Fortitude: Á virkilega að gera meira af þessu rugli?

gunnarg april1306RÚV lauk loksins sýningum á Fortitude á fimmtudagskvöld. Síðan í janúar hef ég mætt samviskusamlega við sjónvarpstækið mitt undir því yfirskyni að vera afla mér upplýsinga fyrir vinnuna.

Það var líka nokkurn vegin það eina sem hélt mér við sjónvarpstækið, ef þættirnir hefðu ekki verið teknir upp á Austurlandi hefði ég fundið mér annað að gera.

Þættirnir eru þeir dýrustu sem Sky sjónvarpsstöðin hefur framleitt. Bæði var leikarahópurinn fjölmennur og nöfnin stór. Sky valdi líka að fara út fyrir Bretlandi í upptökur, eða eins og einn þarlendur gagnrýnandi orðaði það svo snyrtilega þá hefði BBC látið duga að fara til Dorset.

Ekki var heldur sparað í markaðssetningunni því ísbjarnarvélmenni marseraði um götur Lundúna til að kynna þættina.

En það er ekki hægt að eyða endalaust og að þessu sinni virðist hafa verið sparað í handritinu. Og því miður eiga bæði leikarar og umhverfi erfitt með að bjarga slöku handriti. Þeir spennuþættir sem mestra vinsælda hafa notið síðustu ár hverfast flestir um mannlega harmleiki, frá upphafi til enda og það byggist á þeirri einföldu staðreynd að fólk hefur áhuga á fólki.

Handritshöfundur Fortitude virðist reyna að henda harmleikjunum saman við með vafasamri fortíð einhverra karaktera og því að allir haldi framhjá öllum með öllum en vegna fjölda karakteranna kynnistu þeim aldrei almennilega. Fyrir vikið verður tilfinningin takmörkuð og samúðin sömuleiðis.

En með því að velja sér yfirnáttúrulega lausn fyrir morðráðgátuna missir handritshöfundurinn loks þau litlu tök sem hann hefði getað haft þannig að áhorfandinn fórnar höndum og hrópar upp yfir sig „hvaða rugl er þetta?"

Þannig var að horfa á næst síðasta þáttinn með líffræðingi þegar Vincent vogar sér inn í herbergið, þar sem yfirlæknirinn liggur útgrafinn af lirfum, á gallabuxum og bol. „Hvað ertu að spá? Þú ert vísindamaður? Þú ferð ekki inn nema vera í hlífðargalla? Ertu hálfviti? Hvaða bull er þetta?"

Og það er vandamálið. Þrátt fyrir flott umhverfi, fína leikara og fagmannlega tæknivinnslu endar Fortitude í tómri steypu.

Það liggur við að ég sjái eftir þeim tólf tímum sem ég hef eytt í þættina í vetur. Bæði því það er til mun betra sjónvarpsefni og hollari áhugamál.

Ef framleiðendur Fortitude ætla að fá þættina til að endast fram yfir næstu þáttaröð, eins og við vissulega óskum út frá hreinni hagfræði og eiginhagsmunum, er þeim trúlega hollast að moka sem snarast ofan í holuna sem hýsir Yuri, vespurnar og mammútana og snúa sér að fólkinu sem byggir Fortitude. 

Þar eru sögur sem gera má trúverðugar og nóg af tækifæri til að endurnýja með nýjum leikurum enda eru hinir flestir dauðir. Eftir að hafa stútað stjörnunum er kannski meira eftir í handritið.
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar