Vegagerðin bregst Bjarna
„Það er reyndar alveg sjálfstætt athugunarefni hvers vegna það munar á síðustu tveimur árum hátt í tveimur milljörðum króna á áætlunum um snjómokstur.“Þessi orð féllu á Alþingi þann 11. nóvember í umræðu um fjáraukalög og í samhengi við vanda Vegagerðarinnar vegna vetrarþjónustu, en það fjármagn sem Vegagerðinni er ætlað dugði engan veginn til að standa undir nauðsynlegri þjónustu, eins og við Austfirðingar urðum áþreifanlega vör við.
Sá sem lét þessi orð falla var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þjóðarinnar. Af þeim má ráða að hann sé ekki sáttur við að Vegagerðin hafi ekki getað séð það fyrir hversu mikill snjór yrði í vetur. Að því leyti virðist Vegagerðin hafa brugðist Bjarna. Kannski samstarf hennar við Veðurstofuna sé ekki nógu gott. Eða þá að vegna niðurskurðar undanfarinna ára hafi öllum spámiðlum Vegagerðarinnar verið sagt upp störfum. Kannski er ekki lengur hægt að nálgast kindagarnir til að spá í, svona rétt eins og vambirnar. Hvað veit ég?
Ég þarf reyndar að vanda mig sérstaklega mikið til þess að viðhafa ekki ljót orð um gáfnafar hæstvirts fjármálaráðherra í þessu samhengi. En ég ætla að stilla mig um það. Ég veit nefnilega að Bjarni Benediktsson er skarpgreindur maður og ég vona allra hluta vegna að hann hafi séð eftir því að láta svona vitleysu út úr sér.
Það er nefnilega eins og skáldið sagði, „Snjókorn falla, á allt og alla...“ og það er ekki nokkur vinnandi vegur (haha!) að sjá það fyrir hversu mikið mun kosta að halda þjónustunni uppi hvern vetur. En það er ekki, og það endurtakist, EKKI í lagi að það þýði að menn hætti bara að moka þegar peningurinn er búinn.
Ég óttast nefnilega að ummæli Bjarna sýni ekki takmarkað gáfnafar heldur einmitt takmarkaðan skilning og takmarkaðan áhuga á því að veita landsbyggðunum þjónustu. Þróun síðustu ára hefur verið sú að Mið-Austurland og Eyjafjarðarsvæðið hafa verið að eflast. Samgöngur milli þessara tveggja svæða eru lykilatriði og það er algjörlega óásættanlegt að þær séu fyrirvaralaust rofnar með stjórnvaldsákvörðun úr höfuðborginni. „Peningurinn búinn. Þið verðið bara að bíða vors.“
Þannig virka hlutirnir ekki í nútímasamfélagi. Atvinnulífið og samfélagið allt reiðir sig á greiðar samgöngur, hvort sem snjóar mikið eða lítið þann veturinn. Þetta verður fjármálaráðherra að skilja.
Það gætu einhverjir haldið að heilvita mönnum detti ekki annað eins í hug og að framan greinir. En bíðið aðeins við. Í frétt í Austurglugganum í dag kemur fram að í texta fjáraukalaga yfirstandandi árs segir að „reglur og þjónustustig þurfi að ráðast af og þróast samkvæmt þeim fjárheimildum sem til þess eru veittar í fjárlögum.“ Á mannamáli þýðir þetta nákvæmlega það sama og hér að framan. Vegagerðin skal halda sig innan fjárheimilda óháð stöðunni á þjóðvegum landsins.
Þetta er ekki í lagi!
Þetta er ekki í lagi!