Seinna er of seint – íslensk náttúra treystir á okkur!

natturupassagrein aksUmræðan síðustu mánuði hefur dvalið töluvert við frumvarp um náttúrupassa og rétt okkar Íslendinga til að ganga óhindrað um íslenska náttúru eins og okkur hentar best. Nýframlagt frumvarp ráðherra hefur fengið bæði jákvæða og neikvæða umfjöllun og sitt sýnist hverjum.

Persónulega gat ég ekki alveg gert upp hug minn gagnvart þessari útfærslu fyrr en ég var búin að kynna mér málið töluvert vel og vega og meta kostina sem í stöðunni voru. Þeir kostir sem mest hafa verið í umræðunni fyrir utan náttúrupassann eru:

• Komugjöld / ferseðlagjald
• Hækkun gistináttaskattar
• Rútugjöld

Það eru auðvitað rök með og á móti öllum þessum kostum og þegar þeir eru bornir saman þá er ýmislegt sem þarf að skoðast í samhengi.

Komugjöldin ganga ekki upp samkvæmt EES löggjöf þar sem ekki má leggja sérstakt gjald á farþega sem flokka má sem landamæragjöld og með aukinni skattlagningu á ferseðla væri tilkomið gjald á alla flugfarþega, líka þá sem ferðast með innanlandsflugi og alla Íslendinga sem ferðast með millilandaflugi, að því gefnu væri innheimta af uppbyggingargjaldi til verndunar ferðamannastöðum að koma um 40-50% frá Íslendingum sjálfum. Þarna væri þá komið ígildi ákveðins landsbyggðaskatts með aukinni álagningu á innanlandsflug sem er augljóslega afleit leið.

Með hækkun gistináttaskatts er verið að leggja auknar álögur á eina tegund ferðaþjónustu og alls ekki verið að ná til allra þeirra gististaða sem í boði eru fyrir ferðamenn. Þar verður líka að taka inní fjölda þeirra sem gista á hótelum, sér í lagi í Reykjavík sem eru ekki á nokkurn hátt ferðamenn heldur innlendir og erlendir aðilar úr viðskiptalífi, fólk sem þarf að nýta sér læknisþjónustu, stjórnsýsluna og svo mætti lengi telja. Þá má einnig nefna að þær tekjur sem koma af þessari leið duga ekki til að mæta þeirri miklu þörf sem myndast hefur í viðhaldi og uppbyggingu. Sama gildir um auknar álögur á rútufarþega, þar er það ein tegund þjónustuaðila sem ber aukinn kostnað og getur varla talist sanngjörn leið, sér í lagi þar sem ekki er horft til þeirra sem leigja bílaleigubíl sem er ört vaxandi hópur.

Vera má að frumvarpið sé ekki fullkomið og að þar þurfi að laga ýmsar útfærslur, en sú hugmyndafræði sem kynnt er með náttúrupassanum gengur upp í mínum huga gagnvart því að vera sanngjörn leið, byggð upp af þeim sem eru að njóta náttúrunnar bæði innlendum og erlendum ferðamönnum en að mun stærri hluta þeim sem koma sérstaklega hér til lands til að skoða náttúruna okkar, þannig breytast þessi hlutföll í að erlendir ferðamenn greiða um 85-90% af uppbyggingunni í gegnum náttúrupassann og við hin, íbúar þessa lands greiðum okkar hluta, 500 krónur á ári í þrjú ár. Tekjur af innheimtu náttúrupassans verða síðan nýttar til þess að vernda viðkvæma staði, byggja upp aðstöðu s.s klósett, göngustíga, skilti og fleira á fyrirfram skilgreindum ferðamannastöðum þannig að ósnortin náttúran geti áfram orðið aðdráttarafl yfir milljón ferðamanna á ári næstu árin, ekki bara á næsta ári, síðan er bara allt bú!

Áætlað er að tekjur af innheimtu náttúrupassans verði rúmlega fjórir milljarðar á næstu þremur árum. Áætlað hefur verið að brýnustu aðgerðir sem fara verður í á viðkvæmum ferðamannastöðum sé um einn milljarður á ári.

Hættulegast af öllu er sú ósamstaða sem komin er upp í þessum mikilvægu málum og leiðir hún fyrst og fremst til þess að ekkert gerist og innan skamms verður Ísland langt í frá aðlagandi áfangastaður. Ég skora á fólk í ferðaþjónustu, íbúa landsins og alla hagsmunaaðila að sameinast um útfærslu náttúrupassans, sameinast um verndun náttúrunnar og mikilvæga uppbyggingu sem verður að eiga sér stað hið allra fyrsta. Seinna verður of seint.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.