Fjarðarheiðargöng - 3. áfangi Samganga

thorvaldur johannssonVetrarófærð og einangrun hefur staðið í vegi fyrir vexti og viðgangi bæjarfélagsins. Öryggisleysið getur verið algjört. Íbúum hefur fækkað um 40%

Samgöng eru samheiti yfir jarðgöng sem tengt geta saman byggðir á Mið-Austurlandi. Áhugafólk um Samgöng stofnuðu með sér í júní 2002 félagið „Samtök áhugafólks um jarðgöng á Mið-Austurlandi". Um markmið félagsins segir m.a. í samþykktum: „Markmið samtakanna er að gera Mið-Austurland að einu atvinnu- og þjónustusvæði, rjúfa vetrareinangrun og stytta vegalengdir með jarðgöngum milli byggðarlaga á Mið-Austurlandi."

1.áfangi Samganga: Með opnun Fáskrúðsfjarðarganga (5,9 kílómetra löng) milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar þann 9. september 2005 má segja að fyrsti áfangi Samganga hafi orðið að veruleika. Göngin tengja Suðurfirðina inn á miðsvæðið og áfram til Héraðs.

2. áfangi Samganga: Níu ár eru liðin frá opnun Fáskrúðsfjarðarganga. Með gerð Norðfjarðarganga, milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar, sem hófst í nóvember á síðasta ári er fram haldið og nú með 2. áfanga. Göngin verða 7,5 kílómetra löng með 336 metra löngum steyptum vegskálum. Nú er lokið við að grafa um 58,2% leiðarinnar (4.400 metra á 52 vikum), framkvæmdir ganga vel og er grafið báðum megin frá. Þegar göngin verða opnuð er endanlega rofin vetrareinangrun Neskaupstaðar.

Sveitarfélagið Fjarðabyggð, utan Mjóafjarðar, er þá örugglega og vel tengt landleiðina milli byggða-kjarnanna fimm með tvennum jarðgöngum og nýlega uppbyggðum og styrktum vegum frá Neskaupstað yfir í Eskifjörð, til Reyðarfjarðar og suður til Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Vegurinn um Fagradal til Héraðs hefur einnig verið styrktur og stórbættur, enda fer mikil umferð þar um í báðar áttir milli Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs sem er samgöngumiðstöð landshlutans með Egilsstaðaflugvöll, sem einnig er varavöllur fyrir flug til og frá Íslandi.

3.áfangi Samganga: Fyrirliggjandi Samgönguáætlun 2013-2016 gerir ráð fyrir að frekari rannsóknir við Fjarðarheiðargöng hefjist í ár. Allnokkrar skoðanir og rannsóknir hafa farið fram í gegnum tíðina á heiðinni, jarðgangaleiðum og hugsanlegum gangamunnum* og byrjað var á nýjum rannsóknum nú í lok júnímánaðar. Ætlunin var að bora holu niður á 550 metra frá háheiðinni til að kortleggja betur berglagastaflann. Borinn festist á 420 metra dýpi og var borun þá hætt. Hann stoppaði skammt ofan við möguleg jarðgöng. Haft er eftir forstöðumanni jarðgangadeildar Vegagerðarinnar „að það hafi engin áhrif á framhaldið og ekkert hafi enn komið mönnum þar á óvart. Holan gerir samt verulegt gagn og unnið verður úr jarðsýnunum í vetur" ** Ennfremur er haft eftir honum að „engin alvarleg fyrirstaða er í berginu í Fjarðarheiðinni. Við erum tilbúnir í umræðu um hvar munnar Héraðsmegin ættu hugsanlega að vera."***

Nú í haust er skipulega og ákveðið, maður á mann, unnið að því að tryggja frekari fjárveitingar til rannsóknanna svo ljúka megi þeim og hönnun ganganna þegar Norðfjarðargöngum lýkur. Fyrir liggur stuðningur allra þingmanna kjördæmisins, allra sveitarfélaga á Austurlandi og meirihluta Alþingis við verkefnið. Seyðfirðingar og velunnarar sem beðið hafa úrlausn sinna mála, bráðum í hálfa öld, munu ekki una sér hvíldar fyrr en Fjarðarheiðargöng (Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði) hafa tryggilega verið skrifuð inn í samgönguáætlun sem næsta framkvæmd á eftir Norðfjarðargöngum.

Brothætt byggð: Seyðisfjörður er brothætt byggð sem ekki þolir lengri bið. Vetrarófærð og einangrun hefur staðið illilega í vegi fyrir vexti og viðgangi bæjarfélagsins. Kvíðinn og öryggisleysið getur verið algjört þegar heiðin er lokuð dögum saman í slæmum vetrarveðrum.

Íbúum hefur fækkað um 40%. Þeir sækja þjónustu yfir Fjarðarheiðina, mest í Egilsstaði. Nokkrir tugir einstaklinga keyra daglega í og úr vinnu og skóla yfir heiðina. Grunnþjónusta sveitarfélagsins við íbúana, stefnir í að vera ekki lengur sjálfbær á staðnum. Er ekki kominn tími til að tengja og sameina þessi nágranna sveitarfélög? Af hverju að bíða? Það getur orðið of seint.

4. áfangi Samganga: Þegar framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng lýkur þá liggur beinast við að ljúka Samgöngum með tengingu Fjarðabyggðar um Mjóafjörð norður til Seyðisfjarðar inn á greiða leið til Héraðs um Fjarðarheiðargöng. Þar með er komin öflug hringtenging byggðarlaganna á Mið-Austurlandi með tryggum heilsársvegum sem er forsenda fyrir einu þjónustu- og atvinnusvæði. Vetrarófærð á Oddskarði, Fjarðarheiði, Mjóafjarðarheiði og Fagradal heyrir þá sögunni til sem vandamál. Markmið Samtaka áhugafólks um jarðgöng á Mið-Austurlandi er þar með komið í höfn.

Heimildir:
*Samantekt um fyrri rannsóknir á jarðfræðilegum aðstæðum og mögulegum jarðgangaleiðum má m.a. finna í skýrslu Vegagerðarinnar frá í janúar 2011.
**Austurglugginn 5. sept. 2014.
***Rúv.is 5. nóv. 2014.

Höfundur er fyrrverandi bæjarstjóri, nú eldri borgari og stjórnarmaður í Samtökum áhugafólks um jarðgöng á Mið-Austurlandi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.