Er tómlæti að drepa svæðisfjölmiðlana?

hrafnkell larusson headshotFrá síðustu aldamótum hefur starfsemi fjölmiðla á Austurlandi dregist mjög mikið saman. Árið 1998 störfuðu 16 manns við hefðbundna fjölmiðla á Austurlandi (þ.e. í Múlasýslum). Árið 2006 voru þeir 11 en í dag eru þeir 6. Starfsemi landsmiðla sem áður var töluverð er að mestu horfin af svæðinu –fyrir nokkru síðan. Fréttaflutningi af svæðinu og innan þess er sinnt eftir sem áður en eðlilega er krafturinn minni þegar svo fáir starfandi fjölmiðlamenn eru eftir.

Návígi fjölmiðils og samfélags

Það er þáttur í starfi hefðbundinna fjölmiðla, sem birta ritstjórnarefni, að flytja fréttir fjalla um dægurmál og vera í sífelldu samtali og samskiptum við nærumhverfi sitt. Hvað gerist í nærumhverfinu mótar efnistök fjölmiðlanna og umfjöllun þeirra dregur athygli samfélagsins að þeim málum sem um er fjallað. Þetta samband er sérstaklega náið í tilfelli svæðisfjölmiðla. Nándin í samfélaginu er veigamikið atriði í þessum efnum, bæði sem kostur og galli. Þéttriðið tengslanet getur auðveldað aðgang að upplýsingum og fólki en setur starfsmenn svæðisfjölmiðla líka í meira návígi við samfélagið.

Gagnkvæm áhrif svæðisfjölmiðla og samfélaga birtast hvað skýrast í upplýsingaflæðinu. Virkni samfélaga við að koma á framfæri við svæðisfjölmiðlana upplýsingum um umfjöllunarverð mál og atburði styrkir fjölmiðlana og gerir þá að öflugra tæki við að upplýsa samfélagið og líka við að móta ímynd þess. Í gegnum reglulegt samspil geta samfélögin þannig verið virkur þátttakandi í dreifingu upplýsinga og sköpun eigin ímyndar bæði innávið og útávið. Öflug dreifing upplýsinga innan svæðis eflir þekkingu íbúa á málefnum þess og er líkleg til að gera þá áhugasamari um eigið nærumhverfi og viljugri til þátttöku í samfélaginu.

Áhrif samfélagsins á fjölmiðlana

Til þess er ætlast af svæðisfjölmiðlum að þeir hlúi að samfélögunum sem þeir starfa í. Þetta er nauðsynlegur þáttur í starfi þeirra því fjölmiðill sem kominn er upp á kant við samfélagið þrífst ekki lengi í því. Ef neytendur snúa baki við fjölmiðlinum munu auglýsendur gera slíkt hið sama og þá verður brátt sjálfhætt. Starf blaða- og fréttamanna á svæðisfjölmiðlum er því samfelldur línudans á milli þess að starfa annars vegar faglega og af metnaði við að sinna þremur meginhlutverkum hefðbundinna fjölmiðla (aðhalds-, upplýsinga- og umræðuhlutverkum) og hins vegar að þóknast almennu viðhorfi íbúa varðandi hvaða mynd fjölmiðillinn dregur upp af samfélaginu. Þetta tvennt fer ekki alltaf vel saman, einkum þegar algengt er að ýmsir séu tilbúnir til að reyna að stýra umfjöllun svæðisfjölmiðla. Að kjörnir fulltrúar, embættismenn sveitarfélaga eða forsvarsmenn fyrirtækja beiti sér gegn svæðisfjölmiðlum, hóti þeim eða leggi þeim línur um umfjöllunarefni eða efnistök (eins og dæmi eru því miður um), er ógn við lýðræði á viðkomandi svæði og ber vott um einræðistilburði þeirra sem slíkt gera, skilningsleysi á starfsemi fjölmiðla og virðingarleysi fyrir mikilvægi sjálfstæðis þeirra.

Svæðisbundir fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki gagnvart stofnunum samfélagsins, svæðisbundnu lýðræði (bæjar- og sveitarstjórnum og stofnunum þeirra), atvinnulífi o.fl. Íbúar eiga enda rétt á að vita hvaða ákvarðanir eru teknar er varða þeirra samfélag, hverjir taka þessar ákvarðanir, hvernig og á hvaða forsendum. Í þessu tilliti er þörf fyrir öfluga svæðisfjölmiðla með sjálfstæða ritstjórn sem veita aðhald, kalla eftir upplýsingum, vinna úr þeim og koma á framfæri við samfélagið.

Vald yfir svæðismiðlum

Fyrir svæðisfjölmiðla sem lifa eingöngu á áskriftar- og auglýsingatekjum hefur þróunin almennt verið sú að vegna tekjusamdráttar minnkar svigrúmið til vandaðrar efnisvinnslu. Það eykur svo líkur á að „léttmeti" verði meira áberandi í efni fjölmiðilsins. Þetta er bein afleiðing af fjárhagslegum þrengingum og því að ritstjórnir eru fámennar og starfsmenn fjölmiðlanna þurfa að verja stærri hluta vinnutímans í rekstur miðilsins í stað þess að sinna ritstjórn og efnisöflun.

Annað sem getur sett svæðisfjölmiðlum ritstjórnarlegar skorður er hve algengt er að þeir séu fjárhagslega háðir einum eða fáum aðilum sem ýmist eru eigendur miðilsins eða stærstu auglýsendur hans (eða styrktaraðilar). Slíkir aðilar eru jafnan fyrirferðarmiklir í samfélaginu og þræðir þeirra liggja víða. Þegar tengsl fjölmiðils við hagsmunaaðila eru áberandi getur það haft neikvæð áhrif á viðhorf íbúa til trúverðugleika og óhlutdrægni viðkomandi fjölmiðils. Á móti kemur að fjölmiðillinn á óhægt um vik að losa um slík tengsl þar sem hann er háður tekjunum sem þau skapa. Að slíta tengslin myndi því líklega jafngilda því að hætta starfsemi.

Þeir fjölmiðlar sem nú starfa á landsvísu hafa bæði takmarkað rými, getu og áhuga á að sinna málefnum fámennari byggða. Því er hætt við að þögn ríki um mörg hagsmunamál íbúa á fámennari svæðum ef svæðisfjölmiðlar eru veikir eða ekki til staðar. Skortur á þeim er til þess fallin að ala á tortryggni gagnvart stjórnsýslu og kjörnum fulltrúum og leiða til áhugaleysis íbúa á málefnum samfélagsins sem og á þátttöku í lýðræði.

Framtíðin?

Dreifing upplýsinga hefur á síðari árum færst í töluverðum mæli inn á samskiptamiðla á netinu. Sú „fjölmiðlun" er hins vegar ótraust, dreifð og ristir oft grunnt. Þörfin fyrir svæðimiðlun er því enn til staðar. En ógnirnar sem að henni steðja eru það líka.

Ein þeirra er sú hvort svæðisfjölmiðlunum tekst að halda í við þróun samfélagsins og þarfir þess fyrir upplýsingar og umfjöllun. Annað, en því tengt, er svo rekstrarlega hliðin. Munu svæðisfjölmiðlar lifa af ef þeir þurfa nær eingöngu að reiða sig á tekjur af auglýsingum frá einkaaðilum og félagasamtökum þegar tilhneigingin er sú að fjármagn leitar þangað sem meira er fyrir? Samfélagslegt mikilvægi lítilla fjölmiðla virðist ekki vega þungt á metunum þegar auglýsendur, bæði opinberir aðilar og einkaaðilar, velja hvernig fjármunum skuli varið.

Því er spurningin: Ætla stofnanir samfélagsins og kjörnir fulltrúar þess að horfa aðgerðalausir upp á svæðismiðlana verða annað hvort máttlausar málpípur hagsmunaafla eða veslast upp og deyja og samfélögin verði þannig af þjónustunni sem þeir veita?

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.