„Hún er fullkomin sumarfríslesning": Rachel fer í frí
Fyrsta bók hins nýstofnaða bókaforlags Bókstafs á Egilsstöðum er eftir hina víðfrægu írsku Marian Keyes sem þrátt fyrir frægðina hefur farið lítið fyrir hér á landi. Bækur hennar hafa verið þýddar á yfir þrjátíu tungumál þannig að það var tvímælalaust kominn tími á íslenskuna.Ég var fyrirfram á báðum áttum um þessa bók, annars vegar er téð Marian með svo vemmilegan svip á Google að mér fannst það ekki boða gott, en hins vegar mælti Sigga Lára, eigandi bókaforlagsins, sterklega með þessu, og hún er eins langt frá því að vera vemmileg og hægt er. Þannig að væntingarnar núlluðust út og ég hóf lesturinn.
Titilpersónan, Rachel Walsh, segir söguna sjálf. Fyrstu persónu frásögn er vandmeðfarin en gengur vel upp hér og er stórskemmtileg á köflum.
Viðfangsefnið virðist þó ekki sérlega hressandi, Rachel er tuttugu og sjö ára, býr í New York og er heltekinn fíkill sem er búin að brenna kertið í báða enda í töluverðan tíma.
Fjölskylda hennar - sem hún hefur ekki háar hugmyndir um - ákveður að koma henni í meðferð á viðeigandi stofnun heima á Írlandi. Rachel samþykkir það með miklum eftirgangsmunum, aðallega vegna þess að hún ímyndar sér að á meðferðarstofnuninni muni hún geta legið í nuddi og dekri allan daginn, við hlið rokkstjarna og kvikmyndaleikara. Hún ætlar að gera það fyrir foreldra sína að fara, þótt hún sé sárhneyksluð á þeim fyrir að láta eins og hún eigi við vandamál að stríða.
Og það er hið eina sem ég er tilbúin að segja um söguþráðinn. Það er frábær skemmtun að fylgjast með lífi Rachel vinda ofan af sér, undirtónninn er grafalvarlegur og oft sem lesandinn (allavega þessi hér) getur speglað sig og sína í heimi fíknarinnar og öllum ljótleikanum sem honum fylgir. Húmorinn er þó yfirsterkari, fyrir aðstæðunum, ekki síst fyrir afneituninni og sjálfsblekkingunni sem Rachel lifir í og gerir sér smám saman grein fyrir.
Það þýðir ekki að hér sé kafað neitt sérstaklega djúpt í líf og eymd fíkilsins. Svo er ekki, en Keyes skautar heldur ekki í kringum erfið málefni, hún tæklar þau með hárbeittri kaldhæðni sem ómögulegt er annað en að hrífast af. Íslendingum ætti að líka þetta vel, svartur húmor fellur jafnan vel í kramið hjá okkur.
Þessi bók leynir á sér. Hún er sorgleg og fyndin, hárbeitt og rómantísk, kaldhæðin og persónuleg. Ég las hana í hvelli og lánaði áfram og það er jafnan gerður að henni góður rómur. Hún er fullkomin sumarfríslesning, fyrir karla jafnt sem konur.