Vertíð í ferðaþjónustu á Héraði
Yfir sumartímann margfaldast fjöldi gesta sem heimsækja okkur. Vegamótin sem liggja í gegnum Egilsstaði eru sögð ein þau fjölförnustu á öllu Austurlandi. Vegagerðin áætlar að hátt í 2.000 bílar fari yfir gatnamótin á dag þegar mest lætur yfir sumartímann. Til gamans má geta að á góðum janúardegi er umferðin um 200 bílar (heimild: vegagerdin.is).Eins og sjá má á þessum tölum tífaldast umferðarþungi í gegnum þéttbýlið Egilsstaði yfir sumartímann og að sjálfsögðu hefur það áhrif á þjónustu- og verslunarrekstur á svæðnu og að auki hefur þetta áhrif á annarskonar fyrirtækjarekstur s.s. iðnaðarstörf. Við þjóðveginn situr bensínstöð N1 en yfir júlímánuð heimsækja hana um 60 þúsund manns.
Samhliða auknum fjölda ferðamanna er það gefið að fyrirtæki þurfa að bæta við sig starfsfólki og á flestum veitinga- verslunar- og gististöðum er starfsmannafjöldinn að tvö- og þrefaldast yfir sumartímann. Forsvarsmenn fyrirtækja á Héraði líkja stemmingunni við vertíð enda er sala sumarsins undirstaða reksturs yfir veturinn hjá meirihluta þessara fyrirtækja, ef þau eru rekin yfir veturinn það er að segja.
Flestir íslendingar vilja taka sumarfrí á sumrin. Til að leysa það verkefni streymir skólafólk út á vinnumarkaðinn í skólalok á vorinn enda mikil eftirspurn eftir fólki í þjónustu- og iðnaðarstörf. En núna er að skapast vandamál því sumarvertíðin er að lengjast inn í haustið en flest allir skólar hefjast snemma á haustin og því er mannekla hjá mörgum fyrirtækjum í ágúst og september. Þetta vandamál er eitthvað sem við þurfum að taka sameiginlega ákvörðun um. Hvernig getum við haldið uppi því þjónustustigi sem við viljum í þessari vertíð. Egilsstaðir og nágrenni sem þjónustusvæði þarf að finna einhverja lausn. Gætum við samið við skólana um undanþágu fyrir þá sem eru að vinna og nemendur fá það metið sem starfsreynslu í skólana eða þurfum við að minnka opnunartíma og þjónustustig þegar aflaverðmæti okkar er sem mest? Eða þurfum við jafnvel að breyta skólatímanum svo það henti þjónustubæ eins og Egilsstöðum?
Mörg fyrirtæki hafa þurft að fá erlent vinnuafl til starfa en það mun skapa enn stærra vandamál þegar fram líða stundir. Skólafólk á svæðinu fær ekki störf við ferðaþjónustu. Eftir samtal við nokkra atvinnurekendur á Héraði þá virðist það vera eina leiðin að fá erlent vinnuafl til að manna þau störf sem skapast á vertíðartímabilinu, starfsfólk sem klárar vertíðina.
Þessar pælingar eru mjög ofarlega í huga hjá Þjónustusamfélaginu á Héraði. Við ætlum okkur að vera eftirsóknarverður þjónustubær þar sem gestir hafa allt sem þeir þurfa. Þeir geta heimsótt okkur í nokkra daga til að njóta þeirra afþreyingar og náttúrufegurð sem Austurland hefur uppá að bjóða en til þess að geta þjónustað alla okkar gesti vantar starfsfólk.
Sigrún Hólm, formaður Þjónustusamfélagsins á Héraði