Knattspyrnusumarið 2015: Huginn
Huginn átti fínt tímabil í 2. deildinni í fyrra eftir að hafa skotið sér uppúr þeirri þriðju sumarið á undan. Liðið, sem var skipað blöndu af heimamönnum og aðkomumönnum þar af þó nokkrum erlendis frá, sýndi oft fína spilamennsku og Brynjar Skúlason virðist hafa gott lag á að fá góða leikmenn til félagsins. Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum síðasta sumars reif Hugins liðið sig í gang og vann næstu fjóra og leit liðið vel út mest allt sumarið og endaði í fjórða sæti sem verður að teljast fínn árangur en liðið var sjö stigum frá Gróttu sem að fór upp ásamt Fjarðabyggð sem vann deildina örugglega.Sterkir póstar farnir
Það er klárt að Huginn þarf að fylla risa skarð í framlínunni ef að Alvaro Montejo Calleja, sem skoraði 13 mörk í 19 leikjum, kemur ekki aftur tilbaka í sumar frá Spáni þar sem hann leikur núna. Alvaro var án vafa með hæfileikaríkustu leikmönnum deildarinnar síðasta sumar.
Þá er Milos Ivankovic farinn í Fjarðabyggð og munar um minna en Milos átti mjög gott tímabil í hjarta varnarinnar. Að auki er Benedikt Jónsson farinn aftur í Hött og Vilhjálmur Rúnarsson genginn til liðs við Berserki. Til viðbótar er Ingólfur Árnason genginn til liðs við Þór en Ingólfur sýndi fína takta í fyrra og skoraði 4 mörk í 11 leikjum.
Það er því ljóst að það verkefni bíður Brynjars að fylla upp í nokkur stór skörð og verður forvitnileg að sjá hvernig honum tekst til með það .
Ekki enn komin heildarmynd á hópinn
Markmiðið hlýtur alltaf hjá öllum liðum að reyna að gera betur en árið á undan en hvort það tekst veltur mikið á því hvernig Brynjari tekst að fylla nokkur skörð í liðinu en það er klárt mál að hann er með nokkra leikmenn undir smásjánni. Því er dálítið erfitt að spá fyrir um gengi liðsins að svo stöddu þar sem öll púslin eru ekki komin í púsluspilið. Aftur á móti er Hugins liðið byggt upp á fínum kjarna heimamanna sem flestir hverjir eru nokkuð ungir og telja um 5-6 leikmenn byrjunarliðsins.
Sökum þess að það er ekki komin almennileg mynd á hópinn er stembið að spá fyrir um hvernig sumarið verður á Seyðisfirði. Nái Huginn að styrkja sig um 3-4 gæðaleikmenn ætti ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir Huginn að vera á svipuðum slóðum og á síðasta tímabili, það er þó háð því að það komi inn leikmenn með gæði í liðið og að þeir séu ekki of lengi að aðlagast. En miðað við þá leikmenn sem Huginn hafa fengið til sín á undanförnum árum er lítil ástæða fyrir Seyðfirðinga að stressa sig.
Ægir fyrsti andstæðingur sumarsins
Huginsmenn byrja tímabilið þann 10. maí í Þorlákshöfn gegn Ægi. Fimm dögum síðar eiga þeir heimaleik gegn Hetti og verður spennandi að sjá hvort að Huginsvöllur verði klár í það verkefni, undirritaður ætlar að veðja á að leikurinn verði spilaður annarsstaðar. Því næst fer Huginn til Sauðárkróks og spilar gegn Tindastól sem féll úr 1. Deild síðasta sumar og þar á eftir þeir heimaleik gegn Dalvík/Reyni.
Lykilleikmaður: Marko Nikolic
Spá: 3-5