Ekki gera ekki neitt

gunnarg april1306Borgarfulltrúum Framsóknarflokksins hefur á stuttum tíma tekist að gera flokkinn eitraðan á landsvísu. Forusta flokksins verður hins vegar að axla ábyrgð á því að hafa ekki tekið í taumana og varið grunngildi flokksins.

Ljóst mátti vera hvert stefndi um leið og byrjað var að tala gegn byggingu mosku. Vera má að dulbúa hafi mátt málið sem skipulagsmál en þegar fleiri ummæli bættust við skein yfirklórið í gegn. Nýjasti afleikurinn í stöðunni er skipan Gústafs Adolfs Níelssonar sem varamanns í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar.

Gústaf Adolf hefur undanfarin ár í ræðu og riti komið fram sem talsmaður skertra réttinda ýmissa minnihlutahópa, svo sem þeirra sem eru annarrar trúar en kristinnar og samkynhneigðra. Þetta vekur upp nokkrar spurningar.

a) Styðja forustumenn Framsóknarflokksins, hvort sem er í Reykjavíkurborg eða á landsvísu, skoðanir Gústafs Adolfs í mannréttindamálum, til dæmis um trúmál?

b) Telja viðkomandi þær vera í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins?

c) Telja viðkomandi Gústaf Adolf líklegan til að framfylgja stefnu og grunngildum Framsóknarflokksins sem fulltrúi í mannréttindaráði?

Þá hlýtur einnig að vekja upp spurningar hvers vegna borgarstjórnarflokkurinn kýs að skipa flokksbundinn sjálfstæðismann sem sinn fulltrúa. Er félagatalið í borginni virkilega svona takmarkað? Stóð valið á milli Gústafs Adolfs og Gylfa Ægissonar?

Ekki einkamál borgarstjórnarflokksins

Borgarstjórnarflokkurinn er andlit flokksins í stærsta sveitarfélagi landsins. Skipanin eða aðrar gjörðir þeirra eru því ekki einkamál þeirra, sérstaklega ekki ef þær ganga gegn grunngildum flokksins. Það má kannski rifja upp 6. grein siðareglna flokksins, sem samþykktar voru á flokksþingi árið 2014, þar sem segir að jafnrétti eigi að hafa „í öllum störfum á vegum flokksins, með það að markmiði að koma í veg fyrir mismunun svo sem vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, fötlunar búsetu, stéttar, trúarbragða og heilsufars."

Telja menn skipan Gústafs Adolfs, í ljósi þeirra ummæla sem hann hefur látið falla á opinberum vettvangi, endurspegla þessi grunngildi?

En af því að málefni einstakra framboða eru ekki þeirra einkamál er ljóst að forusta flokksins brást strax í vor með því að afneita ekki skýrt málflutningi frambjóðendanna í borginni í kosningabaráttunni. Það hefði ekki þurft nema eina setningu frá einu þeirra þriggja sem eru í forustu flokksins um að málflutningurinn væri „á skjön við grunngildi flokksins" til að dempa skaðann.

Í staðinn þögðu menn eða völdu yfirklór. Mátti ekki anda á framboðið sem átti möguleika á að koma mönnum að í borgarstjórn eftir fjögurra ára fjarveru?

Það tókst, þeir urðu tveir, en spurningin er hversu mikill skaðinn varð annars staðar á landinu og hvað hann þýðir til langframa. Forustumenn annars staðar hafa lýst því að flokkurinn hafi orðið „eitraður" og enginn viljað ræða við þá nema einstaklingar með skoðanir sem þeir hafi ekki sóst eftir.

Flokkurinn komst í meirihluta á Akureyri en fyrsta setningin í meirihlutasamkomulaginu þar fjallar um jafnrétti og mannréttindi á svipaðan hátt og gert er í siðareglum flokksins. Það skyldi þó ekki vera að sú klausa skuli hafa verið sett inn til að reyna að hreinsa sig af borgarframboðinu?

Hálfu verri er rökstuðningurinn?

Fyrir viku horfði Sjálfstæðisflokkurinn upp á álíka vandræðalega stöðu eftir fáránleg ummæli þingmannsins Ásmundar Friðrikssonar um að kanna ætti bakgrunn íslenskra múslima. Viðbrögðin voru skjót. Ungliðarnir afneituðu honum á fimm mínútum og formaður flokksins, þingmenn og ráðherrar fylgdu afdráttarlaust í kjölfarið.

Valdi var náð á stöðunni strax og orðspor flokksins varið.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins tóku undir með Sjálfstæðismönnunum þegar á þá var gengið. Það var of lítið og of seint. Og þau stig sem þeir unnu hafa þegar verið strikuð út með nýjasta útspili borgarstjórnarflokksins.

Skipunin er eitt, rökstuðningurinn að baki henni er jafnvel verri. Að minnihluti vísi í samkomulag meirihluta er stórfurðulegt. Síðan hvenær varð það hlutverk minnihluta að framfylgja ákvörðunum meirihluta? Má búast við því í fleiri málum, kannski í flugvallarmálinu?

Markmið flokkakerfisins er meðal annars að endurspegla ólíkar raddir í samfélaginu. Í borgarkerfinu er Framsóknarflokkurinn ein þessara radda. Fulltrúi flokksins á að endurspegla þessa rödd.

Fljótt, fljótt sagði fuglinn

Sumir Framsóknarmenn hafa líka reynt að kenna sig við Obama Bandaríkjaforseta, eða skilgreina hann sem framsóknarmann. Þeir gætu eflaust lært sitthvað af honum.

Í bókinni „Double Down" sem fjallar um síðustu kosningabaráttu segir frá því þegar ráðgjafi flokksins talaði niður til konu mótframbjóðandans í sjónvarpsviðtali. Obama-gengið vildi standa vörð um fjölskyldu forsetans og því kom ekki til greina að opna skotlínu á hana með árás á fjölskyldu mótframbjóðandans.

Viðbrögðin meðal ráðgjafa forsetans voru snörp: „Við verðum að afneita henni, hver ætlar að byrja?" Þrír nánustu ráðgjafar forsetans sendu strax út skilaboð á Twitter og nokkrum klukkustundum síðar höfðu sömuleiðis bæði Obama og kona hans afneitað orðum ráðgjafans, sem þau vissu þó varla hver var.

Það er hlutverk flokksforustunnar að standa vörð um grunngildi hreyfingarinnar eins og þau eru samþykkt á flokksþingum. Þess vegna verður hún að taka í taumana þegar einstakir lykilmenn ganga jafn freklega gegn stefnunni og raunin er í þessu tilfelli.

Framsóknarmenn hafa löngum stært sig af því að hafna öfgum. Nú þurfa þeir að gera það innan eigin raða.

Strax.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.