Fortitude: 2. þáttur. Myljandi spenna!

sigga lara jan15 0013 webJæja, þrátt fyrir ákveðnar efasemdir eftir síðasta þátt var ég orðin mjöööög spennt í gærkvöldi. Búin að fara í bað og koma mér svakalega vel fyrir í náttfötunum, undir sæng, fyrir framan sjónvarpið. Og var staðráðin í að horfa nú með jákvæðu gleraugunum á þetta alltsaman. Ég vil nefnilega fá Fortitude aftur austur. Stanley Tucci í ræktina. Dumbledore í kaupfélagið. Aukahlutverk fyrir alla. Allt þetta ætlaði ég að láta gerast, með hugarorkunni. Svo ég bað í hljóði til IMDB, krossaði putta og tær, og beið átekta.

Byrjunin á þáttunum er flott. Tónlist og myndir eru skemmtilega kryptísk. Fólkið sem mér fannst ég ekki kynnast almennilega í síðasta þætti þekkti ég nú, allt í einu, út og inn. Ekki það að ég viti endilega hvað í gangi hjá þeim en ég er orðin mjög spennt fyrir að komast að því. Ég hef ákveðinn grun um að einhverjir séu með óhreint mjöl hér og hvar. (Hvað eru lögginn og landstjórinn að bralla?) Og svo er mér orðið meinilla við suma án þess að vita hvers vegna. (Af hverju er mamma veika drengsins svona undarlega dauðyflisleg?) Svona fyrir utan að ég veit ekkert með hverjum ég held. Mjöööög spennandi.

Mér finnst bærinn vera að teikna sig vel. Ég er alveg nokkurn veginn komin með það hvernig hann er í laginu og pæli ekkert í því lengur hvaða staðir þetta eru í raun og veru. Í þessum þætti kom líka fullt af upplýsingum í gegnum hin og þessi samtöl. Frekar vel gert, fannst mér. Engu ofaukið, ekki of stórir skammtar, ekki fólk að segja hvað öðru hvað allir viðstaddir vita. Ég tek aftur allt neikvætt um handritshöfunda. Þetta eru klárlega Schnillingar.

Bæjarpöbbinn með þungarokkinu er skemmtilegur. Þessi undarlega bæjarsamsetning þar sem námuverkamenn, vísindamenn og fólk með ferðaþjónustudrauma blandast saman, og stundum í sama fólkinu, er mjög heillandi. Þetta er mjög undarlega samsettur heimur. Hann lýtur sínum eigin lögmálum og þau eru að skýrast mjög mikið.

Ég þurfti ekkert að nota neina aukaskammta af jákvæðni, þegar til kom.

Þessi þáttur virkaði mjög stuttur. Allt mögulegt að gerast.

Svo nú er ég spennt! Alveg myljandi spennt!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar