Central Park Egilsstaðir

einar ben thorsteinsson agust14 0006 webÍ kjölfar örlítillar umræðu sem hefur skapast á vefkimum Austurfréttar um hversu óáhugaverðir Egilsstaðir eru sem stoppistöð ferðamanna, þá vil ég kasta fram ódýrri og sniðugri lausn á„viðveruhallæri" því sem við eigum við að glíma í sambandi okkar við innlenda og erlenda ferðamenn á Austurlandi.

Ekki er um að ræða neina allsherjarlausn, heldur eitthvað sem við getum byggt í kringum með tímanum. Ég er gjarn á að henda hugmyndum niður á blað og geyma á harða diskinum til eilífðarnóns, stundum mættum við öll vera duglegri í að deila hugmyndum með meðbræðrum okkar samfélaginu til bóta.

Í miðbæ Egilsstaða er reitur á besta stað í bænum við hlið gömlu Lögreglustöðvarinnar/ Símstöðvarinnar. Þar má reikna með að fari hjá langflestir ferðamenn sem um Austurland fara. Reiturinn er ekki nýttur að ráði sem stendur, en þar hafa verið settir nokkrir bekkir þar sem hægt er að setjast niður. Vonandi sér engin tækifæri í að nota þennan blett sem bílastæði, það væri synd.

Til að nýta einn „dýrasta" reit Austurlands vil ég kasta fram hugmynd um að gera fólkstorg á þessum stað og nýta það sem tækifæri í til að gera það að eftirminnilegum stað í hugum ferðamanna auk þess að nýta það til kynningar á héraðsskrímslinu Lagarfljótsorminum og Hrafnkeli Freysgoða sem má segja að hafi átt Fljótsdalshérað á landsnámsöld. Þessi hugmynd er í raun augljós og ódýr sé horft til tækifæranna.

Hugmyndirnar fela í sér eftirfarandi framkvæmdir:

1. Hellulagning á nýju torgi þar sem listsköpun getur fengið að njóta sín við munsturgerðir og annað slíkt.
2. Grjóthleðsla að gömlum sið í kringum torgið með tveimur inn/útgönguleiðum.
3. Sæti, borð og bekkir fyrir allt að 100 manns.
4. Skúlptúr af Lagarfljótsorminum og upplýsingastandur með þjóðsögunni um Lagarfljótsorminn á íslensku, ensku, þýsku, frönsku og spænsku. Ef við viljum að Héraðsskrímslið verði söluvara, verðum við þá ekki að selja það?
5. Skúlptúr af Hrafnkeli Freysgoða og upplýsingastandur með útdrætti úr Hrafnkelssögu á íslensku, ensku, þýsku, frönsku og spænsku.
6. Rennibraut fyrir börn sem er „Lagarfljótsormurinn".
7. 3-5 sölubásar úr lerki af Héraði þar sem þeir sem vilja geta pantað sér pláss og selt t.a.m. listmuni, uppskeru, harðfisk, lambagærur, sultur, veitingar eða hvað sem hugurinn býður.

Torgið verður opið almenningstorg og hugsað sem viðkomustaður fyrir ferðamenn. Þar getur fólk sest niður með nesti og jafnvel slappað af.

Kostir þess að setja upp almenningstorg í miðbæ Egilsstaða:

1. Ekkert slíkt skipulagt markaðstorg er þegar fyrir hendi.
2. Skúlptúrar tengdir svæðinu gefa ferðamönnum minningar héðan, sem þeir dreifa í formi ljósmynda og afspurnar til vandamanna. Ég fullyrði að nær gestir torgsins allir munu smella af ljósmynd, hvað er betri kynning?
3. Egilsstaðir verða nauðsynlegri áfangastaður og meira áhugaverður.
4. Ferðamenn stoppa í fleiri klukkustundir og eru líklegri til meiri verslunar í formi fæðis og minjagripa.
5. Kynning á Lagarfljótsorminum og Hrafkeli Freysgoða opna möguleika á aukinni veltu í minjagripasölu, s.s. bolum, póstkortum og handverki.

Að lokum vil ég taka það sérstaklega fram að framangreindan texta tók ég saman á dögunum eftir kaffibollaumræður, og falli þessar hugmyndir vel í kramið vil ég taka sérstaklega fram að þær eru fengnar að láni héðan og þaðan. Allar hugmyndir er hægt að skeggræða og gera betri, því betur sjá augu en auga.

Lýsi mig reiðubúinn til að vinna að þessu verkefni í samstarfi við sveitarfélagið og hugsmunaaðila á Egilsstöðum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.