Getur verið að konur vilji viðhalda kynbundnum launamun?

varsi eyrarlandi webNú á næstunni verður tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili á Egilstöðum. Það verður að sjálfsögðu gleðidagur í hugum flestra. Að því tilefni munu einhverjir gera sér glaðan dag og halda teiti. Allt er það nú gott og blessað enda full ástæða til þess að gleðjast. Það verða samt ekki allir með ósvikna gleði í hjarta þegar þeir munu ganga inn í þessa sali. Þar á ég við fólkið sem á að vinna þar, því á þessum tímamótum þarf það að taka á sig kjaraskerðingu. Já, þetta hljómar undarlega, en svona er þetta nú samt.

Með bréfi dags. 26.02.2015 til starfsfólks, undirritað af mannauðsstjóra HSA, er tilkynnt að við flutning hjúkrunardeildar í nýtt húsnæði skapist þær aðstæður að nauðsynlegt verði að taka upp nýtt vaktafyrirkomulag. Breytingarnar feli í sér að morgun- og kvöldvaktir verði styttar í 7.5 klst í stað 8 klst. áður, en starfsmenn þurfi samt sem áður að skila inn sama vinnutímafjölda. Þetta tekur gildi frá og með 1. sept 2015.

Með öðrum orðum mun starfsmaður í 100% starfshlutfalli þurfa að mæta að minnsta kosti sautján sinnum oftar til vinnu á ári til þess að halda sömu launum - það eru sautján vaktir á ári. Það er hart gengið fram, en það má segja, að ef þú ætlar að vera viss um sigur þá skaltu fara gegn þeim sem hafa litla viðspyrnu. Þarna er farið gegn lægst launaða hópunum og flestir í þeirri stöðu að mega ekki við því að taka áhættu er varðar atvinnumissi.

Tilkynnt var á mánaðarlegum fundi framkvæmastjórnar HSA með starfsmönnum nú í vikunni að halli væri á rekstrinum. Starfsfólk var því hvatt til aðhalds og að ekki mætti kalla út aukavaktir nema um brýna nauðsyn væri að ræða. Ástæðan sem tilgreind var vegna hallarekstursins var að hluta til launaleiðrétting lækna. Þá er spurningin þessi:

Þarf starfsfólk á lægstu laununum hjá HSA að taka á sig kjaraskerðingu vegna þess að framkvæmdastjórnin er með linkind gagnvart fjárveitingarvaldinu og sækir ekki peningana til ríkisins, vegna launahækkunar lækna?

Því var lýst yfir af formanni fjárlaganefndar í fjölmiðlum að það væri borð fyrir báru vegna þeirra aðgerða, því á að sækja það fjármagn þangað en ekki til hins almenna starfsmanns. Ég held að þjóðin hafi glaðst vegna launaleiðréttingarinnar sem læknar fengu og flestir talið það réttlætismál en þessar aðgerðir sem HSA beinir gegn starfsfólki sínu eru á engan hátt í takt við þá leiðréttingu.

Nú er það svo að konur eru í meirihluta í æðstu stöðum HSA, sem er ánægjulegt en ætla má að þessar hugmyndir um breytta starfshætti komi frá þeim. Mun sú kjaraskerðing, sem þessar hugmyndir hafa í för með sér, bersýnilega koma niður á starfsmönnunum sem í miklum meirihluta eru konur. Launabarátta kvenna og krafa um jöfn kjör kynjanna á sér ekki mikla von ef konur ganga fremstar í því að rýra kjör kynsystra sinna eins og hér er stefnt að með þessum breytingum. Ég leyfi mér að efast um að þessar tillögur séu runnar undan rifjum karla, að minnsta kosti léti enginn sér detta til hugar að ganga þannig fram gagnvart „hefðbundnum“ karlastörfum.

Það er rétt að benda á að borgaryfirvöld í Reykjavík hófu tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í tveimur starfsstöðvum borgarinnar, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Barnavernd Reykjavíkur, um mánaðamótin. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar í Reykjavík, fjallar ásamt fleirum um málið í Fréttablaðinu 2. mars síðastliðinn. Þar segir að vinnutími verði styttur án launaskerðingar en markmiðið sé að kanna áhrif á vellíðan starfsmanna og starfsanda sem og þjónustu viðkomandi starfstaða. Íslendingar vinni að jafnaði nokkrum klukkustundum lengur en aðrir Norðurlandabúar í viku og þá hafi verið sýnt fram á að afköst starfsfólks aukist hlutfallslega með styttri vinnutíma. Skyldi starfsfólkið vera skikkað til þess að vinna einn laugardag í mánuði til þess að skila vinnustundunum til baka?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar