Hvað í ósköpunum er esseyja? - um Blátt blóð eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

blatt blod kapaÉg held að flestum sé þannig farið að þegar þeir taka upp bók þá velta menn því fyrst fyrir sér hverskonar bók þeir eru með í höndunum. Er þetta skáldsaga, ævisaga, ljóðabók, fræðirit eða hvaðeina annað?

Þegar ég fékk í hendurnar eintak af því sem þá var nýjasta bók Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur (þann 10. maí kom síðan út eftir hana Fæðingarborgin sem var hluti af 3. tbl. tímaritraðarinnar 1005) þá var ég í þeirri stöðu að hafa ekkert heyrt um hana áður og því fletti ég henni með það í huga að átta mig á því. Eru þetta ljóð? Smásögur? Ævisögubrot? Svarið liggur ekki alveg á lausu nema að því leyti að á titilsíðu má sjá titilinn, undirtitil (Í leit að kátu sæði) og síðan þar fyrir neðan orðið ESSEYJA.

Hvað er esseyja? Þarna afhjúpaði ég mig heldur betur. Hvað er ég að meina með því að ætla mér að skrifa um bók þegar ég þekki ekki eða skil einu sinni hverskonar bók er um að ræða?

Gott og vel. Ég veit ekki hvað esseyja er! En ég held samt ótrauður áfram í ljósi þess að í fyrsta lagi þá þjónar kannski engum sérstökum tilgangi að velta sér um of upp úr því hvernig bækur eru flokkaðar, heldur er réttast að lesa þær bara, og í öðru lagi þá hef ég aldrei sagst vera einhver sérfræðingur. Ég hef gaman af að lesa bækur og þannig er ég sjálfsagt ekki verri en hver annar til þess að segja mína skoðun á því hvernig mér þykir lesturinn.

Áður en lengra er haldið verð ég samt að byrja á að ljúka lofsorði á útlit og frágang bókarinnar. Það er vandi að ganga þannig frá bók sem er ekki óskaplega mikil að vöxtum (108 blaðsíður) að hún sé eiguleg en Elin Mejergren, sem skrifuð er fyrir hönnun bókarinnar, á hrós skilið. Bókin er öll prentuð með bláu letri auk þess sem bláir fletir eru einkennandi og setja skemmtilegan svip á uppsetninguna. Val á leturgerð, pappír og öðru slíku er frumlegt og bætir ekki svo litlu við lestrarupplifunina.

En nú að textanum sem slíkum. Bókinni er skipt upp í marga stutta kafla sem lýsa persónulegri reynslu sögukonu (höfundarins) af því að þrá og reyna með ýmsum aðferðum að eignast barn. Greint er frá samböndum við konur og karla en mestur hluti textans fjallar um langtímasamband með karlmanni sem slitnar upp úr í kjölfar erfiðleika sem tengjast tilraunum þeirra til barneigna. Að lokum verður sögukona ófrísk, í sambandi með öðrum manni, en þau missa barnið á meðgöngunni.

Það er alveg ljóst að um er að ræða virkilega persónulegt verk. Stíllinn er hins vegar skáldlegur og engin leið að átta sig á því til fulls hvenær um er að ræða eigin reynslu og hvenær skáldaleyfið er tekið og nýtt til fulls. Það er líka ágætt því að án þess þá væri eiginlega einum of mikið afhjúpað og lesandanum liði eins og gluggagægi inn í líf höfundarins. Það kann að vera að einhver fái eitthvað út úr slíku, en ég held að flestum þyki nauðsynlegt að fá örlítið skjól bak við skáldskapinn og á það líklega bæði við höfund og lesendur.

Það er erfitt að skrifa eins persónulegt verk og þetta sem lýsir jafn miklum og erfiðum tilfinningum og forðast samt að falla í tilfinningaklámið og að vorkenna sér um of. Ég get sagt það þessari bók til hróss að mér fannst aldrei of langt gengið í slíku. Textinn er ljóðrænn, kaflarnir margir hverjir gætu allt eins staðið sem sjálfstæð ljóð, og oft bregður fyrir fallegum myndum og tilfinningum sem unun var að lesa. Sérstaklega var það þegar leitast var við að fjalla um þessa innri þrá eftir að eignast eigið barn.

En heilt yfir þá náði bókin samt aldrei nógu sterkum tökum á mér. Þrátt fyrir fallega kafla hafði ég aldrei fulla samúð með viðleitni sögukonunnar til þess að eignast barnið þó að ég teldi mig skilja þrá hennar til þess. Helsta ástæða þess er sú að nálgunin á aðrar persónur bókarinnar, einkum karlana, einkenndist svo mjög af þessari eigin þrá aðalpersónunnar. Allir aðrir sem koma við sögu virðast fyrst og fremst vera til staðar til að þjóna markmiðum hennar og komið fram við þá eins og tæki og tól til að ná þessu markmiði. Þessi nokkuð hráslagalega framsetning gerir það að verkum að mér reyndist erfitt að bindast aðalpersónunni þeim böndum sem nauðsynlegt er til að verkið gangi að fullu upp.

Esseyja eður ei, Blátt blóð - Í leit að kátu sæði er ágætis bók frá merkilegum höfundi, en nær ekki því flugi að hægt sé að veita henni bestu meðmæli. En það er samt alveg þess virði að lesa hana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar