Austurlandið okkar

sigrun blondal x2014Þessa dagana gefst okkur, íbúum Austurlands, fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum og öðrum sem áhuga hafa, kostur á að leggja okkar að mörkum við að móta framtíðarstefnu Austurlands. Um er að ræða verkefni, sem gengur undir nafninu Sóknaráætlun Austurlands, og er stefna landshlutans í atvinnu- og nýsköpun, menningu og listum, lýðfræðilegri þróun og uppbyggingu mannauðs.

Þetta verkefni byggir á samningi um Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019, sem undirritaður var í febrúar 2015 milli atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Um er að ræða þróunaráætlun landshluta sem felur í sér stöðumat, framtíðarsýn og markmið til að ná árangri. Verkefnið er m.a. unnið i tengslum við fyrirhugaðar úthlutanir í Uppbyggingarsjóð Austurlands, sem er samkeppnissjóður. Úthlutanir úr sjóðnum skulu vera í samræmi við þá stefnu sem sett hefur verið fram í Sóknaráætlun landshlutans og áhersluverkefni sem landshlutasamtök velja að setja á oddinn.

SSA skipaði, í samráði við sveitarstjórnir á svæðinu og samkvæmt leiðbeiningum frá ráðuneytum, samráðsvettvang sem í sátu 25 einstaklingar. Þeir eru bæði af vettvangi sveitarstjórnarmála og ýmsum sviðum samfélagsins. Verkefni hópsins var að vinna að Sóknaráætlun sem síðan yrði lögð fram til umsagnar. Haldnir voru tveir vinnufundir í maí sl. og síðan hafa starfsmenn Austurbrúar unnið plagg sem nú er lagt fram fyrir okkur öll til að rýna og gera athugasemdir við. Austurbrú var fengin til að stýra verkinu og starfsmenn þar halda utanum þessa vinnu. Þær athugasemdir, sem berast, verða bornar undir samráðsvettvanginn og endanleg Sóknaráætlun verður svo lögð fram i sumar. Samráðsvettvangurinn mun hittast árlega á samningstímanum og rýna áætlunin og framgang hennar.

Það er mikilvægt að raddir sem flestra heyrist við mótun áætlunar sem þessar. Því hvet ég ykkur, ágætu lesendur, til að kynna ykkur drög að Sóknaráætlun sem finna má á heimasíðu Austurbrúar: www.austurbru.is. Athugasemdir, ábendingar eða hugleiðingar almennt um efnið má senda á þar til gerðu eyðublaði á næstu dögum.

Vinnum saman að eflingu Austurlands.

Sigrún Blöndal, formaður stjórnar SSA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar