5 bestu leiðirnar til að upplifa Austurland um helgina

raninnJú, þér er ekki að skjátlast – þú ert vissulega að lesa topp fimm lista á hinum ábyrga og trausta fréttamiðli Austurfrétt. Í þessari snörpu yfirferð verður farið yfir þá fimm hluti sem þú ættir að mínu mati helst að gera á Austurlandi um helgina, til að upplifa alvöru austfirska stemningu og fá Austurland beint í æð, ef svo má segja.

5 – Borðaðu fisk úr hafinu og jurtir úr fjallinu á Pólar Festival
Ef þú hefur gaman af allskonar hlutum, þá ættir þú að kíkja á Stöðvarfjörð um helgina. Þar er verið að gera ýmislegt stórmerkilegt. Námskeið hafa staðið yfir því á þriðjudag og á laugardagskvöld verður boðið til mikillar matarveislu, þar sem hægt verður að borða afrakstur starfsins, en matarsmiðjan Umhverfing hefur unnið að því að nýta hráefni sem finnast á staðnum í matargerð. Fiskinn úr hafinu og jurtir úr firðinum, o.s.frv.

Eftir matinn verða svo tónleikar þar sem Kriki, Mafama og Teitur Magnússon stíga á stokk. Að loknum tónleikum verður svo dansað fram á nótt. Síðan mæta allir eldsprækir í morgun-jóga á sunnudagsmorgun.

4 – Alþjóðleg myndlist á Djúpavogi
Listunnendur ættu alls ekki að láta sig vanta á Djúpavog á morgun, en þá verður myndlistasýningin Rúllandi Snjóbolti/6, Djúpivogur opnuð. Sýningin er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar CEAC og alls taka 26 listamenn frá Kína, Íslandi, Hollandi og fleiri löndum þátt í sýningunni, sem haldin er í Bræðslunni á Djúpavogi.

3 – Blótaðu þorrann á Borgarfirði
Undarlegar júlískemmtanir eru orðnar að föstum lið á Borgarfirði eystri og þar verður þorrinn blótaður í kvöld. Félagarnir hjá Já Sæll í Fjarðarborg standa að viðburðinum og má búast við því að það verði mikil gleði, enda alltaf gaman á þorrablótum hér á Austurlandi.

Ræðumaður kvöldsins er ekki af verri endanum, en heyrst hefur að það sé enginn annar en Jón Gnarr. Hann segir nú venjulega eitthvað fyndið.

2 – Rokkaðu þig upp á Eistnaflugi
Eistnaflug er ótrúleg hátíð. Þar koma saman rokkarar hvaðanæva og fylla Neskaupsstað af gleði og grjóthörðu rokki. Hátíðin er stærri í ár en hún hefur áður verið og að þessu sinni er aðalsviðið í íþróttahúsi bæjarins.

Ef þú ætlar á Eistnaflug skaltu samt muna að það er stranglega bannað að vera fáviti.

1 – Vertu heima og karpaðu um jarðgöng á Facebook
Enn á ný eru jarðgangaframkvæmdir í fjórðungnum til umræðu. Forsvarsmenn bæjarráða Fjarðabyggðar og Seyðisfjarðarkaupstaðar eru ósammála um heppilegustu staðsetningu ganga til Seyðisfjarðar. Seyðfirðingar vilja göng beint upp á Hérað en formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar lýsti í fréttum RÚV í gærkvöldi þeirri skoðun sinni að betra væri að byrja á göngum frá Seyðisfirði til Norðfjarðar í gegnum Mjóafjörð, með tengingu upp á Fagradal.

Ljóst er að hér er fólk mjög ósammála og hvað er í raun austfirskara en að vera svolítið ósammála nágrönnunum í næsta sveitarfélagi? Til þess að upplifa alvöru austfirska stemningu mæli ég þess vegna með því að þú skráir þig beint inn á Facebook og takir þátt í umræðunni um helgina.

Góða helgi Austfirðingar!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar