VR - Skóli lífsins

kristin maria bjornsdottir vr 0034 webVR-Skóli lífsins var settur á laggirnar haustið 2014 og er að mestu leyti á netinu. Markmið hans er að undirbúa ungt fólk fyrir vinnumarkaðinn og kynna því réttindi og skyldur í starfi. Nú þegar hafa rúmlega 300 ungmenni lokið námi í skólanum. Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa boðið ungu starfsfólki sínu þátttöku í VR-Skóla lífsins og enn önnur hafa nú þegar sett verkefnið í fræðsluáætlun sína og/eða nýliðafræðslu. Þátttaka í VR-Skóla lífsins er óháð stéttarfélagsaðild og eru öll ungmenni velkomin.

Um hvað snýst VR-Skóli lífsins?

VR-Skóli lífsins er sérstaklega ætlaður 16 – 24 ára ungmennum, óháð stéttarfélagsaðild. VR-Skóli lífsins fjallar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði með nýrri og skemmtilegri nálgun. Þátttakendur skrá sig til náms á netinu og fylgjast með ungri stúlku taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Hún lendir í ýmsum uppákomum, lærir leikreglur vinnumarkaðarins og hver hennar réttindi og skyldur eru. Nemendur fara með henni í gegnum ferlið og læra þannig hvað felst í þátttöku á vinnumarkaði. Lokaþáttur námskeiðsins er verklegur tími með þjálfara frá Dale Carnegie þar sem farið er yfir sjálfstraust og samskipti. Að náminu loknu fá þátttakendur staðfestingu á að þeir hafi lokið VR-Skóla lífsins sem þeir geta látið fylgja með ferilskrá sinni þegar þeir sækja um starf.

Framhaldsskólar taka VR-Skóla lífsins fagnandi

Framhaldsskólar landsins hafa tekið verkefninu fagnandi og býðst þeim að nýta VR - Skóla lífsins í lífsleiknikennslu og/eða vinnustaðanámi þar sem verklegi hlutinn fer fram í umsjón kennarans innan veggja skólans. Nú þegar hafa þrír framhaldsskólar ákveðið að bjóða nemendum sínum upp á þetta nám. Það eru Fjölbrautaskólinn í Ármúla, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Verslunarskóli Íslands, með samtals um 360 nemendur. Þetta er ánægjuleg viðbót við þann fjölda ungmenna sem þegar hefur sótt VR - Skóla lífsins.

Öllum ungmennum býðst að taka þátt

VR-Skóli lífsins er samfélagsverkefni með það að markmiði að fræða ungmenni og styrkja þau á vinnumarkaði. Lykilatriði varðandi réttindi og skyldur beggja aðila, þ.e. starfsmanns sem og atvinnurekanda, eru tekin fyrir með skemmtilegri nálgun. Stéttarfélög á landinu hafa tekið verkefninu vel og buðu m.a. FVSA og Eining Iðja á Akureyri sínum ungu félagsmönnum upp á verklega hlutann í heimabyggð þar sem tæplega 30 ungmenni mættu og luku þátttöku með bros á vör.

Unga fólkið er ánægt

Viðbrögð unga fólksins við VR - Skóla lífsins eru jákvæð og þau hika ekki við að tjá skoðanir sínar í skriflegu mati sem unnið er eftir verklega hlutann með Dale Carnegie þjálfara. Hér að neðan má m.a. sjá svör nokkurra þeirra um hvað þau telja að muni nýtast þeim best og hvað þeim finnst standa upp úr eftir námskeiðið:

• „Ótrúlega margt sem mun nýtast og hlutir sem maður var kannski ekkert að pæla í eða vissi ekki lærði maður. Á líklega eftir að nýta mér stéttarfélagið meira, vissi ekki að það gæti hjálpað og gert svona mikið fyrir mann, hef aldrei nýtt mér það en mun klárlega gera það eftir þessa fræðslu."

• „Launaseðillinn, því þar lærði ég ýmislegt tengt mínum réttindum sem launþegi. Verklegi hlutinn, því þar koma fram mannlegir þættir sem er mjög mikilvægt fyrir mig að dýpka mig í..."

• „Myndböndin voru skemmtileg og maður nennti að horfa á þau. Dale Carnegie þjálfarinn talaði líka skemmtilega til okkar og það var gaman að hlusta á hann."

• „Launaseðillinn, hef aldrei pælt í honum. Stéttarfélag og samningar, hef aldrei vitað um réttindin mín. En núna er ég komin með þetta allt á hreint þökk sé ykkur."

• „Að fá hugmyndir um hvernig ég gæti aukið sjálfstraust mitt sem gerir mig að betri starfsmanni."

• „Spurningarnar sem þarf að hafa í huga í atvinnuviðtalinu t.d. Annars fannst mér bara mjög gott að vita allt sem kom fram í þessu námskeiði."

• „Mér fannst þetta frábært námskeið og er mjög ánægð að hafa fengið að fara á það. Þetta var mjög fræðandi og áhugavert. Það er ekkert eitt sem stendur upp úr því það er mikið sem ég lærði og skil miklu betur."

• Það er ljóst að VR-Skóli lífsins er orðinn hluti af vinnumarkaðinum þar sem upplýsingum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði er komið á framfæri við yngstu starfsmennina á nýstárlegan og skemmtilegan máta.

VR-Skóli lífsins fer mjög vel af stað og er það von VR að sem flest ungmenni eigi þann kost að taka þátt og ljúka þátttöku.

1 – Atvinnuleit: Hvar áttu að byrja atvinnuleitina?
2 – Umsókn: Láttu ferilskrá og kynningarbréf fylgja umsókn
3 – Starfsviðtal: Það sem þú þarft að hafa á hreinu í starfsviðtali
4 – Ráðning: Að byrja í nýrri vinnu
5 – Stéttarfélag og samningar: Stéttarfélagið verndar hagsmuni þína
6 – Starfslýsing: Hvað átti eiginlega að gera í vinnunni?
7 – Skyldur starfsmanna: Veikindadagar og hvernig hegðar maður sér í vinnunni
8 – Uppsögn: Er búið að reka þig eða nennirðu þessu ekki lengur?
9 – Vinnutími: Hvenær ertu að vinna og hvað áttu að fá borgað?
10 – Skyldur yfirmanns: Er yfirmaðurinn ekki örugglega góður við þig?
11 – Launaseðillinn: Launin eiga að koma í upphafi hvers mánaðar
12 – Kynbundinn launamunur: Af hverju fá konur lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu?
13 – Ábyrgð: Þegar manni er treyst eykst sjálfsvirðingin
14 – Verklegi hlutinn: Nú þarftu að kíkja í heimsókn

Kristín María Björnsdóttir
Formaður deildar VR á Austurlandi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar