30 milljónum úthlutað til menningarverkefna á Austurlandi
Menningarráð Austurlands úthlutar í dag, þriðjudaginn 27. janúar, um 30 milljónum króna til menningarstarfs á Austurlandi. Þetta er í níunda sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi menntamálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál.
Úthlutunin fer fram við hátíðlega athöfn í Kirkju- og menningarmiðstöðinni í Fjarðabyggð kl. 15.00. Ávarp flytja meðal annarra, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneyti, Helga Haraldsdóttir, og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, Björn Hafþór Guðmundsson.
Hinn 14. maí 2001 undirrituðu öll sveitarfélögin á Austurlandi samstarfssamning um menningarmál og gerðu samning við menntamálaráðuneyti. Samningurinn var endurnýjaður 15. mars 2005, og í þriðja sinn 9. janúar 2008, þá við menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Austurlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Austurlandi við slíkt starf í einn farveg.
Menningarráð Austurlands er sjálfstætt ráð kosið af fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi. Hlutverk ráðsins er að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, hvetja til samstarfs og faglegra vinnubragða og stuðla að almennri vitund og þekkingu um málaflokkinn. Menningarráð Austurlands úthlutar fjármagni til menningarverkefna á Austurlandi samkvæmt samningi ríkis og sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál og hefur eftirlit með framkvæmd þess samnings.
Signý Ormarsdóttir er menningarfulltrúi Austurlands.