sem ég taldi mig fyrstan, var ég 60 árum á eftir Rae. Hann hafði fundið árið 1848, þegar hann hafði vetursetu við Repulseflóa, að honum leið alveg eins vel í snjóhúsi Eskimóa og nokkru sinni í brezku gistihúsi....

Sá bobbi, sem mér fannst ég vera í, stafaði frekar af hinu flókna þjóðerni mínu, svo þeirri staðreynd, að heimsveldissinnaðir vinir mínir voru manna líklegastir til að vera hlynntir brezkum tildurlandkönnuðum, en ég gerði mitt bezta til að vekja athygli á og hrósa störfum óbreyttra manna eins og Thomas Simpsons og Johns Raes".

Þetta síðasta er á síðu 256 og þar á hann helst bandamann í lafði Scott sem vildi að sagt væri satt frá örlögum leiðangursmannanna svo koma mætti í veg fyrir að sagan endurtæki sig.

Auðvitað er það nokkuð ljóst að John og Vilhjálmur áttu það sameiginlegt að hafa veiðidellu sem gerði þeim, fátækum, nauðsynlegt að haga sér skynsamlega ef þeir ætluðu að rækta aðal áhugamálið en það liggur handan þessara lína sem bara eru hér til að vekja athygli á svo sem einum fordómafleti tengdum manni sem ekki einasta tæmdi lyfjakistuna handa okkar fólki hér í ágúst 1860, heldur settist í stjórn betlinefndar í Bretlandi til að reyna bjarga fólki hér eystra frá hungri og vesöld og mögulega landflótta. Það vill svo til að Theodor Zeilau lætur uppi í bókinni sinn um hvað þeir þremenningar spjölluðu sín á milli og við heimamenn.

„Hér á Valþjófsstað heyrði ég ummæli um brottflutning Íslendinga til Ameríku. Þetta bar á góma margsinnis oftar á ferðinni. Sennilega er það einhver skyndi óánægja sem grípur um sig á þennan máta. Ég held að svona brottflutningur verði aldrei að veruleika. Íslendingnum þykir allt of vænt um sitt magra fjallaheimili, hversu fátæklegt og lítið aðlaðandi sem það er, til þess að hann geti í alvöru hugsað sér að flytja úr landi, og það jafnvel þó að lífsbaráttan geti stundum orðið afskaplega raunaleg. Það væru þá helst ungir menn, sem nauðugir hefðu haldið til baka á feðranna slóðir, eftir að hafa lært að meta önnur svæði og freistingar heimsins......

Ég reyndi að kynna fyrir hugsanlegum útflytjendunum aðstæður í Ameríku sem ég hefi kynnst af eigin raun. Það átti nú ekki vel við að segja mönnum beinlínis fyrir verkum, en þegar ekkert annað dugði, gaf ég mönnum það ráð að þeir ættu því aðeins að hugsa til flutnings að allir landsmenn væru sameinaðir um brottflutning, og að þeir kæmu sér fyrir á nýju svæði sem allra vestast, í góðu loftslagi og frjósamri jörð. Fylgdu fordæmi Eiríks Rauða til "Vínlands" og endurreistu þar hið gamla, frjálsa, norræna lýðveldi. Og umfram allt, ekki að gleyma að hafa Íslendingasögurnar meðferðis.

Hugmyndin fékk nokkurn hljómgrunn. En ég veit samt vel, að upp til hópa eru Íslendingarnir skynsamari en svo, að hlaupa eftir slíku."

Í ljósi þess sem varð má ljóst vera að þetta er vægt sagt óskhyggja. Nú rúmum hundrað og fimmtíu árum seinna og þegar það fara svona miklu fleiri yfir landið, get ég samt ekki annað en vonað að upplifun fólksins verði með þeim hætti að komi til öskufalls megum við eiga það að. Hvernig við leggjum inn fyrir því hvert og eitt verður auðvita að ráðast, sem þjóðfélag gerum við það ekki og höfum kannski aldrei gert.

En örvæntum ekki. Þar sem að Lady Jane Franklin hafði nú fengið höfund Olivers Twists til að úthúða John Rae hljómar eina beina tilvitnun Zeilaus í hann með ólíkindum, en aðdragandinn er þessi og þeir eru í Möðrudal.

„Sigurður Jónsson var hár og laglegur maður, með anlitsfall sem dóttir hans hafði einnig. Það var 16 -18 ára stúlka, sem bar það hljómmikla nafn Aðalbjörg. Hann var mjög hreykinn af þessari dóttur, það sáum við strax þegar hann kynnti hana fyrir okkur. Hann hafði líka ástæðu til þess að vera það, því að hún var vissulega falleg með þetta norræna yfirbragð, sem hafði sömu áhrif á ferðalanginn og Möðrudalurinn sjálfur, þegar hann birtist skyndilega sem vin í eyðimörkinni. Býlið og haginn umkverfis er sérstök veröld út af fyrir sig, fullkomlega einangrað frá umheiminum Látum það nægja að segja, að Schaffner og ég vorum báðir öldungis sammála doktor Rae, þegar hann sagði: „Í sannleika sagt, er það stórmerkilegt að mæta fólki hér í þessari eyðimörk, og ég á við þessa konu, sem alist hefur upp utan við það, sem kallast hinn siðmenntaði heimur og áhrif hans, og samt sem áður mætti taka þessa konu, klæða hana í „West-End" tískufatnað, setja hana inn í miðja hringiðu samkvæmislífsins, og ég þori að veðja 10 á móti 1, að hún yrði strax eins og heima hjá sér og yrði ekki fyrir neinskonar aðkasti, nema ef til vill sökum þeirrar öfundar sem fegurð hennar vekti." (Af síðu sögufélags Manitoba.)

Málverk Stephen Pearce af dr. John Rae. Mynd: Wikimedia Commons

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar