Ég hef áhyggjur
Ég hef áhyggjur af uppgangi þjóðernissinnaðra jaðarflokka í Evrópu. Ég hef áhyggjur af því að þeir hafi náð saman til að mynda flokk á Evrópuþinginu sem tryggir þeim aukin áhrif og fjármagn. Ég hef áhyggjur af að Jobbik í Ungverjalandi, sem meðal annars elur á andúð í garð gyðinga, skuli hafa tífaldað fylgi sitt á átta árum og þar með öðlast vaxandi ítök í stjórnmálum þar.Ég hef áhyggjur af framtíð norræna módelsins, sem við viljum sum apa eftir og The Economist kynnti sem hið næsta „ofurkerfi" með forsíðumynd af hrokkinhærðum náunga með víkingahjálm. Efnahagskerfi sem byggst hefur upp á sterku velferðarkerfi, jöfnuði og umburðarlyndi.
Ég hef áhyggjur af uppgangi Sannra Finna sem tóku stökk í kosningunum 2011, eru nú næst stærsti flokkur landsins og í ríkisstjórn. Ég hef áhyggjur af svipaðri stöðu norska Framfaraflokksins. Ég hef áhyggjur af því að Svíþjóðardemókratarnir hafi tvöfaldað fylgi sitt milli kosninga og ég hef áhyggjur af stórsigri Dansk Folkeparti, sem hamrar á slagorðinu „þitt land, þitt val" í þingkosningunum þar í síðustu viku. Sérstakar áhyggjur hef ég af því að þróunin í íslenskum stjórnmálum verði sú hin sama, eins og borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins og þar áður Frjálslyndi flokkurinn, hafa sýnt tilhneigingu til.
En mestar áhyggjur hef ég af því að þetta gerist fyrir framan nefið á okkur án þess að við vitum nokkuð hvað eigi að gera.
Menn hafa reynt að hundsa flokkana í opinberri umræðu eða tala niður til þeirra sem styðja þá sem heimskingja. Orðunum fylgir hins vegar takmarkaður vilji til athafna og menn virðast vart tilbúnir í pólitísku skítverkin sem stundum þarf að vinna til að koma málstað sínum áfram, eða einföldustu aðgerðirnar eins og að mæta á kjörstað eða standa saman. „Heimskingjarnir" grípa hins vegar besta tækifærið sem þeir hafa til að láta verkin tala, einir í kjörklefanum með blýantinum og sameinast í eina hreyfingu því annars staðar er þeim úthýst.
Jafnaðarmannaflokkarnir, sem áður tengdu sig við verkalýðinn, eru að umhverfast í klíkur missnobbaðra beturvitrunga með heilagar háskólagráður sem nota löng og óskiljanleg orð og missa tengslin við upprunann. Hluti þeirra reynir að hætta sér út í forarpyttinn, eins og mislukkaðar könnur breska Verkamannaflokksins með áletruninni „Hemjum innflutning" (e. Controls on immigration) kortéri í kosningarnar í vor bera með sér. Hægri flokkana langar ögn að vera með en þora því ekki fyrr en þeir sjá á eftir fylginu. Þá komast þeir að því að þeir hvorki vilja né geta elt öfgarnar en eru komnir út í miðja á og eiga erfitt með að snúa við.
Það er líka erfiðara að bera kennsl á öfgarnar en áður. Þær eru síður krúnurakaðar í leðurjakka, slitnum gallabuxum og nota fúkyrði heldur í skyrtu, jakka og með bindi og nota fín orð sem eru engu að síður jafn gildishlaðin eða hættuleg. Þeir hafna skilgreiningum annarra á sér og ætla að skrifa söguna eftir eigin hag, samanber Jobbik sem tókst að fá þarlenda dómstóla til að banna ríkismiðlum að kalla þá hægri öfgaflokk þar sem þeir notuðu það hugtak ekki sjálfir.
Þeir sem segjast vera að flýja landið undan ömurleika íslenskra stjórnmála (eða danskra eins og viðbrögðin á föstudagsmorguninn voru) verða fyrir vonbrigðum því líkt og grasið var ekkert grænna hinum megin við lækinn er pólitíkin því miður engu betri hinum megin við landamærin.
Að endingu hrekjast menn undan öfgunum. Jaðarflokkarnir verða svo stórir að ekki er lengur hægt að ganga framhjá þeim við myndun ríkisstjórna, hvort sem þeir veita þeim hlutleysi eða eru fullir þátttakendur og ganga lengra og lengra í að fylgja stefnu sinni eftir.
Og að endingu hef ég áhyggjur að vera jafn úrræðalaus og allir aðrir.