Mömmuviðgerðir

thorgeir arason webStaðalmyndir eru lúmskar. Staðalmyndir um hlutverk og stöðu kynjanna geta læðst aftan að okkur víða; í auglýsingum, sjónvarpsþáttum, leikföngum og jafnvel í skóla- og fræðslukerfinu. Þær segja okkur – og börnunum okkar – hvernig kynin „eru" eða „eiga að vera". Svona eru strákar, svona eru stelpur. Svona gera mömmur, svona gera pabbar. Stelpur vilja bleika kjóla, strákar vilja bláa bolta. Mömmur elda mat, pabbar gera við bíla. Ekki satt?

Allt frá hraklegum árangri mínum í fótboltaskóla KR á sínum tíma, sem sjö ára gamall strákur í Vesturbænum, hefur mér gengið afleitlega að uppfylla staðalmyndir. Reyndar get ég ekki sagt að ég hafi lagt mig mjög fram við það. Það eru allmörg ár síðan ég komst að því að best væri að vera einfaldlega maður sjálfur, og eins og flestir eða allir foreldrar óska ég þess mjög gjarnan að börnin mín geti lifað lífi sínu þannig. Það felur meðal annars í sér að vera laus við ok staðalmynda um kynferði.

Þess vegna brá mér svolítið í brún þegar Austurbrú auglýsti á dögunum námskeiðið „Pabbamatur" sem hluta af þjónustu sinni í símenntun á Austurlandi á önninni. Í kynningarbæklingi, sem dreift var í hús, stóð um námskeiðið: „Eruð þið leið á bjúgum? Hvernig væri að pabbi færi á matreiðslunámskeið?" Frekari kynningu var svo að finna í blaðinu Austurlandi, þar sem m.a. sagði: „Pabbi lærir að elda mat sem er einfaldur, fljótlegur, góður og hollur. Þetta er eitthvað sem allir pabbar geta nýtt sér... Þeir búa til nokkra ljúffenga rétti... og þurfa því ekki lengur að reiða sig á bjúgun og fiskbúðinginn."

Þrátt fyrir að vera stoltur pabbi tveggja barna lá fyrir frá upphafi að ég myndi ekki nýta mér námskeiðið. Þann tæpa áratug, sem liðinn er af búskap okkar hjóna, hef ég nefnilega séð að langmestu leyti um innkaup og matargerð heimilisins. Ástæðan fyrir því er ósköp einfaldlega sú að ég hef mun meiri áhuga á mat og matseld en eiginkonan. Nú mætti auðvitað ætla að börnin mín borðuðu fyrir vikið bjúgu og fiskbúðing í flest mál, en unnendur staðalmynda verð ég að hryggja með því að ég get ómögulega munað hvenær þessir eðalréttir voru síðast fram bornir í mínu eldhúsi.

Þar sem komið er árið 2015 geri ég ráð fyrir að flest hjón/pör í sambúð hér á Austurlandi, sam- eða gagnkynhneigð, skipti með sér verkum á heimilinu eins og þeim þykir henta best og eru bæði ásátt um. Ég geri einnig ráð fyrir að helstu breyturnar í því efni séu t.d. vinnutími og áhugasvið, en ekki kynferði.

Nú er það sannarlega fagnaðarefni að Austurbrú skuli bjóða upp á fjölbreytta fullorðinsfræðslu hér í fjórðungnum. Og það er frábær hugmynd að halda matreiðslunámskeið með áherslu á „mat sem er einfaldur, fljótlegur, góður og hollur." Ég vona að margir nýti sér það, af báðum kynjum. Til að gæta allrar sanngirni var vissulega tekið fram í Austurlandi að námskeiðið væri opið öllum, bæði konum og körlum, sem vildu auka fjölbreytnina í matseldinni hjá sér. En þarf nokkuð að kynna það með því að draga upp staðnaða staðalmynd? Mætti námskeið af þessu tagi ekki bara heita „Hollt og gott fyrir krakkana" eða eitthvað í þá átt?

En ef ekki, þá bíð ég spenntur eftir námskeiðinu „Mömmuviðgerðir," þar sem fjallað yrði um grundvallaratriði í ýmsu viðhaldi. Ég þyrfti nefnilega endilega að komast á það.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.