Dásamleg Jasshátíð – Meira svona!

bjorn thoroddsen web1Jasshátíð Egilsstaða var fyrst haldin árið 1988 og hefur síðan verið árviss viðburður í tónlistarlífi okkar Austfirðinga. Jasshátíðin eða JEA (sem stendur fyrir Jasshátíð Egilsstaða Austurlandi) hefur gengið í gegnum miklar breytingar í gegnum tíðina, tónleikastaðir hafa verið margir og gríðarlega margir flytjendur hafa fengið að láta ljós sitt skína.

Í ár má segja að það hafi verið að nokkru horfið til upphafsins varðandi form og staðsetningu hátíðarinnar. Í kjölfarið á upprisu Valaskjálfar á Egilsstöðum sem menningarhúss var ákveðið að hátíðin færi fram þar, á einum degi og stóðu tónleikarnir frá fimm síðdegis til miðnættis. Undirritaður hafði látið heillast af mjög spennandi flytjendahópi og ætlaði sér sannarlega að mæta frá fyrstu mínútu. En vélarbilun úti fyrir strönd Færeyja (löng saga) gerði að verkum að ég komst ekki í húsið fyrr en upp úr átta.

Fyrir vikið missti ég af upphafsatriðunum en að þeim öllum var gerður góður rómur í mín eyru. Hátíðina setti hinn þrautreyndi stöðfirski blúsari Garðar Harðar. Þar á eftir var komið að heimamanninum unga Ívari Andra Klausen ásamt hljómsveit sinni, en með þeim spilaði einnig gamli gítarsnillingurinn Guðgeir Björnsson.

Þar næst spilaði síðan austfirska hljómsveitin Ranghalar sem stofnuð var árið 2012 og spilar að eigin sögn soul- og fönkskotið popp með ísköldu 80's ívafi. Söngkona hljómsveitarinnar, Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir er mörgum að góðu kunn eftir sigur í Idol Stjörnuleit árið 2009.

Eskfirðingurinn Garðar Eðvaldsson mætti til leiks vopnaður stórsveit hljóðfæraleikar. Á dagskránni voru frumsamin lög eftir Garðar, sem útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH í vor og hélt útskriftartónleika sína á heimaslóðum á Eskifirði daginn fyrir Jasshátíð. Þar fékk hann frábærar viðtökur og þær voru ekki síðri í Valaskjálf, enda lagasmíðar, útsetningar og flutningur allur algjörlega fyrsta flokks. Það væri hægt að gera margt verra en að hafa Garðar fastagest á JEA næstu árin.

Næst í röðinni voru Beebee and the bluebirds. Það er söngkonan, lagasmiðurinn og gítarleikarinn Brynhildur Oddsdóttir sem er aðalsprautan í þessari hljómsveit sem spilar mjög skemmtilegan og aðgengilegan blús og jassbræðing sem allir ættu að geta heillast af. Mikill kraftur og Brynhildur ákaflega flottur flytjandi, heillandi og töff á sama tíma.

Hún hefur síðan fengið með sér frábæra tónlistarmenn, Tómas Jónsson píanóleikara, bassaleikarann Brynjar Pál Björnsson og Ásmund Jóhannsson á trommur. Hljómsveitin er nýbúin að senda frá sér sína fyrstu plötu, Burning Heart, og það er alveg óhætt að mæla með henni. Flott tónlist og flutningur í hæsta gæðaflokki.

Björn Thoroddsen gítarfyrirbæri var næstur á svið. Hann var einn með kassagítarinn eftir því sem best varð séð, þó hann kynnti reyndar til sögunnar hljómsveit sem hann kveðst alltaf hafa með sér þó aðrir sjái hana ekki. Björn var léttur og skemmtilegur, það má raunar segja að hans flutningur hafi að sumu leyti verið meira í ætt við uppistand sem byggt var í kringum ótrúlega færni hans á gítarinn. Björn er bráðskemmtilegur en ég hefði gjarnan viljað heyra hann flytja fleiri lög.

Lokaatriði hátíðarinnar að þessu sinni var svo ekki af verri endanum en það var hinn goðsagnakenndi Jack Magnet Quintet (sem voru reyndar sex!). Jack Magnet er listamannsnafn Jakobs Frímanns Magnúsonar en hann hefur sent frá sér fjöldan allan af plötum með jass- og fönkskotinni tónlist og er vitaskuld einn allra færasti tónlistarmaður landsins.

Það liggur fyrir að Jakob Frímann er um margt sérstakur og ekki allra. Hljómsveit hans dregur nokkurn dám af hans karakter, mætti jafnvel kalla hana uppskrúfaða ef maður væri þannig þenkjandi, og það verður að segjast eins og er að alveg í upphafi var ég ekki viss um að þeir myndu „ná salnum“ eins og það er kallað.

Það reyndust óþarfa áhyggjur. Áður en maður vissi af höfðu þeir gjörsamlega sogað áheyrendur inn í magnaðan hljóðheim, þar sem villtur hljómborðs- og saxófónleikur voru í forgrunni og við fengum að heyra fuglasöng og ýmis einkennileg hljóð úr barka slagverksleikara hljómsveitarinnar til skrauts. Fyrir áhugamenn um söguna var síðan ekki ónýtt að sjá Jakob grípa til hins margfræga búksláttar, sem gerður var ódauðlegur í sendiherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar í Lundúnum á sínum.

Heilt yfir var jasshátíðin algjörlega frábær. Dagskráin var gríðarlega þétt og skemmtileg og jass og blús í forgrunni eins og vera ber. Ég vil þakka Jóni Hilmari Kárasyni og öðrum þeim sem lögðu hönd á plóginn við skipulagninguna kærlega fyrir og hvet þá til að halda áfram á sömu braut. Að mínu mati eru allar forsendur til þess að hátíðin geti vaxið og dafnað í þessu formi um ókomin ár.

Takk, takk, takk.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.