Að vera sinn versti óvinur

gunnarg april1306Þetta gat verið landsfundurinn til að hjóla í ríkisstjórnina á fullum krafti. Tækifærið til að vekja athyglina á málefnunum og reyna að komast í gullnámu Pírata. Í staðinn var ýtt á panikk-takkann og farið af fullu í innanhússlagsmálin.

Samfylkingin hefur árum saman verið skýrasti kostur þeirra sem aðhyllst hafa Evrópusambandsaðild Íslands. Í kjölfar vandræðagangs ríkisstjórnarinnar með samskipti sín við ESB hafði flokkurinn kjörið tækifæri til að minna á sig, sérstaklega á því sviði.

Í staðinn fengu kjósendur áminningu um hvers vegna þeir hentu flokknum út úr stjórnarráðinu vorið 2013.

Með formannsframboði sínu kortéri fyrir landsfund setti Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fundinn upp í loft. Vel má vera að lög flokksins heimili slíkan gjörning, en þegar menn hafa vanið sig að kjósa hann í póstlistakjöri allra flokksmanna þá liggur við að hann líkist helst valdaránstilraun. Áköll um lýðræðisleg vinnubrögð út á við, eða inn á við eftir á, eru hjákátleg þegar menn stunda vinnubrögð sem þessi.

Allt er lagt í sölurnar þegar formannskjör er undir á fundum og fulltrúatalan fullnýtt. Mætingin er hins vegar dræmari þegar útlit er fyrir átakaminni þing og þeir mæta frekar sem um stystan veg er að fara. Tímasetning eins og þessi þýðir líka að þeir sem koma lengra að eiga nær enga möguleika á að bregðast við.

Það vita líka allir að formannskandídatinn segir ekki satt þegar hann segist hafa ákveðið þetta allt í einu. Að ná jöfnu á fundinum krefst undirbúnings og smölunar.

Í raun er það eina snilldarlega við framboðið að tekist hafi að afla þess umtalsverðs stuðnings en halda því leyndu um leið. Það er stórkostlega klókt.

En að sama skapi er ekkert sniðugt að safna liði í formannsframboð og spá ekkert í afleiðingarnar.

Báðir formannskandídatarnir eru fallnir á sverð sín.

Í fyrsta lagi er augljóst að eldri áhrifamönnum úr flokknum og að því er virðist þingmönnum virðist hafa ofboðið vinnubrögð Sigríðar Ingibjargar. Þótt hún lýsi yfir stuðningi við formanninn er ekki víst að sá stuðningur sé í reynd gagnkvæmur frá formanninum eða hans stuðningsmönnum. Eins gott er að hún eigi sér ekki veika bletti því hún mun fá höggin.

Að sitjandi formaður standi ekki af sér mótframboð nema með einu atkvæði er litlu betra er vantraust. Þótt hann beri höfuðið hátt í dag verða að teljast líkur á að hann láti af embætti tímanlega fyrir næstu kosningar.

Mögulega verður það það besta sem kemur út úr helginni fyrir flokkinn. Innanflokksátökin voru ljós í kringum síðasta formannskjör og eftir það þegar nýi formaðurinn talaði ekkert um verkin sem unnin höfðu verið í aðdraganda kosningar heldur fór að tala um framtíðina á tungumáli sem enginn skildi og enginn hafi áhuga á. Því fór sem fór.

Þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnarinnar hefur flokkurinn ekki náð til sín neinu fylgi af ráði. Þrátt fyrir að þingmenn reyndu að tala ástandið upp virðist örvænting hafa gripið um sig á ákveðnum stöðum við snarpa fylgisaukningu Pírata.

Verði nýr formaður kjörinn í tíma gefst honum tækifæri til að móta stefnuna fyrir komandi kosningar og reyna að sameina flokkinn að baki sér. Átökin geta þannig nýst í nauðsynlega enduruppbyggingu.

Ungir jafnaðarmenn geta líka borið höfuðið hátt eftir helgina. Í fyrsta lagi flugu fulltrúar þeirra inn í framkvæmdastjórnina, í öðru lagi vöktu málefnin sem þeir lögðu fram og voru samþykkt athygli á réttan hátt.

En það er hætt við að Samfylkingin rísi ekki undir nafni á næstunni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.