Við eigum val 30. júní – Nýtum það vel

Ásta Kristín

Þann 30. júní göngum við til kosninga um forseta íslenska lýðveldisins. Þá kjósum við ekki bara hvaða forseta við viljum heldur kjósum við líka um það hvernig forsetaembætti við viljum hafa í okkar lýðræðisríki. Í framboði er hópur af góðu fólki sem allt hefur eitthvað gott fram að færa, verkefnið er ærið enda um að ræða æðsta embætti Íslands.

 

Mikið hefur verið talað um fortíðina og hvernig þessar og hinar ákvarðanirnar hafa verið teknar, margt gott, annað umdeilt og allt þar á milli. Nauðsynlegt er að gera upp fyrri tíma og vega og meta menn og málefni, en nú er mál að linni, nú er komin tími á nýjan tón, nýtt upphaf og bjartari tíma. Nú þurfum við á því að halda sem þjóð að tala einum rómi, ganga í takt og finna aftur fyrir því stolti sem fylgir því að vera Íslendingur.  Vissulega fylgdi því mikið erfiði að ganga í gegnum efnahagsþrengingar og hrun en við töpuðum ekki bara veraldlegum eigum heldu töpuðum við líka trúnni á mannfólkinu, töpuðum trausti á kerfið og það er staðreynd að alþingi nýtur um 10% trausts almennings, það eitt er ærið verkefni en í því felast mikil tækifæri. Það má nefnilega draga lærdóm af erfiðu ástandi og nýta það til að byggja á til framtíðar,  þétta raðirnar, ná sáttum og sameinast um gildi okkar sem þjóðar. 

Á Íslandi hefur á síðustu árum myndast gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgar sem virðist með hverju málinu á fætur öðru dýpka og skilningur virðist þverra á mismunandi ástandi þess fólks sem byggir landið. Þarna ber forseti mikla ábyrgð og á að standa fyrir því sem sameiningartákn þjóðarinnar að fólkið, á okkar litla landi upplifi sig sem eina þjóð í einu landi. Ég treysti Þóru Arnórsdóttir fyrir þessum verkefnum ásamt því að vera okkur til sóma á erlendri grundu, kynna hér blómlegt atvinnu og menningarlíf ásamt því að styðja við nýsköpun og þróun skapandi greina. Þóra hefur skýra sýn á þá framtíðaruppbyggingu sem hér er nauðsynleg, að hér sé fólk stolt af því að búa, hér vilji það starfa og lifa, sátt og sameinuð sem ein þjóð í einu landi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.