Tölvusneiðmyndatæki á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað

Laufey Sigurðardóttir

Árið 2005 keyptu Hollvinasamtök FSN tölvusneiðmyndatæki fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Í kjölfarið jukust mjög möguleikar til greiningar og meðferðar í fjórðungnum.

Tölvusneiðmyndatækni byggist á því að örfínn röntgengeisli er sendur í gegnum sjúklinginn á litla skynjara. Úr því verður til myndaröð af sjúklingnum sem gerir læknum kleift að skoða innri líffæri viðkomandi á fljótlegan hátt. Tölvusneiðmyndun er öflug leið til ýmissa sjúkdómsgreininga og sérlega þörf þegar slys ber að höndum. Það er afar mikilvægt að tíminn sem líður frá því að sjúklingur veikist/slasast þar til greining liggur fyrir og hægt að hefja meðferð sé sem allra stystur. Í bráðatilvikum geta mínútur skipt máli og með sneiðmyndun er oftast hægt að skera úr um eða útiloka áverka sem geta verið lífshættulegir á mjög skömmum tíma og auðveldar forgangsröðun sjúklinga. Þess má einnig geta að í álitsgerð yfirlæknis gjörgæsludeildar LSH er bent á nauðsyn sneiðmyndatækis við móttöku og meðferð fárveikra og mikið slasaðra sjúklinga.

Þar sem FSN er eina bráðasjúkrahúsið á Austurlandi og miðstöð sérfræðiþjónustu er brýn þörf á að halda þessari greiningartækni við auk þess sem það styttir fjarveru fólks í fjórðungnum frá vinnu og heimili og síðast en ekki síst sparar flutningskostnað vegna sjúklinga sem annars hefðu þurft að fara í sjúkraflugi eða með öðrum leiðum í frekari rannsóknir.

Tækið sem keypt var fyrir FSN 2005 og hefur verið í notkun frá byrjun árs 2006 er komið á tíma. Tækninni hefur fleygt fram á þessu sviði eins og öðrum. Tölvusneiðmyndatækið á FSN er aðeins tveggja sneiða, en sneiðafjöldi gefur til kynna hæfni og hraða tækisins (tekur tvær myndsneiðir á sekúndu). Nýjustu og öflugustu tölvusneiðmyndatækin hér á landi í dag eru 128 sneiða og eru á LSH-Fossvogi og FSA-Akureyri. En flest tækin á landinu eru á bilinu 16-64 sneiða.

Alls eru 11 tölvusneiðmyndatæki í notkun á Íslandi í dag. Af þeim eru átta á höfuðborgarsvæðinu. Meðalfjöldi tölvusneiðmyndarannsókna á ári síðustu fjögur ár á FSN er á bilinu 630 til 650. Af þeim er um 75% rannsóknanna gerðar á sjúklingum sem koma frá öllum fjórðungnum og 25% á inniliggjandi sjúklingum. Í áætlun sem gerð var fyrir kaup á tækinu 2004 var reiknað með um 600-1000 rannsóknum á ári.

Í fjórðungnum er ýmiss starfsemi og öflugt atvinnulíf sem krefst aukinnar heilbrigðisþjónustu. Þess má geta að um 600 sjómenn eru hér rétt fyrir utan landið við störf, öflug fiskvinnsla í landi, verktakar af ýmsum toga, landbúnaður og álvinnslufyrirtæki svo eitthvað sé nefnt. Til þess að auka öryggi þessa fólks sem fleytir Íslandi áfram með dugnaði og elju þarf heilbrigðis- og bráðaþjónusta að vera öflug og nýtt tölvusneiðmyndatæki gegnir lykilhlutverki.

Læknar, sérfræðingar og starfsmenn röntgendeildar á FSN telja að þörf á nýju og fullkomnara tæki sé mikil og miðað við starfsemi sem hér er stunduð myndi 16 sneiða tæki henta vel. Með endurnýjun tölvusneiðmyndatækisins batnar greining sjúkdóma, öryggi íbúa fjórðungsins eykst og stoðir HSA og FSN styrkjast ennfremur.

Kostnaður við kaup á nýju 16 sneiða tæki liggur á bilinu 40-50 milljónir og mun gamla tækið verða sett upp í á móti. Óvíst er hversu há fjárhæð fæst fyrir gamla tækið en nú þegar hefur verið leitað verða á tæki hjá ýmsum umboðsaðilum, þó engin formleg könnun tilboða enn sem komið er. Verið er að bíða eftir svari frá fjárlaganefnd Alþingis og fyrr er ekkert hægt að gera. Ekki er ljóst hversu frjálsar hendur við höfum með kaupin ef ríkið kemur að þessu. Von okkar er að með aðstoð fyrirtækja, einstaklinga og Hollvinasamtaka FSN verði hægt að kaupa nýtt 16 sneiða tölvusneiðmyndatæki sem allra fyrst.

 

Undirrituð er geislafræðingur við röntgendeild HSA/FSN

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.