Mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu
Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) vinnur nú að verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP) og varðar þróun samgangna í dreifðum byggðum í þágu ferðaþjónustu og heimafólks. Verkefnið er til þriggja ára (2011-2013) og ber heitið Transtourism (sjá: www.transtourism.eu), en að því standa auk RMF sveitarfélög, stofnanir og háskólar á N. Írlandi, Írlandi, Skotlandi og Svíþjóð. Á Íslandi starfar RMF að verkefninu með Þróunarfélagi Austurlands, Markastofu Austurlands, Vegagerðinni og ferðaþjónustu aðilum á Borgarfirði Eystri.
Dagana 25. til og með 27. október verður haldin fundur aðila í verkefninu á Borgarfirði Eystra. Ráðstefnu dagarnir eru tveir. Fyrri dagurinn, þriðjudagurinn 25. október, snýst um námskeiðshald fyrir aðila verkefnisins þar sem rætt verður um einstaka verkþætti og skipulag. Þar munu aðilar verkefnisins kynna framgang þess í sínum heimalöndum, en verkefnið snýst um að þróa lausnir í samgöngum fyrir gesti sem jafnframt nýtast heimafólki og þróa leiðir til að miðla upplýsingum um þessa þjónustu í dreifðum byggðum.
Síðari dagurinn, miðvikudagurinn 26. október, er opin öllum og helgaður almennara efni er tengist þeim lausnum sem kynntar verða til sögunnar miða að því að vera sveigjanlegar í takt við eftirspurn og þannig er ætlunin að nýta farsímatækni og netið til að miðla upplýsingum í rauntíma. Að auki er áhersla á að meta umhverfisáhrif samgangnanna til að höfða betur til viðskiptavina sem gera má ráð fyrir að hafi sterka umhverfisvitund. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem sækja heim dreifðar byggðir á norðurslóðum séu meðvitaðir um nauðsyn umhverfisverndar og því er þessi þáttur tvinnaður inn í þær lausnir sem er verið að þróa.
Síðasta daginn er svo ferð um Austurland í samvinnu við Þróunarfélagið þar sem skoðaðar verða byggðir á svæðinu og hvernig samgögnum um þær er háttað. Ferðina skipulagði Markaðsstofa Austurlands og því verða áfangastaðir ferðafólks einnig skoðaðir.
Rannsóknir ma. RMF hafa sýnt frammá mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu og það hvað þessi grunnsannindi virðast oft vefjast fyrir aðilum í ferðaþjónustu. Þannig er nokkuð um vilja til að efla staðbundið vöru og þjónustu framboð án þess að íhuga hvernig best eða hagkvæmast væri fyrir gesti að komast á staðinn. Þannig má sem dæmi nefna að Dettifoss sem haldið hefur verið á lofti sem perlu Norðurlands, var ekki aðaláfangastaður gesta sem nýttu sér beint flug á svæðið sumrin 2009 og 2010. Hinsvegar sumarið 2011 var þar gjörbreyting með nýjum vegi. Sömu sögu má segja af Siglufirði og byggðum Tröllaskaga, þó kannski hafi ekki borið eins mikið á þeim í kynningarefni til þessa.
Rannsóknamiðstöð ferðamála mun koma á framfæri framvindu og niðurstöðum verkefnisins, en unnið verður með aðilum á Austurlandi og Borgarfirði Eystri að því hvernig þegar hefur verið og betur má nýta í framtíð beint flug á Akureyri og tengsl við aðdráttarafl ferðafólks á svæðinu.