Gleðilegt sumar Austfirðingar

pall valur bjornssonKæru Austfirðingar ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars. Hann hefur nú ekki verið sá skemmtilegasti sem maður man eftir en eins og máltækið segir þá styttir öll él upp um síðir. Ég er ekki daglegur gestur á síðum Austurfréttar en þar sem ég er Vopnfirðingur að upplagi og ber sterkan og góðan hug til Austfirðinga langar mig að deila með ykkur hugleiðingum mínum nú í sumarbyrjun.

Ég ber þá von í brjósti að sumarið færi okkur öll yl og birtu í sál og sinni og að þau vandamál sem nú steðja að í samfélaginu leysist á farsælan hátt og kröfum þeirra sem lægst hafa launin verði mætt. Ég hef í störfum mínum margoft hvatt ríkjandi stjórnvöld til þess að blása til stóraukins samráðs milli ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífsins, launþega, fjármálageirans, fræðasamfélagsins og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langtímamarkmið og umbætur á ýmsum sviðum.

Það hef ég gert vegna þess að ég trúi því að það minnki óvissu og skapi frið og sátt í samfélaginu sem er að mínum viti eitt mikilvægasta verkefni sem við glímum við. Sundurlyndi og ófriður skilar okkur ekkert áleiðis á meðan samstaða, samlíðun og aukið traust sem er það mikilvægasta í mannlegum samskiptum kemur okkur á þann stað sem okkur dreymir um.

Þessi tímamót þegar að vetur konungur kveður og sumarið rennur í hlað fela í sér nýjar áskoranir og ný tækifæri og á þessum tímamótum endurskoðar maður þær ályktanir sem maður hefur áður dregið og reynir að skerpa þær áherslur sem maður telur bestar fyrir sjálfan sig, fjölskyldu sína og vinnustaðinn sinn, gerir áætlanir sem miða að því að maður bæti sig og verði besta útgáfan af sjálfum sér.

Það góða samfélag sem við lifum í er okkur í Bjartri framtíð afar hugleikið og ekki síst hvernig við getum gert þetta góða samfélag enn betra. Við viljum vera virkir þátttakendur í því og leggja okkar af mörkum við að byggja hér upp lifandi efnahagskerfi sem býr við heilbrigt samkeppnisumhverfi sem hvetur fjárfesta og frumkvöðla til framtaks, athafna og fjárfestinga sem munu skapa ótal tækifæri sem munu gera öllum kleift að fá vinnu sem þeim hentar og eru tilbúnir að vinna við. Við leggjum ríka áherslu á að allt þetta sé gert í fullkominni sátt við náttúruna og umhverfið, með sjálfbærni að leiðarljósi.

Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að hér sé auðvelt fyrir alla að lifa og starfa, ekki síst á tímum fjölmenningar og margbreytileika mannlífsins. Það að byggja hér upp samfélag sem verður besta útgáfan af sjálfu sér er mikil áskorun sem krefst kjarks og þátttöku allra þeirra sem þetta samfélag byggja, þátttöku stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins, fræðasamfélagsins og hvers konar samtaka og félaga og svo að sjálfsögðu allra íbúa.

Til að ná sem bestum árangri í þeirri viðleitni okkar að skapa samfélag sem setur framfarir og hag almennings í forgrunn verðum við að leggja til hliðar ágreiningsefni, sem eru óhjákvæmilega mörg, og auka samráð, samvinnu og loka ekki á neina möguleika sem aukið gætu hagsæld.

Ef við setjum okkur þetta leiðarljós til framtíðar hræðist ég ekki þessa framtíð því að þegar öllu er á botninn hvolft er þetta að okkar dómi það sem farsælt samfélag snýst um.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar