Hverjir standa með flugvellinum?

stefan bogi x2014Við þekkjum öll þá stöðu sem málefni Reykjavíkurflugvallar eru í og hafa því miður verið um langt skeið. Reykjavíkurborg hefur samþykkt aðalskipulag sem gerir ráð fyrir því að enginn flugvöllur verði í Vatnsmýrinni eftir árið 2024, og það sem meira er, virðist vera algjörlega sama um það hvað tekur við þegar kemur að þessum lykilsamgöngum þjóðarinnar. Það að skipuleggja eina aðalsamgönguæð landsbyggðanna til höfuðborgarinnar út af kortinu er auðvitað fráleitt. Eða geta menn ímyndað sér að Kaupmannahöfn myndi bara einn góðan veðurdag skipuleggja aðalbrautarstöðina í burtu og láta sig engu skipta hvernig lestasamgöngum yrði háttað í framhaldinu? Þetta er svo fráleit hugsun að ekki tekur nokkru tali og ótrúlegt að Reykjavíkurborg skuli leika nákvæmlega þennan leik.

Þessi framganga borgarinnar hefur auðvitað kallað á viðbrögð. Það hefur verið talað og gagnrýnt. Safnað var undirskriftum 70.000 Íslendinga til varnar flugvellinum. Samþykkt var að setja á stofn nefnd til að meta kostina í stöðunni og leita sameiginlegra lausna. Reykjavíkurborg hefur hins vegar engu sinnt og ætlar sér að fara sínu fram með valdhroka hins stóra gagnvart þeim smáu að leiðarljósi. Við þessu varð að bregðast. Frumvarp sem þingmenn Framsóknarflokksins, undir forystu Höskuldar Þórhallssonar, lögðu fram á þessu þingi og gerir ráð fyrir að skipulagsvald flugvallarins verði fært til ríkisins var neyðarúrræði til þess að stöðva það alvarlega slys sem er og hefur lengi verið í uppsiglingu í tengslum við þetta mikilvæga samgöngumannvirki.

Bæjaryfirvöld taka afstöðu

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti samhljóða á fundi sínum 11. maí umsögn um frumvarpið. Þar kemur fram að þótt bæjarráð telji mikilvægt að skipulagsvald sveitarfélaga sé almennt virt séu og geti verið uppi aðstæður sem réttlæta inngrip stjórnvalda landsins alls í ákveðnar skipulagsáætlanir. Í ljósi mikilvægis Reykjavíkurflugvallar fyrir landið allt taldi bæjarráð eðlilegt að ríkisvaldið hlutist sérstaklega til um skipulag flugvallarins og studdi því frumvarpið.

Í sömu umsögn var sérstaklega tekið fram að eðlilegt mætti telja að sett yrði sérstök löggjöf um alþjóðaflugvelli á landinu þar sem meðal annars væri tekið á skipulagsmálum þeirra valla með hagsmuni landsins alls að leiðarljósi.

Þessi umsögn var samþykkt lítið breytt í bæjarstjórn en þar brá þó svo við að bæjarfulltrúar Héraðslistans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Árni Kristinsson gerði þar grein fyrir afstöðu sinni til málsins en Sigrún Blöndal forseti bæjarstjórnar kaus að gera það ekki þá. Á þeim fundi kom einnig fram að bæjarstjóri hafði kynnt framangreinda afstöðu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á fundi um málið.

Pólitískt gjörningaveður

Mánudaginn 1. júní var frumvarpið tekið fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar kynnti meirihluti nefndarinnar breytingar á frumvarpinu sem efnislega ganga út á að láta það gilda um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum auk Reykjavíkurflugvallar. Sú breyting er í góðu samræmi við þær athugasemdir og þá afstöðu sem viðkomandi sveitarfélög höfðu mótað sér og kynnt hafði verið nefndinni. Að því loknu samþykkti meirihluti nefndarinnar að vísa frumvarpinu svo breyttu aftur inn í þingið.

Bregður þá svo við að á brestur mikið gjörningaveður. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs bregðast ókvæða við, eins og er að verða regla fremur en undantekning þegar fulltrúar þessara flokka eru ósammála þeim málum sem meirihlutinn á Alþingi ber upp. Hafa gífuryrðin ekki verið spöruð í þeim tilgangi að kasta rýrð á meðferð málsins í nefndinni, en rökin hafa reyndar verið heldur þunn. Er það líka athyglisverð nýbreytni í málflutningi í þinginu að gagnrýna það þegar málum er vísað til afgreiðslu þingsins, en oft hefur þinginu verið legið á hálsi fyrir að vera fremur tregt til að koma málum áfram úr nefndum.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að ástæða þessara ofsafengnu viðbragða er einföld. Viðkomandi þingmenn eru samflokksmenn núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem ætlast til þess að geta lokað Reykjavíkurflugvelli óáreittur.

Hver er afstaða Héraðslistans?

Í ljósi þeirrar snörpu umræðu sem varð um málið óskaði ég eftir því við forseta bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að málið yrði tekið á dagskrá næsta fundar bæjarstjórnar sem haldinn verður 3. júní. Þar vakti fyrir mér að ítreka þá skýru afstöðu sem bæjarstjórn hafði þegar mótað og koma í veg fyrir að þingmenn stjórnarandstöðunnar gætu óumbeðið tekið að sér að túlka málstað sveitarfélagsins. Þessari beiðni minni var hafnað með þeim rökum að rétt væri að sjá hvernig málinu yndi fram og að rétt væri að gefa sér tíma og taka málið fyrir að hálfum mánuði liðnum.

Það var ekki liðinn sólarhringur frá því svari forseta bæjarstjórnar þegar hún steig fram á þessum miðli og tjáði sig afdráttarlaust um að hún væri ósammála efni frumvarpsins. Sá sami forseti bæjarstjórnar og sá ekki ástæðu til að ræða málið á bæjarstjórnarfundi, vildi nú ræða það í fjölmiðlum og taka þar afdráttarlausa afstöðu gegn frumvarpi sem bæjarstjórn hafði áður lýst eindregnum stuðningi við.

Í ljósi þessa hlýtur að verða spyrja eftirfarandi spurninga: Í umboði hvers tjáir forseti bæjarstjórnar, sem einnig er formaður SSA, sig um þetta mál og hver er í raun afstaða Héraðslistans til Reykjavíkurflugvallar? Ef afstaðan er sú að vilja að hann verði áfram á sínum stað, en vilja ekki gera nokkurn hlut til þess að verja rétt annarra íbúa landsins en Reykvíkinga að hafa áhrif á framtíð hans, hvers virði er þá sú afstaða?

Nýverið kom í ljós að sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði höfðu notið ákveðinnar Marshall-aðstoðar við mótun afstöðu sinnar til frumvarps sem lá fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Ég veit ekki hvort eitthvað er búið að útvíkka þá aðstoð í austurátt, en ég er að minnsta kosti ekki sérlega hrifinn af þeirri afstöðu sem bæjarfulltrúar Héraðslistans hafa tekið í þessu máli og tel hana andsnúna hagsmunum sveitarfélagsins.

Takmörkun skipulagsvalds

Í máli þessu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi skipulagsvalds sveitarfélaga. Það skal í sjálfu sér ekki gert lítið úr því. En staðreyndin er sú að, þótt rétt sé og eðlilegt að staðbundin stjórnvöld sjái að meginstefnu til um skipulag í eigin nærumhverfi, þá er mýgrútur af dæmum um að sá réttur sé takmarkaður. Er þá iðulega vísað til þess að almannahagsmunir krefjist þess og jafnframt þess að viðkomandi hagsmunir komi fleirum við en aðeins íbúum viðkomandi sveitarfélags. Þar eru auðvitað skipulagsmál Keflavíkurflugvallar nærtækasta dæmið, en með lögum er sérstakri ráðherraskipaðri nefnd falið að fara með skipulag þess flugvallar.

Skipulagsvaldi sveitarfélaga eru þannig margvísleg takmörk sett. Framkoma Reykjavíkurborgar í málefnum flugvallarins hefur leitt í ljós að borgaryfirvöldum virðist ómögulegt að vinna að málefnum flugvallarins með annað en þrönga eiginhagsmuni að leiðarljósi. Því varð að grípa í taumana. Með sömu rökum má síðan segja að skipulag þeirra mikilvægu alþjóðaflugvalla sem eru á Akureyri og á Egilsstöðum komi fleirum við en íbúum þessara sveitarfélaga. Við höfum sjálf verið dugleg að hampa þessu þjóðhagslega mikilvægi flugvallarins hér. Það verður að vera samræmi í okkar málflutningi hvað þetta varðar. Ég ber heldur engan kvíðboga fyrir því að vinna með ríkinu að skipulagi Egilsstaðaflugvallar og hlakka raunar til þess. Það er löngu kominn tími til að ríkisvaldið sýni vellinum og vaxtarmöguleikum hans meiri ræktarsemi en raunin hefur verið á undanförnum árum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.