Knattspyrnusumarið 2015: Leiknir
Leiknir Fáskrúðsfirði átti mjög gott mót síðasta sumar, liðið endaði í öðru sæti í þriðju deild og tryggði sig örugglega upp í aðra deild. Um tíma stefndi í að Leiknir myndi vinna deildina en jafntefli í næstsíðustu umferð gegn Víði þýddi að Höttur skaust upp fyrir og náði að landa titlinum. Leiknir skoraði þá flest mörk allra liða í þriðju deild og áttu markahæsta leikmanninn, Kristófer Pál Viðarson. Nú í vor hefur Leiknir staðið sig vel í B-deild Lengjubikarsins og komust alla leið í undanúrslit þar sem þeir urðu að játa sig sigraða gegn Aftureldingu.Stærri og sterkari hópur
Viðar Jónsson þjálfari Leiknismanna hefur bætt umtalsvert af leikmönnum við sig frá síðasta tímabili og ber þar fyrst að nefna Almar Daða Jónsson sem kemur aftur til Leiknis eftir að hafa spilað með Fjarðabyggð síðasta sumar. Þá kemur Valdimar Ingi Jónsson aftur á láni til félagsins en Valdimar spilaði 11 leiki síðasta sumar með Leikni.
Aftast á vellinum hafa Leiknismenn fengið til sín markvörðinn Bergstein Magnússon frá Selfossi. Þeir Hlynur Bjarnason og Haraldur Þór Guðmundsson hafa skipt yfir úr Fjarðabyggð í Leikni, Hlynur að vísu á láni en báðir eru fæddir 1995. Vignir Daníel Lúðvíksson sem spilaði síðasta tímabil í 1.deildinni með KV er síðan orðinn leikmaður Leiknis en Vignir spilaði með Álftanesi áður en hann gekk í raðir Vesturbæinga.
Leiknismenn hafa einnig farið á erlenda markaðinn og nælt sér í þrjá leikmenn þaðan. Marc Ferrer Llodosa er væntanlegur aftur í Leikni en Llodosa spilaði hálft mót með Leikni seinni part sumars og var með bestu mönnum deildarinnar. Rúmenski miðvörðurinn Paul Bogdan Nicolescu er nýkominn með leikheimild en hann hefur verið að spila á Spáni. Þá er spænskur framherji væntanlegur til Leiknis en sá heitir Ferran Garcia Castellanos
Félagið hefur náð að halda í sína bestu menn frá því í fyrra nema hvað að Hector Pena Bustamante er farinn yfir til nágrananna í Fjarðabyggð og er það blóðtaka en Hector átti mjög fínt mót í fyrra. Að auki er Eggert Georg Tómasson genginn í raðir FH en Eggert spilaði 12 leiki síðasta sumar með Leikni. Þá hafa Carlos Monleon og Juan Miguel Munoz Rodriguez yfirgefið félagið frá síðasta sumri.
Til alls líklegir
Það hlýtur að mega búast við skemmtilegum leikjum á Búðagrund í sumar þar sem að liðið skoraði flest mörk allra liða í þriðju deildinni en hafa þrátt fyrir það styrkt framlínu sína svo um munar. Að auki verður að teljast sterkt að hafa náð Marc Ferrer tilbaka en hann leit út fyrir að vera alltof góður fyrir þriðju deildina síðasta sumar. Þá hefur varnarlína styrkst frá síðasta sumri með tilkomu Vignis og ef að Nicolescu stendur undir væntingum ætti liðið að geta verið flott á báðum endum vallarins, en Leiknisliðið varðist þó vel síðasta sumar og fengu á sig fæst mörk allra liða. Þrátt fyrir að Fáskrúðsfjörður sé ekki fjölmennt bæjarfélag er Leiknir með þó nokkra stráka á besta aldri sem geta kallast uppaldir og veit það á gott í bland við þá leikmenn sem liðið hefur fengið til sín bæði innanlands og erlendis frá.
Gott form í Lengjubikarnum gefur vísbendingu um að Leiknisliðið sé í góðu standi fyrir sumarið. Sóknarlega er liðið sterkt á pappír og ef að Hilmar Freyr Bjartþórsson og Björgvin Stefán Pétursson sem báðir skoruðu 7 mörk síðasta sumar geta komið með nokkur mörk af köntum og miðju í bland við að framherjar liðsins negli inn mörkum fremst á vellinum þá má alveg búast við því að sjá Leiknisliðið í efri hluta deildarinnar.
Sauðárkróksvöllur fyrsta stopp
Tímabilið hefst 9. maí þegar að Leiknir brunar til Skagafjarðar til þess að spila gegn Tindastól. Fyrsti heimaleikur sumarsins er svo viku síðar þegar að Dalvík Reynir kemur í heimsókn, en það verður að teljast líklegt að sá leikur fari fram í Fjarðabyggðahöllinni. Því næst koma tveir útileikir gegn Aftureldingu og KF. Fyrir þá sem geta ekki beðið eftir að deildin byrji þá er rétt að benda á að Huginn og Leiknir eigast við í Borgunarbikarnum þann þriðja maí en sá leikur verður spilaður í Fjarðabyggðahöllinni.
Spá: 4. - 6. sæti
Lykilmaður: Hilmar Bjartþórsson