Fjarðabyggðarfundurinn á dögunum
Fyrir nokkrum árum boðaði sveitastjórn Fjarðarbyggðar til samskonar fundar á Stöðvarfirði, þá fékk fólk, líkt og nú, að vita það, komið á fundinn að hann væri ekki um það sem stóð í auglýsingunni. Stöðfirðingum var sem sagt ekki ætlað að hafa, þá, skoðanir á neinu á fundinum nema sem snertu þennan friðsæla byggðakjarna. Fundarfólk sætti sig við orðinn hlut og viðraði þær skoðanir að hvað sem gert yrði í byggðinni þá mætti ekki spilla Balanum.Það liðu ekki margar vikur uns komið var með graftól og vörubíl og grafið upp úr einu horni balans til að koma þar fyrir sparkvelli. Það var ekki nóg með að þetta væri ekki í samræmi við skipulag heldur einstaklega óheppilegt staðarval fyrir barnaleikvöll, við hliðina á krossgötum!
Þegar ég sá að hverju fór með „þennan fund" stóð ég upp og kom mér heim að skrifa þetta, ekki um fundinn auðvita hann var hvort eð er ekki um efnið sem boðað var og eins hitt að uppsetningin var nægt efni til að skemmta sér yfir.
Auðvita er lítilþægni og aumingjaskapur þeirra, sem tekið hafa að sér að fara með málefni sveitarfélagsins míns, mér ekkert ánægjuefni nema að því sem það fyllir brunn sjálfsánægjunnar sem hefst út úr því að hæðast að fólki.
Ég bjó mig á dögunum undir að verja samt hagsmuni barna í þessu sveitarfélagi af talsverðri grimmd. Bara svo það sé á hreinu, þau eru öll mín þótt ég eigi ekkert þeirra.
Ég skil það að þeir sem láta sér detta það í hug að bera fyrir sig endurskoðendafyrirtæki úr hrunbókmenntunum hafi ekki mikinn skilning á því að koma börnum til manns eða mennta. Séu aukin heldur til í að hygla sínum börnum á kostnað annarra manna barna og mundu leggja þau í einelti ef þeir ættu bara kost á því. Vont fólk? Bara vitlaust?
Vitaskuld hefur okkur tekist að velja fólk til forystu í sveitastjórnir og landsstjórn með greinilegum annmörkum og það beinlínis tölfræðilega. Kynjaskiptingin ber þess órækt merki. Að vísu fyrirfinnast einstaklingar sem eru þess fullvissir að þekking á hlutunum sé beinlínis óheppileg hjá stjórnendum, og í ár er verið að reyna að halda upp á það að liðin eru aðeins 100 ár frá því konur fengu, að vísu með sérstökum takmörkunum, að kjósa til þings. Auðvitað ættum við að vera með meirihluta kvenna þar sem verið er að ráðskast með lífið og tilveruna, í stjórnarráðinu, á Þinginu, í sveitastjórnum, nema kannski hafnarnefndinni.
Sveitastjórnir eiga fjögur ár, mannskepnan svona að hámarki 70 virk, 365 daga í árinu og 24 tíma í sólahringnum og þetta gildir fyrir alla. Það er nú sem aldrei fyrr nauðsynlegt að virða fólk og ekki síst tíma þess og þetta á sko heldur betur við um börnin, börnin sem eru að taka hratt út þroska. Það eru auðvita heldur ekki ný sannindi að við lifum í samkeppnisþjóðfélagi og það á ekki að vera í boði að mismuna börnum.
Ef einhver sem les þessar línur heldur að þessi krummi sé að velta hér fyrir sér einum skóla, einu þéttbýli, þá er það misskilningur. Ég er alinn upp á Seyðisfirði og Norðfirði, bý á Stöðvarfirði á rætur í Djúpavogshreppinn og hef unnið vítt og breitt í fjórðungnum og get bara ekki að því gert að horfa til hyldjúprar heimsku þar sem ekki er búið að gera allt Austurland að einu sveitarfélagi fyrir mjög svo löngu.
Sú „frumstæða" hagsmunabarátta sem á grunn sinn í hagabeit búfjár ætlar seint að láta undan og allra handa glópska, í samgöngumálum, heilbrigðismálum og skólamálum er pottþétt ekki fyrir bí.
En, það er svo dæmi sé tekið hægt að kenna börnum um fjarfundabúnað sem þegar er til staðar.
Um það leiti sem tölvurnar komust þar í verði að geta orðið almenningseign settu kennarar sig upp á móti þeim af alefli, börnin lærðu á þær annarsstaðar og urðu kennarar, fóru í verkfall og heimtuðu hærra kaup út á þessar tölvur. Það verður hins vegar ekki annað séð en yfirvöld þessara fyrstu tölvuára hafi á sínum tíma brugðist við með skemmtilegum hætti, keypt Makka til að kennarar þyrftu ekki endilega að „skilja" þessa tækni til að nota hana.
Svo illa sem ég ætla mögulega að treysta málflutningi sumra kennara í komandi umræðu er mér enn verr við KPMG.
„Það er ljóst að launaupplýsingar eru mjög viðkvæmar og í mörgum tilvikum kjósa stjórnendur að útvista útreikningi launa sinna starfsmanna. Þar að auki hefur það færst í vöxt að við reiknum laun einungis fyrir hluta starfsmanna viðskiptavina okkar t.d. stjórnarmanna og æðstu stjórnenda", bendir Birna á."
Úr auglýsingu, kynningu, í Fréttablaðinu 22. janúar 2015 frá KPMG.
Fyrirtækið tók líka að sér fyrir nokkrum misserum að gera úttekt fyrir flugvallarvini og notaði þar tölur sem fengnar voru úr því þéttbýli sem enn státar af flugsamgöngum og lögðu niðurstöðuna upp eins og þar færi gjörvöll landsbyggðin. Þessi dómadags samsuða var svo notuð í áróðursstríði fyrir Vatnsmýrarbullinu eins og vísindi.
Það er ofur skiljanlegt að fólk sem til skiptis kemst ekki með fæturna á jörðina eða tekst ekki að standa í lappirnar skuli vilja leita skoðunum sínum stuðnings þangað sem það finnur fólk sem er til í að bakka það upp gegn greiðslu auðvita, en að kalla það að leita eftir utanaðkomandi sjónarhorni er þvættingur.
Svo miklu náði ég af máli unga mannsins á fundinum að finna að við hefðum átt sitthvað órætt um A og B hluta reikninga sveitarfélaga, eins það að ég gat ekki verið honum meira sammála um að samstöðu væri þörf. Sú samstaða verður hinsvegar að vera um hagsmuni barna og má undir engum kringumstæðum rofna við Kambaskriður.
Þegar ég skrifaði sveitastjórninni minni, næstri á undan þessari að vísu, og bað hana að gera nú fyrirbyggjandi ráðstafanir til þess að ekki yrði til hreindýrahjörð á Stöðvarfirði, svaraði hún um síðir að láta mig vita að umhverfisráðuneytið ætti með hreindýr. Mikið vildi ég að við hefðum gott sameiginlegt þorrablót.