Er umræðustýring og þöggun framtíðin?

hrafnkell larusson mars14Varnarbarátta hefðbundinna fjölmiðla, einkum vegna rekstrarerfiðleika, sem torvelda þeim að þjónusta samfélagið með fréttaflutningi, aðhaldi og markvissri greiningu er eitt af einkennum fjölmiðlaþróunar og upplýsingadreifingar undanfarinna ára. Annað einkenni eru svo áhrif fjölgunar almannatengla fyrirtækja og stofnana (svokölluð PR-væðing) á upplýsingadreifingu sem birtist í að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir leitast við að stýra umfjöllun um sig sjálf. Nokkuð sem á tíðum er beinlínis andstætt almannahagsmunum.

PR-væðing og atlögur að fjölmiðlum

Sú einhliða, gagnrýnislausa og „jákvæða" upplýsingadreifing sem PR-væðingin skapar er orðin það sem sumir virðast telja nægjanlega og „eðlilega" fjölmiðlun. Ef hún nær yfirhöndinni mun það leiða til þess að þeir sem hafa valdið og/eða fjármagnið muni ráða því hvaða upplýsingar almenningur fær og hverjar ekki. Það mætti eyða löngu máli í að útskýra hversu varasöm sú þróun er fyrir hagsmuni almennings og lýðræðilega umræðu, auk þess sem mætti rekja dæmi frá fyrri árum þessarar aldar því til stuðnings, en til þess er ekki rúm hér.

Einstaka stjórnmálamenn og sterkir hagsmunaaðilar hafa undanfarin misseri beitt sér opinberlega gegn fjölmiðlum sem þeim eru ekki þóknanlegir með það illa dulda markmið að grafa undan trúverðugleika viðkomandi fjölmiðla. Aðrir hafa einfaldlega keypt fjölmiðla og/eða rekið blaðamenn, að því er virðist í þeim tilgangi helstum að þagga niður í gagnrýninni fréttamennsku. Afskipti af fjölmiðlum sem byggjast á þrýstingi eða beinum hótunum eru raunar ekki nýtilkomin. Þau hafa verið til staðar lengi. Líka á Austurlandi. Harkan og ágengnin gagnvart fjölmiðlunum fer hins vegar vaxandi.

Breytt fjölmiðlaumhverfi

Austfirskt fjölmiðlaumhverfi breyttist mikið á árunum 1985 til 2010 og hélst það á margan hátt í hendur við almenna þróun fjölmiðla í landinu sem svo dregur dám af þróun fjölmiðla í nágrannalöndunum. Þó miklar tæknibreytingar hafi orðið þá er þörfin fyrir hefðbundna fjölmiðla enn til staðar. Upplýsinganeysla fólks hefur stóraukist á undanförnum árum og framboð upplýsinga sömuleiðis. En sú þróun hefur ekki gert hefðbundna fjölmiðla óþarfa. Þvert á móti er þörfin fyrir þá enn mikil. Áður var hún einkum fólgin í að miðla upplýsingum sem almenningur hafði takmarkaðan eða engan aðgang að en í dag er mikilvægið ekki hvað síst fólgið í að „ritstýra" þeim upplýsingum sem til staðar eru og greina kjarnann frá hisminu.

Allir stærstu fjölmiðlar landsins hafa höfuðstöðvar sínar og nær alla starfsemi sína í Reykjavík. Starfsemi þeirra, líkt og svæðismiðla, dregur dám af umhverfi sínu sem mótar efnistök og áherslur. Borgarsamfélagið er eðlisólíkt fámennari samfélögum landsins og skiljanlegt er að sjóndeildarhringur fólks í ólíkum samfélögum sé ekki sá sami. En sá halli sem er á fjölmiðlaumhverfi landsins býður heim hættunni á að gildismat borgarsamfélagsins sé yfirfært á landið allt og að íbúar fámennari byggða verði sjaldséð viðfangsefni fjölmiðla sem sinni þeirra samfélagi tilviljunarkennt og lítið.

Viðbragða er þörf ...

Skortur á dreifingu á starfsemi stærstu fjölmiðla landsins skerpir á misræmi milli búsvæða. Svæðisbundnir fjölmiðlar reyna að sinna hinu þríþætta hlutverki hefðbundinna fjölmiðla á sínu svæði en gera það víða meir af vilja en mætti. Með tilliti til þróunar lýðræðis, aðhalds gagnvart valdhöfum, upplýsingadreifingar í nærsamfélagi og umræðu um samfélagsmál er mikilvægt að bæði ríki og sveitarfélög fari að huga meir að því hvert stefnir í fjölmiðlun. Er kannski orðið tímabært að styðja með einhverjum hætti við svæðisfjölmiðla, m.t.t. mikilvægis þeirra fyrir samfélögin og þróun lýðræðis?

Slíkt mætti t.d. gera með því að sú stefna yrði mörkuð hjá sveitarfélögum að þau verji megninu af því fé sem nú þegar fer til auglýsinga til að auglýsa í svæðisfjölmiðlum sem birta ritstjórnarefni. Að það sé nær alfarið komið undir einkaaðilum á auglýsingamarkaði HVORT fjölmiðlar sem segja fréttir og fjalla um samfélagsmál þrífist og veiti þjónustu er varasöm þróun, einkum fyrir samfélags- og lýðræðisþróun á fámennari búsvæðum.

... en eru þau á leiðinni?

Það er hefur verið æði sérkennilegt að fylgjast með frammámönnum í austfirsku stjórnmála- og atvinnulífi reka öðru hvoru upp ramakvein yfir umfjöllunum stærri fjölmiðla um málefni Austurlands. Segja hana byggja á „neikvæðni" og vanþekkingu og beinast gegn „hagsmunum" svæðisins. Þessi sami hópur hefur til þess haft litla tilburði til að styðja við uppbyggingu öflugra svæðismiðla í héraði. Það vekur svo upp þá spurningu hvort áðurnefnd kvein séu ekki tilkomin vegna hagsmuna svæðisins heldur vegna þess að þeir sem þannig láta séu fremur pirraðir yfir því að geta ekki stýrt umfjölluninni eða þaggað hana niður?

Erindi starfandi svæðismiðla á Austurlandi til sveitarstjórna, þar sem bent hefur verið á hættuna sem í því felist að svæðisbundin fjölmiðlun sé látin drabbast niður, hafa lítinn árangur borið, enn sem komið er. Vonandi stendur það til bóta. Skilningur virðist vera að vaxa þó sum þeirra svara sem þessi erindi hafa fengið bendi ekki til þess að það að hlúa að lýðræðislegri umræðu og greinandi fréttamennsku sé kjörnum fulltrúum ofarlega í huga.

Þögn um samfélagsmál er andlýðræðislegt ástand.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.