Hvað er StarfA?

linda pehrsson starfaStarfsendurhæfing Austurlands (StarfA) er sjálfseignarstofnun, stofnuð 14. nóvember 2007 af 18 stofnaðilum á Austurlandi. Markmiðið var að tryggja öllum þeim sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda þjónustu, þar sem auknar líkur eru á atvinnuþátttöku ef skipulögð starfsendurhæfing er fyrir hendi í samfélaginu.

Hlutverk StarfA er að veita starfsendurhæfingu þeim einstaklingum sem vegna heilsubrests standa utan vinnumarkaðar og eru að leita sér leiða inn á hann aftur. Einnig að veita einstaklingum, sem eru hugsanlega á leið í nám eða hlutastarf á vinnumarkaði, þjónustu er lýtur fyrst og fremst að því að rjúfa einangrun og koma skipulagi á daglegt líf í formi félagslegrar samveru og virkni.

Markmið StarfA er að þátttakendur fari í atvinnu að endurhæfingu lokinni og/eða í áframhaldandi nám til þess að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
Stefnan hjá StarfA er að bjóða upp á snemmtæka íhlutun og einstaklingsmiðaða þjónustu í hóp. Einnig að stuðla að fjölbreyttu framboði úrræða og leiða til að efla þátttöku á vinnumarkaði og að stuðla að heildrænni endurhæfingu þar sem unnið er með líkamlega og andlega heilsu og umhverfið. Sem sagt líkamleg, sálræn og félagsleg endurhæfing. Áhersla er lögð á að þátttakendur taki ábyrgð á eigin velferð og reynt er að auka þátttöku, virkni og lífsgæði þátttakenda og fjölskyldu þeirra. Þannig viljum við nýta styrkleika og mannauðinn í nærsamfélaginu.

Hvernig gengur starfið fyrir sig?

Tilvísanir berast til Virk Starfsendurhæfingarsjóðs, sem starfar á landsvísu. Læknir vottar að heilsubrestur sé til staðar og vísar viðkomandi einstaklingi til ráðgjafa Virk. Hjá ráðgjafanum fer fram frumgreining á endurhæfingarþörf og sótt er um úrræði hjá StarfA, þar sem endurhæfing fer fram. Félagsþjónusta sveitarfélaga, Vinnumálastofnun, Starf - vinnumiðlun og ráðgjöf og aðrar stofnanir geta einnig vísað einstaklingum til StarfA gegn greiðslu fyrir þjónustuna.

Starfsemi StarfA hófst aftur eftir sumarleyfi þann 20. ágúst. Fyrsti hópurinn hóf þátttöku í öflugri daglegri dagskrá undir yfirskriftinni „Af stað." Dagskráin inniheldur fjölbreytta hreyfingu, fræðslu um heilbrigðan lífstíl, hreyfingu, næringu og svefn. Einnig sjálfseflingu í formi fræðslu, verkefna og æfinga í að efla sjálfsöryggi, auka færni í samskiptum, frumkvæði og framtakssemi, ásamt því að læra á streitu og streitustjórn. Einnig er unnið með slökun og gjörhygli ásamt hópefli þar sem unnið er með traust, sjálfsöryggi og líðan í hópnum. Vinnusmiðjan er fastur liður þar sem þátttakendur gleyma stað og stund í skemmtilegum félagsskap við iðju sem gefur lífinu gildi og eykur trú á eigin getu og færni.

StarfA gengst einnig fyrir námskeiðum á borð við sjálfstyrkingarnámskeiðið „Draumar og drekar" með Katrínu Garðarsdóttur. Þar var unnið með að skerpa á draumum okkar, í hvað við viljum nota lífið, móta okkur stefnu og láta bæði stóra og smáa drauma rætast. Einnig var Katrín með fjármálanámskeið sem var mjög skemmtilegt, já ótrúlegt en satt. Fjármál eru skemmtileg þegar þau eru á „mannamáli" og þar var mikið farið í hegðun og líðan tengda fjármálum.

Vel tekið á móti fólki

Hjá StarfA er frábært starfsfólk sem tekur vel á móti fólki, leiðbeinir og hvetur það til að ná betri stjórn á eigin lífi, heilsu og vellíðan.
Endurhæfingarleiðir í boði eru grunnlína, atvinnulína, sumarlína og „Af stað". Hægt er að fá nánari upplýsingar um innihald þeirra og fyrirkomulag inni á heimasíðunni www.starfa.is.

Starfsemin á Egilsstöðum er staðsett í Ásheimum, Miðvangi 22 og í húsnæði Eskju við Strandgötu á Eskifirði í Fjarðabyggð. Endurhæfingin fer fram á mismunandi starfsstöðvum eftir þörf og aðstæðum hverju sinni. Þátttakendur geta hætt í endurhæfingu og hafið störf á vinnumarkaði hvenær sem þeir eru tilbúnir til og tækifæri gefast.

StarfA er samfélagsverkefni sem hefur samfélags- og þjóðfélagslegan ávinning í för með sér. Það hefur sýnt sig að þjónusta sem þessi hefur í för með sér færri komur á heilsugæslu og dregur þar með úr álagi á heilbrigðisstofnanir, dregur úr lyfjanotkun ásamt því að almennt aukast lífsgæði þátttakanda. Þessi þjónusta gerir gott þjónustusamfélag enn vænlegra til búsetu.

Vertu velkomin til StarfA!

Höfundur er framkvæmdastjóri StarfA

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.