Aðgangur að börnum

Hildur JakobínaFréttir af barnaníðingum eru að verða daglegt brauð í íslensku samfélagi. Það er á sama tíma gott og slæmt. Gott því að með upplýsingu getum við varið okkur betur með því að fræða börnin okkar, slæmt vegna þess að það gerir okkur döpur og reið og staðfestir vitneskjuna um að saklaus börn geti verið í hættu.

Við getum sem foreldrar eða forráðamenn aldrei fyrirbyggt að fullu að börnin okkar verði fyrir kynferðislegri misnotkun enda er yfirleitt um brot á trausti að ræða. Oftar en ekki er einstaklingur að verki sem við treystum. Hins vegar eigum við að grípa til ákveðinna ráðstafa til að torvelda aðgang að börnunum okkar. Aðhald, eftirlit og aðgengi. Þessi atriði eru á okkar ábyrgð og við ættum alltaf að hafa þau ofarlega í huga.

Barnaníðingar eru m.a. þekktir fyrir að skapa sér öruggan grundvöll áður en þeir láta til skarar skríða gagnvart barni eða börnum sem þeir hafa valið sér sem fórnarlömb. Oft koma þeir sér fyrir á nýjum stöðum þar sem enginn þekkir þá og taka sér marga mánuði upp í nokkur ár að byggja upp traust í samfélaginu áður en þeir fara að misnota það traust. Þeir eru viðkunnanlegir, oft og tíðum „alltof“ hjálpsamir og alltaf reiðubúnir að líta eftir börnum.

Við erum flest öll meðvituð um þær hættur sem stafa af barnaníðingum og reynum að fræða börnin um aðstæður sem þarf að forðast og hvetja þau til að segja frá ef einhver snertir einkastaðina þeirra eða ef fullorðið fólk vill eiga leyndarmál með þeim. En eru einhver börn í meiri hættu en önnur?

Nýlega héldu samtökin „Blátt áfram“ ráðstefnu þar sem Dr. Carla van Dam réttarsálfræðingur flutti fyrirlestur um bók sína „Identifying child molestors“ (Að bera kennsl á barnaníðinga). Í bókinni kemur m.a. fram að börn einstæðra mæðra eru í áhættuhópi hvað misnotkun varðar. Það er vegna þess að barnaníðingar eru útsmognir í því að finna leiðir að börnum.

Einstæðar mæður eru háðar því að einhver gæti barna þeirra meðan þær vinna, sinna félagsstörfum eða fara út á lífið. Oft eru þær mjög þakklátar fyrir hjálpsemina og átta sig ekki á hvað er í vændum. Með því að fara í sambúð með einstæðum mæðrum komast barnaníðingarnir að börnum þeirra enda áhuginn á börnunum tilgangur sambúðarinnar í upphafi.

Bók van Dam er m.a. byggð á frásögnum barnaníðinga um þær aðferðir sem þeir beita til að komast að börnum. Þeir sækja í störf þar sem aðgangur að börnum er auðveldur eins og við kennslu og æskulýðsstörf, á frístundaheimilum og í íþróttafélögum, alls staðar þar sem börn eru og foreldrarnir telja að þau eigi að vera óhult. Nýlega var bandarískur barnalæknir til að mynda dæmdur fyrir barnaníð en sá hafði misnotað yfir 100 börn á 12 árum. Barnaníðingar velja sér fórnarlömb í því umhverfi sem þeir hafa komið sér fyrir, þeir finna út hvaða barn er eftirlitslaust, hvaða barn hefur lágt sjálfsmat, hvaða barn er einmana, hver eru vanrækt og sýna þess merki að vanta væntumþykju og hlýju.

Þessi börn geta skorið sig úr og verið inn í sig á einhvern hátt sem þeir eru fljótir að skynja. Þeir velja þessi börn því að það er auðvelt að vinna traust þeirra og vináttu og minni hætta á að þau segi frá ef þeir leyfa sér að snerta þau.  Oft gera þeir varfærnislegar tilraunir til að byrja með og athuga hvort börn segi frá. Geri þau það eru þeir tilbúnir með afsakanir og láta sem um misskilning sé að ræða. Þau börn sem segja frá verða látin í friði, hin sem þegja verða fórnarlömb þeirra. Þess vegna er svo mikilvægt að við upplýsum börn okkar og hvetjum þau til að segja frá slíkum snertingum eða leyndarmálum.

Hvort sem við búum á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni þurfum við að fylgjast með því hvar börnin okkar eru. Frjálsræðið er meira úti á landi en í Reykjavík og næsta nágrenni. Frelsið sem fylgir því að ala upp barn á landsbyggðinni er að sjálfsögðu yndislegt. Hins vegar eru fréttir af kynferðisbrotum orðnar of algengar til þess að við getum fellt okkur við að þau séu eftirlitslaus allan daginn. Það á ekki lengur við.

Við berum ábyrgð á börnunum okkar og aðgengi annarra að þeim. Með því að hafa reglur og setja börnunum mörk torveldum við aðgang barnaníðinga að þeim.

Barnaníðingar fyrirfinnast því miður í flestöllum samfélögum. Við vitum að þeir leita uppi staði þar sem aðgangur að börnum er auðveldur. Þar sem nú er sumar og skólar og leikskólar í sumarfríum eru börnin úti nánast allan daginn og gleyma sér í leik. Það er því brýnt að foreldrar fylgist með börnum sínum og veiti þeim aðhald, viti hvar þau eru niður komin og treysti ekki um of á góðmennsku annarra. Í slíkri varúðarráðstöfun felst alls engin vænisýki. Hún er sjálfsögð í nútímasamfélagi. Áður héldum við að börnin væru örugg. Nú vitum við einfaldlega betur.

Hildur Jakobína Gísladóttir,
félagsmálastjóri Stranda og Reykhólahrepps

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.