Alþjóðadagur fatlaðs fólks
Alþjóðadagur fatlaðs fólks hefur verið haldinn 3. desember ár hvert frá árinu 1981 sem var alþjóðlegt ár fatlaðs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Markmið með Alþjóðadeginum er að auka skilning á málefnum fatlaðs fólks, réttindum þess, velferð og baráttu fyrir fullri þátttöku í samfélaginu.Að þessu sinni beina Sameinuðu þjóðirnar sjónum sínum að hlutverki tækninnar í lífi fatlaðs fólks og möguleikum þess til að nýta sér nýjustu tækni óháð getu, efnahag eða félagslegri stöðu.
Hugtakið velferðartækni er nýlegt í málinu. Með því er átt við margs konar nútímatækni sem getur stutt við færni einstaklinga með skerta getu, hvort sem er af völdum fötlunar, veikinda eða öldrunar. Tæknin getur m.a. stutt einstaklinginn á sviði tjáningar og samskipta, aukið öryggi hans, aukið möguleika til náms og vinnu og þannig stuðlað að bættum lífsgæðum og meiri þátttöku í samfélaginu.
Velferðartækni er margháttuð nútímatækni sem getur birts í ýmsum formum, allt frá algengum og þekktum hjálpartækjum eins og gleraugum eða heyrnartækjum, til mjög sérhæfðra lausna á sviði tjáskipta. Undir velferðartækni flokkast einnig ýmis konar fjarstýrður búnaður, hugbúnaður, hjálpartæki, öryggisbúnaður og ýmsar tæknilausnir í gegnum netið. Velferðartækni getur hjálpað fólki til að viðhalda færni sinni, aukið lífsgæði þess og verið stuðningur til sjálfstæðs lífs og jafnvel í sumum tilfellum komið í veg fyrir ótímabæra vistun á stofnun.
Á heimasíðu Velferðarráðuneytisins kemur fram að félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað samráðshóp til að móta stefnu um framtíðarsýn og markmið stjórnvalda á sviði nýsköpunar og tækni í félagsþjónustu. Áhersla verður lögð á þróun velferðarþjónustu og lausnir sem nýtast borgurum með sérstakar þarfir. Stefnunni er ætlað að skýra framtíðarsýn og markmið íslenskra stjórnvalda er varðar nýsköpun og tækni í félagsþjónustu. Í stefnunni á að horfa til lausna sem nýtast borgurum með sérstakar þarfir t.d. við umönnun, verklega aðstoð, hjálpartæki, skipulag á heimilum, þjálfun, endurhæfingu, sérkennslu og atvinnu með stuðningi. Velferðartækni er því ekki afmörkuð við eitthvað eitt málasvið heldur snertir hún marga málaflokka, t.d. heilbrigðismál, félagsmál, menntamál og vinnumál, auk þess að hafa áhrif á samfélagið í heild sinni.
Í sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld undirrituðu 2007, eru fötluðu fólki tryggð mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra. Samningurinn kveður meðal annars á um rétt fatlaðs fólks að upplýsinga- og samskiptatækni og aðgang að sérhönnuðum hjálpartækjum.
Í dag hefur 151 land innleitt samninginn og þar með skuldbundið sig til að virða réttindin sem kveðið er á um í samningnum. Einungis fjögur Evrópuríki eiga eftir að innleiða hann og er Ísland þar á meðal. Öryrkjabandalags Íslands stendur fyrir undirskriftarsöfnun á heimasíðu sinni þar sem skorað er á stjórnvöld að innleiða samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Höfundar eru þroskaþjálfar hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs.