Seyðfirðingar bjartsýnir á nýju ári.
Áramótabrennan logaði glatt, í blíðvirðinu, á milli Bjólfs og Strandatinds. Hún lýsti vel upp fjallahringinn þegar gefið var í á bálið. Skoteldar og blys flóðlýstu himinninn er nýtt ár gekk í garð og bergmál fjallanna kallaðist á við upplýstan himin.Mögnuð sjón og upphaf á nýju ári. Ljósaskiltið í rótum Bjólfs ,sem lýsir allt árið , breyttist kl. 12. í „Seyðisfjörður 120 ára „ Minnir okkur á að 120 ár eru liðin frá því að Seyðisfjörður fékk kaupstaðaréttindi árið 1895. Þá einn fjögurra kaupstaða á Íslandi.Afmælishátíð 26-28 júní nk.Til þess kjörin afmælisnefnd hefur boðið til fagnaðar síðustu helgi júní mánaðar nk.til að minnast afmælisins Þegar kaupstaðurinn varð 100 ára 1995 var haldin vegleg afmælishátið þessa sömu helgi. Hún stóð í 4 daga. Nú er blásið til veislu á ný þar sem bæjarbúar brottfluttir og gestir koma saman og minnast tímamótanna og skemmta sér saman í firðinum fagra Búist er við miklu fjölmenni í bæinn til að fagna með afmælisbarninu.
Þorrablótið. Seyðfirðingar blóta Þorra laugardaginn 24 jan. nk. Það er alltaf vel sótt og fjöldi brottfluttra sækir blótið , étur vel og skemmtir sér með heimamönnum fram undir morgun. Stórsöngvarinn Matti Matt og Rokabillybandið mæta á svæðið. Þorrablótsnefndin undir styrkri stjórn Sigrúnar Ólafs blótsstjóra dregur fram í fjölbreyttri dagskrá það helsta sem minnisstætt er frá liðnu ári. Kennir þar margra grasa sem hreyfir vel við viðstöddum.
Norræna siglir sem aldrei fyrr. Norræna kom sína fyrstu ferð á nýju ári 6. janúar sl. Vöruflutningar með ferjunni eru stöðugt að aukast og síðasta ferð var metferð .Fátt er um farþega á þessum árstíma . Á nýliðnu ári mætti hún vikulega til hafnar allt árið án þess að niður félli ferð. Bókanir fyrir sumarið lofa góðu.
Gullberg ehf og Brimberg ehf. Skömmu fyrir áramót keypti Síldarvinnslan útgerðarfyrirtækið Gullberg ehf og Fiskvinnsluhús Brimbergs ehf. Gullberg ehf er rótgróðið fjölskyldufyrirtæki sem í 55 ár hefur verið ein helsta kjölfestan hér atvinnulífinu "Fjársjóður fyrirtækisins er starfsfólkið okkar " sagði eigandinn. Öllum gylliboðum var hafnað . Tryggð fyrri eigenda við staðinn og fólkið sem hér býr, þ.e. athafnamannsins Ólafs M. Ólafssonar og Jóns Pálssonar við stýrið ásamt framkvæmda-stjóra Gullbergs Adolfs Guðmundssonar , ber sérstaklega að þakka um leið og nýir eigendur eru boðnir velkomnir til samstarfs.
Nýir eigendur fara vel af stað Til að undirstrika vilja forveranna reka nýir eigendur fyrirtækið áfram í nafni Gullbergs en styrkja undirstöðuna með fiskvinnslu í eigin húsnæði. Fyrir eiga þeir fullkomna fiskimjölsverksmiðju á Seyðisfirði og þekkja því vel allar aðstæður á staðnum. Fyrstu skrefin lofa góðu þar sem togarinn Gullver fær nú auknar heimildir til veiða , vinnsla í frystihúsinu verið aukin og meiri flutningur sjávarafurða með Norrænu sem gefur ný tækifæri. Heyrst hefur að hugað verði fljótlega að endurbótum á húsnæði vinnslunnar sem komið er til ára sinna.
LungA skólinn. Listalýðháskóli, sá fyrsti á Íslandi, starfaði sína fyrstu önn hér í haust með 12 nemendum í 3 mánuði.Sjálfstæð menntastofnun og athygliverð viðbót við núverandi staðlað skólakerfi . Nemendur komu víða að úr heininum og setja þeir skemmtilegan svip á samfélagið okkar hér meðan á dvöl þeirra stendur.Skólinn leggur áherslu á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu. Nú er vorönnin nýhafin með svipuðum fjölda nemenda Mikil eftirvænting er hjá þeim að takast á við veturinn og verkefnin í nýju spennadi umhverfi. Seyðisfjörður býður nýja íbúa velkomna.
Lionsþingið 15-17 maí. Ársþing Lions á Íslandi verður haldið á Seyðisfirði helgina 15-17.maí. Lionsklúbbur Seyðisfjarðar og Múli Lionsklúbbur Egilsstöðum sjá um undirbúning og framkvæmd. Gunnar Sverrisson Lkl Sf hefur borið þungann og hitann af allri skipulagningu en kallar nú til liðs við sig vaska sveit félaga sem vinna nú hörðum höndum að því að hafa allt klárt á réttum tíma. Búist er við miklum fjölda félaga og gesta í bæinn og allt gistirými löngu upp pantað.
Skemmtiferðaskipum fjölgar. Sl sumar komu aðeins 10 skemmtiferðaskip til Seyðisfjarðarhafnar sem eru fæstu skipakomur í allmörg ár. Nú bregður hinsvegar svo við að bókaðar hafa verið komur 27 skemmtiferðaskipa á komandi sumri og 9 skip hafa þegar bókað komu sína sumar 2016 Seyðfirðingar fagna því aukinni umferð ferðafólks og vöruflutninga um höfnina á nýju ári.
Skíðasvæðið í Stafdal: Svæðið opnaði milli jóla og nýjárs . Snjó hefur vantað á svæðið en reynt er að hafa Barna lyftu og Neðri lyftu opna þegar gefur. Kennsla er í fjallinu og „krílaskólinn" er tekinn til starfa.Allir eru velkomnir í Stafdalinn . Sjáumst í fjallinu.
Skaftfell menningarmiðstöð myndlistar á Austurlandi . Fjöldi innlendra og erlendra listamanna dvelur um lengri eða skemmri tíma á Seyðisfirði m.a. í tengslum við miðstöðina. Sýningar þeirra eru fjölbreyttar og spanna litrófið allt með frumlegri túlkun í framsetningu.Sjón er sögu ríkari.
Rannsóknir á Fjarðarheiðinni. Í fjárlögum ríkisins í ár er fjármagn til að klára rannsóknir á Seyðisfjarðargöngum undir Fjarðarheiði. Þá verða munnastæði endanlega valin báðu megin heiðarinnar og næsta skerf er að hanna göngin og gera klár í útboð. Stefna verður sett á að framkvæmdir við Seyðisfjarðarargöng hefjist strax að loknum Norðfjarðargöngum .
Skrifað Seyðisfirði á þorra : Þorvaldur Jóhannsson