Berjumst fyrir jafnrétti
Í dag eru 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarrétt. Baráttan fyrir þeim mannréttindum var ströng og þeir sem tóku þátt í henni fengu oft miklar ákúrur fyrir, bæði frá konum og körlum. Það var talið stríða gegn eðli kvenna að hafa afskipti af pólitík og helsta hlutverk þeirra var að sjá um heimilin og börnin. Margir óttuðust upplausn og ringulreið í samfélaginu ef konur fengju frelsi til þess að stíga inn á svið stjórnmála, hver yrði þá heima til þess að hugsa um heimilið? Þrátt fyrir háværar mótmælaraddir fengu konur kosningarrétt þann 19 júní árið 1915. Þó ekki allar konur heldur einungis þær sem voru 40 ára og eldri. Ástæðan fyrir þessum kvöðum var meðal annars sú að ekki þótti vænlegt að fjölga kjósendum um svo marga í einu og hrifsa þannig völdin frá þáverandi kjósendum landsins, sem voru einungis ákveðinn hópur karla.Síðan þá hafa mörg vötn runnið til sjávar og kynjajafnrétti hefur færst í aukana. Karlar fá nú að taka fæðingarorlof, konur sitja á Alþingi og til eru lög í lagasafni Íslands um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar með mætti halda að hinu fullkomna jafnrétti hafi verið náð. Veruleikinn er hins vegar annar, vinnumarkaður er kynjaskiptur, námsval er kynjaskipt, óútskýrður launamunur er á milli kynja, konur taka oftar lengra fæðingarorlof en karlar og svona mætti áfram telja. Það er þrautinni þyngri að breyta hugsjónum samfélagsins með nokkrum greinum í lagasafni Alþingis. Hugsjónir um hlutverkaskiptingu kynja sem viðgangast í samfélaginu byggjast á aldagömlum hefðum sem fólk taldi og telur oft enn vera óbreytanlegan fasta.
Ég geri mér grein fyrir að sumum þykir þetta vera „óþarfa tuð" og að nú sé kynjajafnrétti svo langt á veg komið að hið rómaða lögmál um að þeir hæfustu lifi af eigi best við, hvort sem um ræðir karl eða konu. Sannleikurinn er ekki alveg svo einfaldur. Það er uppeldið sem varðar mestu og við högum okkur ósjálfrátt samkvæmt þeim duldu skilaboðum um hlutverkaskiptingu kynja sem við ölumst upp við. Þess vegna er mikilvægt að líta gagnrýnum augum á samfélag sitt. Það er nefnilega þannig að það sem okkur þykir eðlilegt nú í dag gæti ef til vill þótt afskaplega kjánalegt eftir 100 ár. Rétt eins og það þótti eðlilegt hér áður fyrr að konur mættu ekki kjósa en okkur þykir það auðvitað kjánalegt nú í dag. Verum meðvituð um þetta og skoðum hvaða rök liggja að baki sjónarhornum sem eru önnur en okkar eigin.
Ég er stolt og þakklát fyrir þá baráttu sem formæður okkar og -feður háðu með það markmið að koma á auknu kynjajafnrétti. Nú er boltinn hjá okkur. Gerum arftaka okkar stolta og berjumst fyrir jafnrétti.
Höfundur er uppeldis- og menntunarfræðingur.
Greinin er hluti af hátíðarræðu sem flutt var á 17. júní á Seyðisfirði.