Miðbær Egilsstaða
Miðbærinn á Egilsstöðum er ekkert augnayndi, við verðum bara að viðurkenna það. Hann bíður fólk ekki beint velkomið upp á að slappa af í honum, rölta um í rólegheitum, setjast niður og fá sér kaffi eða öl.En það er svo sannarlega hægt að vinna með hann eins og hann er og bæta hann margfalt. Tilkoma Salt café & bistro hefur til dæmist breytt dínamíkinni í bænum og sýnt að það er hægt að breyta stemningunni.
Þangað til að hægt er að fara í dýrari framkvæmdir til að breyta sjálfu skipulagi miðbæjarins þarf að hugsa í ódýrum og auðveldum lausnum. Það er hægt að hægja á umferðinni sem kemur niður Fagradalsbrautina með því að hafa 35 km hámarkshraða. Það er hægt að bæta við sebrabrautum í formi hraðhindrana yfir Fagradalsbrautina sem gefur bílumferð það ljóst að gangandi vegfarendur njóti forgangs. Það er hægt að merkjar betur og bæta þær gangstéttir sem eru þegar til staðar og búa til samfeldar gönguleiðir frá Bónus út á tjaldstæði sem leiða gangandi umferð um miðbæinn. Það væri mjög einfalt að breyta bílastæðinu fyrir framan Miðvang 2-4 (Kleinan) í bæjartorg 3 mánuði á ári yfir sumartímann. Það væri hægt bæta við stóru langtímabílastæði á gamla tjaldstæðinu sem nú er autt malarplan og beina þangað rútum og húsbílum til að létta á miðbænum og skapa pláss fyrir fólksbíla sem eiga þar frekar heima.
Það er margt svona hægt að gera sem myndi gera bæinn okkar svo mikið betri. Þjónustsamfélagið samtök fyrirtækja á svæðnu hafa farið með þessar hugmyndir og fleiri upp á bæ og þar hefur þeim verið vel tekið. Mér finnst sú umræða sem hefur átt sér stað um miðbæ Egilsstaða vera að skila sér, þó svo að maður vildi sjá hlutina ganga miklu hraðar. Það er vonandi að veturinn verði notaður vel til að skoða þessar hugmyndir og framkvæma þær sem eru borðliggjandi fyrir næsta sumar.
Egilsstaðir er þjónustubær Austurlands, af því að hér er mesta þjónustan og besta staðsetningin, en við getum ekki og eigum ekki að taka því sem sjálfsögðum hlut. Við eigum að vinna í því að bæta okkur og kynna okkur sem þjónustubæ og við eigum að leggja okkur fram við að gera það vel. Til þess þurfum við að hafa almennilegan miðbæ sem býður fólk velkomið, í því verkefni þurfa allir, sveitarfélag, fyrirtæki og einstaklingar að taka þátt.