Knattspyrnusumarið 2015: 1. deild kvenna

fotbolti kff hottur kvk juli14 0064 webÍ C-riðli 1. deildar kvenna eru þrjú austfirsk lið, Fjarðabyggð, Höttur og Einherji. Fjarðabyggð og Höttur hafa verið í deildinni um langt skeið og á síðustu árum hafa liðin reglulega komist í umspil um að komast upp í efstu deild. Einherji hefur hinsvegar ekki sent lið til keppni síðan árið 2003. Hér verður farið yfir stöðu mála hjá liðunum í byrjun sumars.


Fjarðabyggð
Fjarðabyggð endaði í næstneðsta sæti riðilsins í fyrra og litlar breytingar hafa orðið á liðinu síðan þá. Liðið hefur leikið tvo leiki nú þegar, en þær fóru á Húsavík í fyrstu umferð og töpuðu þar 3-0 gegn Völsungskonum, sem virðast líklegar til að vinna riðilinn í sumar. Síðan unnu þær Einherja 5-0 á heimavelli í gærkvöldi.

Fjarðabyggð er að miklu leyti að spila á sama liði og í fyrra. Þær hafa ekki misst mikið af leikmönnum, en þó má nefna það að Ástrós Eiðsdóttir er gengin til liðs við ÍR/BÍ/Bolungarvík. Freyja Viðarsdóttir er komin á heimaslóðir eftir að hafa leikið með KR undanfarin ár í efstu deild og 1. deild. Fjarðabyggð var með tvo erlenda leikmenn í fyrra en hafa einn í ár. Sú heitir Ellis Hillman og kemur frá Englandi.

Búast má við að styrkleiki Fjarðabyggðarliðsins verði svipaður og í fyrra, en þó er riðillinn töluvert veikari. Þær gætu barist um að ná 2.-3. sæti riðilsins, sé miðað við úrslit fyrstu leikja.

Lykilmaður: Freyja Viðarsdóttir hefur töluverða reynslu úr efstu deild og er góður leikmaður. Gott fyrir Fjarðabyggðarliðið að fá hana heim.

Höttur
Miklar mannabreytingar hafa orðið á liði Hattar frá síðasta sumri og þær hafa misst marga sterka leikmenn. Liðið endaði í þriðja sæti riðilsins í fyrra, en gengi liðsins í upphafi móts í ár hefur verið brösugt, þær töpuðu 4-1 gegn Sindra á Höfn og fengu svo Tindastól í heimsókn og misstu 2-0 forystu niður í 2-3 tap.

Eins og áður segir hafa þær misst marga sterka leikmenn. Magdalena Anna Reimus, sem skoraði 13 mörk í 16 leikjum í fyrra er farin í Selfoss ásamt Heiðdísi Sigurjónsdóttur og þar spila þær með einu besta kvennaliði landsins. Jóna Ólafsdóttir er farin í Fram, Alexandra Sveinsdóttir til Svíþjóðar, Bryndís Þóra Þórarinsdóttir í Fjarðabyggð og Sigríður Björk Þorláksdóttir hefur lagt skóna á hilluna. Einnig er Fanney Kristinsdóttir, sem skoraði átta mörk síðasta sumar, barnshafandi og verður ekki með í sumar.

Hryggjarsúlan er því svo gott sem horfin úr Hattarliðinu, sem var mjög öflugt í fyrra. Við keflinu taka ungar og óreyndar heimastúlkur, sem margar hverjar eru að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki.

Miðað við fyrstu tvo leikina má gera ráð fyrir því að liðið gæti átt erfitt tímabil framundan en þó er aldrei að vita hverju Óttar Guðlaugsson gæti náð út úr liðinu á sínu fyrsta tímabili sem meistaraflokksþjálfari.

Lykilmenn: Framherjinn Kristín Inga Vigfúsdóttir er leikreyndasti leikmaður Hattar og þær þurfa að treysta á að hún setji nokkur mörk í sumar.

Einherji
Lið Einherja er að mestu leyti óskrifað blað í byrjun sumars, en þær tóku ekki þátt í Lengjubikarnum í vor. Þær hafa leikið þrjá leiki nú þegar, töpuðu 11-0 gegn sterku liði Völsungs, 5-0 fyrir Fjarðabyggð og gerðu 1-1 jafntefli við Tindastól.

Liðið er skipað heimastúlkum, sem flestar eru á aldrinum 15-20 ára gamlar. Margar þeirra fengu félagaskipti frá Hetti eða Fjarðabyggð fyrir tímabilið. Að auki fékk Einherji markvörðinn Evu Margréti Árnadóttur frá Þór og sömuleiðis gekk Katrín Valsdóttir í raðir Einherja frá Þór.
Þá kom Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir frá Fram, en Hulda er fædd 1989 og hefur spilað með Fram í 1. deildinni undanfarin ár. Hún ætti að styrkja liðið og koma með reynslu inn í hópinn.

Sigurður Donys Sigurðsson þjálfari liðsins sagði markmið sumarsins vera fyrst og fremst að hafa gaman og læra, en margir leikmenn liðsins hafa takmarka reynslu af 11 manna bolta. Því má reikna með Einherjastúlkum við botn riðilsins í lok sumars.

Lykilmaður: Hulda Mýrdal Gunnarsdóttur mun eflaust verða mikilvæg fyrir Einherja í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar