29 milljónir í bætur vegna vinnuslyss

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Mylluna ehf. til að greiða fyrrum starfsmanni fyrirtækisins tæplega 29 milljónir króna með vöxtum í bætur vegna vinnuslyss sem varð haustið 2005. Maðurinn krafðist ríflega 47 milljóna í skaðabætur.

heradsdomur_reykjavik_logo_549331046.gif

Vinnuslysið varð þegar verið var að leggja háspennustreng í Áreyjadal á Þórdalsheiði við Reyðarfjörð. Höfðu stór og þung kefli með háspennuvír verið flutt að svæði þar sem leggja átti vírinn í skurð. Þurfti að losa tréklæðningu utan af keflunum áður en hægt var að rúlla vírnum út. Hvert borð í tréklæðningunni var um 5 kg þungt og slóst eitt borð í höfuð mannsins þannig að hann rotaðist og  hlaut af heilaskaða. Héraðsdómur taldi að maðurinn hefði sýnt af sér verulegt gáleysi með því að nota ekki öryggishjálm við vinnu sína, en staðfest er að öryggishjálmar voru til staðar. Í ljósi þess að maðurinn sinnti ekki eðlilegri varúðarreglu með því að nota öryggishjálm í umrætt sinn, telur héraðsdómur að maðurinn eigi að bera þriðjung tjóns síns sjálfur.

 

Eftirköst höfuðhöggsins voru mikil og langvarandi, en maðurinn stríddi við flökurleika, óbærilega þreytu og höfuðverki í kjölfar slyssins. Í skýrslu læknis kom fram að maðurinn gæti ekki einbeitt sér, sé haldinn hávaðaóþoli og ljósfælni, muni illa manna- og staðarnöfn og eigi til að missa stjórn á skapi sínu alveg gagnstætt því sem var fyrir slysið. Þá eigi hann til að sofa hátt í sólarhring í senn eftir tveggja til þriggja daga vökur.

     

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur:

http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200801655&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar