Til hamingju með tímamótin Íslendingar
Þann 19. júní 2015 voru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu fyrst kosningarétt til Alþings, en það ár fengu konur og stór hópur karlmanna 40 ára og eldri kosningarétt. Fyrst fékk kosningarétt til Alþingis tiltekinn hópur karla árið 1843 en þessi hópur var aðeins um 2% landsmanna. Rétturinn rýmkaðist síðan smátt og smátt og árið 1984 var rétturinn færður niður í 18 ár og þá fyrst var fullu jafnrétti allra fullorðinna Íslendinga náð, hvað kosningarétt varðar.Á þessum 100 árum sem liðin eru hefur margt áunnist varðandi jafnrétti á Íslandi og nú er staðan sú að Ísland mælist fremst á ýmsum alþjóðlegum mælikvörðum varðandi jafnrétti kynjanna. Þrátt fyrir sókn kvenna á öllum sviðum og meiri atvinnuþátttöku kvenna en víðast annars staðar hefur kynbundnu misrétti ekki verið eytt á Íslandi.
Í mínu starfi sem þingmaður hef ég nokkrum sinnum fengið tækifæri til að taka á móti erlendum gestum sem gagngert eru komnir hingað til lands til að kynna sér hvernig unnið hefur verið að vaxandi jafnrétti kynjanna hér á landi, hvaða skref hafa skipt sköpum og hvaða verkefni eru fyrirliggjandi. Samskiptin við gestina hafa kennt mér að meta enn betur þann árangur sem við höfum náð og hversu mikilvæg fjölbreytt vinna stjórnamálamanna, stofnanna, áhugasamtaka og einstaklinga er á þessu sviði.
Staðan hér á landi leggur okkur íbúum Íslands þær skyldur á herðar að miðla þeim aðferðum og lausnum sem við höfum notað til að ná árangri og jafnframt að læra af því sem vel er gert annars staðar í heiminum. Það er líka skylda okkar að halda ótrauð áfram í átt að frekara jafnrétti kynjanna því enn er ofmargt óunnið bæði hér á landi og annars staðar.
Skrefin eru ótal mörg, að baki tímamótaatburði er oft margra ára vinna og barátta sem okkur hættir til að gleyma þegar réttindin sem áunnist hafa eru orðin sjálfsögð. Nefna má að áður en konur fengu kosningarétt hafði undirskriftum verið safnað a.m.k þrisvar sinnum til að krefjast kosningaréttar og mikil og oft erfið umræða farið fram. Fyrsta konan var svo kjörin á þing 1922. Kvennafrídagurinn 1975 markaði tímamót og var mikil hvatning fyrir þær konur sem þá stóðu framarlega í kvennabaráttunni, en hafði líka áhrif á okkur sem vorum að vaxa úr grasi.
Kvennafrídagurinn hefur alltaf verið mér áminning um að hægt er að vera þátttakandi í baráttunni á marga vegu, því þennan dag tók móðir mín sér frí og fór í langa gönguferð meðan kynstystur hennar í höfuðborginni funduðu, hún lét fjarlægðina og einangrunina í sveitinni ekki hindra sig í að sína samstöðu. Vigdís Finnbogadóttir fyrsti lýðræðislega kjörni kvenforsetinn er sennilega sú sem flestar íslenskar konur líta til sem fyrirmyndar í jafnréttisbaráttunni og reyndar konur víða um heim. Af tímamóta skrefum síðustu ára má svo nefna fæðingarorlofslögin frá árinu 2000 og lögin um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja sem tóku gildi 2013.
Enn eru miklar áskoranirnar á leiðinni til jafnréttis, jafna þarf launamun kynjanna og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði er alltof mikil. Sérstaklega þurfum við að taka okkur á við að opna hefðbundin kvennastörf fyrir körlum, því karlar eiga líka rétt á störfum þar sem þeir geta miðlað ást og umhyggju. Þá er verk að vinna við að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi. Það er líka mikilvægt að meta á hvaða hátt aukið jafnrétti kynjanna hefur stuðlað að framförum í íslensku samfélagi, s.s. aukinni velferð og efnahagslegum umbótum á síðustu 100 árum.
Það er því fagnaðarefni að í tilefni dagsins samþykkti Alþingi þingsályktun allra flokka um Jafnréttissjóð Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári og sem ætlað er að styrkja verkefni sem auka jafnrétti kynjanna.
Aðgerðir stjórnvalda skipta vissulega máli en rökræðan og viðhorfsbreytingin sem fram fer í samskiptum einstaklinga er ekki síður mikilvæg, s.s. netumræða síðustu vikna um kynferðisofbeldi #þöggun, #konurtala, kynjamisrétti í hversdagsleikanum #6dagsleikinn og brjóstabyltingin #freethenipple. Án einstaklinga sem tilbúnir eru að berjast fyrir mikilvægum hugsjónum og taka á sig ágjöfina sem því fylgir, komumst við ekkert áfram.