Gagnrýni: Hárið

harid va 0019 webLeikhópurinn Djúpið sýnir um þessar mundir leikverkið Hárið í Egilsbúð í Neskaupstað. Stefán Benedikt Vilhelmsson leikstýrði. Rýnandi Austurfréttar skellti sér á sýningu, en hitti reyndar á Júróvisíon-kvöldi Valentínusardags þannig að sjálfsagt hefur nú salurinn oftast verið setnari. Djúpsfólk lét það ekki á sig fá og skilaði áhugaverði sýningu.

Hárið var samið af tveimur atvinnulausum leikurum, Ragni og Rado, og fyrst sýnt á Broadway árið 1968. Verkið var í raun andófsgjörningur gegn stríðsrekstri og verkið ekki mjög línulegt í uppsetningu. Það er að miklu leyti samansafn af stuttum atriðum sem fjalla um það sama og því getur áhorfendum þótt erfitt að komast inn í framvinduna.

Leikmyndahönnun Stefáns Benedikts var áhugaverð en í stað þess að halla salnum er sviðinu í raun hallað, með pöllum og LED-ljósaeffekt inni í þeim var mjög töff. Skjáir í bakgrunni nýttust einnig mjög skemmtilega en ég man ekki eftir að hafa séð slíkt áður í sýningu á Austurlandi. Búningahönnun Þórfríðar Soffíu Þórarinsdóttur og listaakademíu VA var einnig til mikils sóma.

Hópatriði voru nær undantekningalaust vel leyst og söngurinn var traustur. Írena Fönn Clemmensen sem lék Crissy og Hart stóð sig sérstaklega vel í þeim efnum. Stöku sinnum vantaði kraft í sviðshreyfingar og leikarar áttu til að vera þvingaðir. Allir skiluðu þó sín, Fannar Örn Þórarinsson var nokkuð góður Berger, Þórir Snær Sigurðarson var flottur sem svertinginn Hud og Tristan Theódórsson fyllti vel út í hlutverk liðþjálfans. Álfdís Helga Þórsdóttir var mjög góð Sheila og sorg hennar í lokaatriðinu einstaklega sannfærandi.

Nektaratriðið var leyst með ádrepu til áhorfenda og var umhugsunarefni. Það var þó í henni ákveðinn predikunartónn og ef til vill ekki laust við að talað væri niður til áhorfenda.

Þrátt fyrir örlítil tæknileg mistök þegar leggja átti í hann eftir hlé voru tæknimál sýningarinnar til fyrirmyndar. Tónlist, útlit, lýsing og leikrit unnu vel saman og skapaði góða heildarmynd.

Leikfélagið Djúpið heldur upp á tíu ára afmæli sitt með sýningunni. Tilkoma félagsins hefur lyft upp félagslífi Verkmenntaskólans og aukið veg hans. Verkið skilar þjálfun í fleiru en bara leik og framfarir sjást ár frá ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar