Lávarðaleikar Golfklúbbs Seyðisfjarðar

lavardaleikar gsf 2014Árlegir Lávarðaleikar GSF fóru fram laugardaginn 13. september á Hagavelli Seyðisfirði. Þátttakendur voru 32 . Heiðursgestir voru sex.

Leikarnir hófust kl. 10.02. Slegið var út af öllum teigum samtímis eftir að ræst hafði verið út með kröftugum lúðrablæstri. Golfveður var frábært. Suðvestanátt sól, stillt og hiti fór í +18 þegar best lét.

Leikið var leikandi létt golf með forgjöf og sáust mögnuð fagnaðarlæti um víðan Hagavöll þegar vel tókst til við slátt og pútt. Um kvöldið buðu Lávarðar til mikillar uppskeruhátíðar í golfskála þar sem þátttakendur, girtir vel í brók að vanda, snæddu valið grillað lambakjét með fjölbreyttu mauluðu meðlæti sem þeir renndu niður með mögnuðum Lávarðadrykk.

Riddarar GSF nr. 16 Adolf Guðmundsson nr.17. Lárus Bjarnason og nr.18 Guðmundur Sigurðsson voru „innvígðir" í hæstvirta Lávarðadeild GSF af Yfir Lord og formanni Lávarða með vísan til 17. gr. 6. málsgreinar í Lávarðareglum frá 2006 og 2.gr í viðauka frá 2012 .

19.holan „L-B Þorvaldsbrautarbani" var leikin kl. 21.45-22.30 á flóðlýstum teig og með blikkandi baugjuljós á flaggi 9.flatar. Taktfastur, kröftugur, raddaður söngur þar sem allir sungu með sínu nefi,við undirleik Hljómsveitar HÚSSINS, braust út milli Bjólfs og Strandatinds fram til kl. 23.45.

Stundvíslega kl. 23.50. renndi Rútan í hlað Golfskála Hagavallar með Sigurð Valdemarsson bílstjóra við stýrið. Léttir í lund stigu þátttakendur um borð og keyrt var inn í kaupstað. Sumir létu þar með gott heita en aðrir viðruðu sig ögn lengur í ljúfu næturlífi fjarðarins fagra sem engan svíkur.

Lávarðar GSF þakka Riddurum GSF og öllum öðrum kylfingum frábært golfsumar og nú ganga þeir brattir inn í haustið og veturinn með þann eina ásetning að leika áfram golf á meðan stætt er.

Á Lávarðaleikum er leikið um 3 heiðurstitla GSF og veitt er ein tilnefning ársins. Þessi varð niðurstaðan:
Meistari Lávarða GSF 2014: Sigurður Finnbogason
Meistari Riddara GSF 2014: Stefán Jóhannsson
Þorvaldsbrautarbani GSF 2014: Ólafur Ingi Mikaelsson (5.43)
Tilnefning: Besti vinur Lávarða GSF 2014: Marco Nikolic

Lávarðar GSF þakka eigendum Brimbergs e.h.f og Óttari Magna fyrir veittan stuðning og bjóða nýja Lávarða nr. 15.-16- og 17. velkomna í hópinn

F.h. Öldungaráðs Lávarða
Þorvaldur Jóhannsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar