Tónlistarnám eflir einstaklinginn – lagfærum laun tónlistarkennara

joney jonsdottir 600pxNú hefur verkfall tónlistarkennara staðið yfir í meira en þrjár vikur. Á meðan fara tónlistarnemendur landsins á mis við mikilvægt nám sem m.a. eykur þroska, sköpun og undirbýr þá fyrir framtíðina.

Tónlistarnám er ein leið sem foreldrar velja til að koma börnum sínum til aukins þroska og undirbúa þau fyrir lífið. Tónlistarnám hefur forvarnagildi og þar er lögð áhersla á gildi og viðhorf sem hafa áhrif á hegðun barna og ungmenna. Þar þroska þau með sér jákvætt viðhorf til góðrar ástundunar, elju við æfingar, sjálfsaga og athygli og einbeitingu. Tónlistarnám eflir margvíslegan þroska, þjálfar hugann og eykur hæfni til tjáningar og hreyfingar. Nemendur þjálfast í að koma fram, standast álag og tileinka sér vönduð vinnubrögð. Tónlistarnemandi er líklegur til að yfirfæra þessi viðhorf og gildi á önnur svið lífsins í nútíð og framtíð.

Einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt nýrri námskrá er sköpun. Tónlistarnám ýtir undir sköpun og eykur þekkingu á íslenskri menningu og tónlistarlífi. Sköpun og iðkun tónlistar auðgar menningu þjóðarinnar og skapar tekjur fyrir hana.

Tónlistin umlykur allt okkar líf sem væri tómlegt án hennar. Hún veitir okkur ánægju. Tónlistarnám eykur ánægju nemandans, þar fær hann hvatningu til að leggja sig fram og styrkir sjálfsmynd sína. Jákvæð sjálfsmynd er hverjum einstaklingi mikilvæg og eykur líkur á skapandi samfélagsþegn.

Þegar þessar staðreyndir um gildi tónlistarnáms eru skoðaðar er óskiljanlegt hvernig þjóðfélagið metur störf tónlistarkennara þegar kemur að launamálum. Þetta skýtur skökku við þegar horft er til þess að stærstur hluti tónlistarkennara á að baki margra ára háskólanám í tónlist og kennslufræði. Lagfærum laun tónlistarkennara tafarlaust, þeir eru í lykilhlutverki í tónlistaruppeldi barnanna okkar sem hefur ómetanlegt gildi fyrir þau og framtíð þeirra.

Höfundur er móðir tveggja tónlistarnemenda.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.