Ég heiti Heiða og ég er EKKI aumingi - ég er ung kona á uppleið

Heiða IngunnÉg er í mjög þörfu starfi, starfi sem ég vinn fyrir sjálfa mig en sem ég vinn líka fyrir þjóðfélagið því með þessu starfi kem ég út sem sterkari einstaklingur, einstaklingur sem getur tekið þátt í þjóðfélaginu og mætt þeim kröfum og skyldum sem á mig eru lagðar.

Þetta kallast StarfA og er Starfsendurhæfing Austurlands.

  Við sem erum í þessu prógrammi höfum því miður heyrt of mikið af neikvæðisröddum og dómhörku varðandi þetta starf og ég held að raunin sé sú að fólk viti bara hreinlega ekki betur, því oft er manninum tamt að dæma það sem hann ekki þekkir. Ég er reyndar mjög heppin að því leitinu til að mínir aðstandendur og fjölskylda er mjög jákvæð og styður mig heilshugar, en þau vissu samt ekkert út á hvað þetta gekk né hvað þetta var þegar ég sagði þeim fyrst að ég ætlaði að skrá mig í þetta.

En oft er þetta tengt við öryrkja, aumingja, þá sem nenna ekki að vinna o.s.frv. Ég er ekki aumingi, nema síður sé! Ég er tiltölulega hraust ung kona.

Ég hvarf af vinnumarkaði í mars 2008 þegar ég gekk með mitt fyrsta barn. Ég mátti ekki vinna á meðgöngunni heilsunnar vegna og þurfti því að sitja heima. Það var svo sem margt sem ég gat dundað mér við til að undirbúa komu litla barnsins míns og spennan var gífurleg en á móti hafði ég líka allan tíma í heiminum til þess að telja mínúturnar þangað til barnið mitt kæmi. Mér leiddist oft ógurlega. Aðrir sem ég þekkti voru að vinna og voru uppteknir með sitt líf, ég fór að einangrast svolítið sem hentar mér illa þar sem ég er mikil félagsvera og þrífst best með fólk í kringum mig.
 
Svo skall áfallið á!  „Allt í einu“ kom í ljós að ég var þunglynd! Ég sem var ólétt, ekkert smá spennt og öll viðmið í þjóðfélaginu sögðu að ég ætti að vera ein hamingjusprengja!

Ég fór norður og gekk til geðlæknis þar sem ég byrjaði að vinna í sjálfri mér. Dóttir minni lá samt svo á að koma í heiminn að ég þurfti að hætta að vinna í sjálfri mér eftir einhvern tíma og fara suður. Hún hætti nú reyndar við og kom á endanum á settum degi, þá fékk ég þennan fullkomna einstakling minn í hendurnar og lífið fór að snúast um hana.  Mér leið vel og ég var í þokkalegu jafnvægi. Þegar hún varð svo eins árs fór hún hálfan daginn til dagmömmu og ég fór í nám. Mér gekk glimrandi vel. En illa gekk hjá okkur pabba hennar og leiðir okkar skildu. Þá hafði ég ekki efni á að halda áfram í námi og þurfti að leita til Vinnumálastofnunar og fara á atvinnuleysisbætur. Fyrir mér var það mikið niðurbrot. Ég sem gat vel unnið, bara ekki hvaða vinnu sem er, verandi með eins árs gamalt barn heima á kvöldin og á nóttunni og ég sem hafði allt fram að færa til að mennta mig en ef ég kysi að fara þá leið gæti ég ekki séð okkur farboða. Ég einangraðist aftur og nú enn meir.

Ég fékk reyndar afleysingarvinnu sem ég sinnti af mikilli ábyrgð og natni. En ég viðurkenni að ég fékk kvíðahnút í magann yfir því að þurfa að mæta aftur á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið svo lengi af honum, fara að mæta á tilsettum tíma, vinna eitthvað ákveðið verk og hreinlega horfast í augu við annað fólk, fólk sem ég þekkti ekki. Ég lét mig nú samt hafa það enda ekkert annað í boði!

Þessi vinna var samt af skornum skammti og ekki þannig vinna sem ég vildi festast í. Ég fór að finna fyrir að það örlaði á gamalkunni tilfinningu, kvíðanum og þunglyndinu. Ég ræddi við góðan lækni hér í bæ sem benti mér á StarfA, sagði mér að þar gæti ég unnið í sjálfri mér en líka menntað mig og þannig komist nær því markmiði sem mig langaði að ná í lífinu.  Úrræðin eru nefnilega ekki mörg fyrir fólk sem á barn/börn og er ekki búið með framhaldsskóla. Skilaboðin sem þjóðfélagið sendir eru þau að ef maður dreif sig ekki í að klára hann þegar maður bjó hjá mömmu og pabba þá er maður bara óheppinn!
Í samvinnu við þennan lækni ætlaði ég inn í þetta á endurhæfingarlífeyri en ég var nýorðin ólétt af mínu öðru barni. Tryggingastofnun styður hins vegar ekki við óléttar konur í svona starfi sem er mér óskiljanlegt þar sem það er ekkert síður þörf á að byggja sig upp á meðgöngu en á öðrum tímum lífsins. En við lögðum höfuðið í bleyti og þessi læknir benti mér á að prufa að ræða við Vinnumálastofnum og sjá hvort hægt væri að ná samningi við hana. Það varð úr að ég fékk samning. 

Ég var óendanlega glöð. Þarna fékk ég það aðhald og stuðning sem mig hafði vantað á síðustu meðgöngu. Ég gat menntað mig! Þegar ég var búin að skrifa undir samninginn hjá Vinnumálastofnun gekk ég út með tárin í augunum, kökkinn í háksinum og þakkaði hamingjusöm fyrir þetta tækifæri sem þau voru að gefa mér.

Það er nefnilega málið. StarfA er tækifæri, tækifæri til að byggja sig upp, koma sér úr viðjum vanans, setja sér markmið, fá hjálp til að vinna að þeim og kennslu í að nálgast þau. Skilgreiningin á endurhæfingu sem alþjóðaheilbrigðismálastofnuni WHO hefur gefið frá sér er m.a. ,,endurhæfing miðar að því að skjólstæðingur nái aftur eins góðri líkamlegri, andlegri og félagslegri færni og unnt er” og það er það sem er verið að hjálpa okkur við hjá StarfA og þykir mér það göfugt starf.

Við sem erum í StarfA erum eins misjöfn og við erum mörg. Ástæðurnar fyrir veru okkar þar eru ólíkar og bakgrunnurinn er ólíkur en öll eigum við það sameiginlegt að vilja ná taki á lífi okkar og aðstæðum, vinna í okkar málum, komast út í lífið, taka þátt í því sem er að gerast í kringum okkur og flestir stefna á að komast aftur á vinnumarkaðinn.

Hvernig er hægt að segja að fólk með slík markmið séu aumingjar?
 
Mér finnst þetta fólk vera hetjur og dugnaðarforkar! Það að vinna í sjálfum sér, horfast í augu við vandann og setja sér markmið. Þetta er ekki auðveld vinna og raunin er sú að þessi vinna er að sumu leyti erfiðari en önnur. En það mætti kannski kalla þetta fólk „aumingja“ ef það væri bara heima, með dregið fyrir glugga, færi ekki út, tækist ekki á við lífið né tilveruna en við erum öll að gera þveröfugt við það - þrátt fyrir að það sé ekki alltaf auðvelt.

Ég finn að StarfA er að styrkja mig á svo margan hátt. Mér líður vel og mér líður vel í eigin skinni. Ég er að finna sjálfa mig og það sem ég vil gera í lífinu. StarfA er líka að styrkja mig til náms og þannig að hjálpa mér að ná settu markmiði, þannig að í framtíðinni geti ég verið virkur þjóðfélgsþegn, gefið til baka og búið mér og mínum gott líf.

Ég þakka StarfA fyrir að gefa  mér þetta tækifæri. Ég ætla að nýta mér það eins vel og ég get og ég veit að ég mun búa að reynslunni sem ég öðlast þar alla ævi!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.