Ísland – mest í heimi

thrainn larusson valaskjalf nov14Það er mikil fáfræði að tala um ferðaþjónustu á Íslandi sem eina atvinnugrein og tala síðan jafnvel um metnaðarleysi í „stéttinni"! Tilfellið er að það eru gríðarlega margar atvinnugreinar í þessum atvinnuvegi sem ferðaþjónustan er og það fer óstjórnlega í taugarnar á mér þegar allir eru settir undir einn hatt eins ólíkar og greinarnar eru.

Í þessum atvinnuvegi eru til að mynda mjög margar atvinnugreinar sem hafa mjög mikið gott regluverk og það eru gerðar miklar og kostnaðarsamar starfsleyfisskyldar kröfur til þeirra. Síðan eru innan ferðaþjónustunnar aðrar greinar, og kannski yngri, sem lúta nánast engum kröfum og reglum og þar er fjandinn laus.

Auðvitað á það vera hlutverk stjórnvalda að skapa lagalegt umhverfi og endurgjaldskröfur til þeirra, það hefur gjörsamlega brugðist. Við slíkt hlýtur að vera eðlilegt að horft sé til þess kostnaðar sem þessar atvinnugreinarnar kalla eftir að greiddar séu úr ríkissjóði til móts við að þann hagnað sem ríkið er að fá á móti úr greinunum.

Engum finnst óeðlilegt að erlendir ferðamenn greiði ekki virðisaukaskatt af varningi sem þeir versla sér hér í verslunum. Það er nefnilega kallað tax free, eins og í útlöndum og þá finnst öllum það sjálfsagt. Slík viðskipti skila engu í ríkiskassann en eru auðvitað hvetjandi aðdráttarafl í harðri samkeppni landsins um ferðamenn.

En síðan virðist öllum finnast það eðlilegt að setja skuli tvöfalt hærri virðisaukaskatt á hótelgesti hér á landi en gert er í öllum okkar samkeppnislöndum. Jú, rökin eru þau að hér borga menn ekki fyrir að skoða náttúruna! En er það eðlilegt?

Það þekkist ekki nokkurs staðar í veröldinni að áhugaverðir skoðunarstaðir séu gjald fríir. Hvernig er hægt að réttlæta það að þeir sem gista á hótelum á Íslandi skulu þurfa að greiða rúmlega tvöfalt hærri skatt fyrir að gista á hótelum svo útlendingar geti skoðað landið frítt? Nú gisti ég nokkrar nætur í mánuði á hótelum í Reykjavík, er eðlilegt að ég greiði hærra verð fyrir það svo útlendingar geti skoðað Gullfoss og Geysi frítt? Nei ég spyr nú bara svona.

Er ekki eðlilegt að þeir borgi sem njóta og fyrir mína parta, sem er búin að veltast í þessum bransa í áratugi og sækja óteljandi fundi um þetta mál, verð að segja að besta hugmyndin sem komið hefur fram er náttúrupassi Ragnheiðar Elínar. Ég var ekki upprifinn fyrst af hugmyndinni en eftir að hafa kynnt mér málið mjög ítarlega, sem kannski fleiri hefðu mátt gera, þá keypti ég þetta. Þetta var málið! Klárlega.

Því miður tókst hagsmunaöflum í landinu að koma þessu ágæta frumvarpi fyrir kattarnef. Og nú er söngurinn byrjaður aftur að ferðamenn eiga að borga og eina sem mönnum dettur í hug er að hækka virðisaukaskattinn á gistingu.

Það er nefnilega talið alveg algjörlega sjálfsagt að landsbyggðarskríllinn greiði rúmlega tvöfalt hærri skatt fyrir að gista á hóteli í Reykjavík þegar hann þarf að sækja höfuðborgina sína heim svo íbúar höfuðborgarinnar þurfi ekki að borga 500 kall á ári fyrir að skoða náttúruna þegar þeir fara út á land. Er þetta kannski bara eðlilegt.

Það er nákvæmlega ekkert skipulag til í ferðaþjónustu á Íslandi. Hér er öllum hrúgað niður á sömu örfáu blettina á landinu sem síðan eru eðlilega að troðast niður og allt skiljanlega að verða vitlaust út af. Á sama tíma er langstærsti hluti landsins nánast tómur og galtómir tíu mánuði á ári. Eins og gjarnan er með Íslendinga halda menn að stóraukning ferðamanna sé eitthvað sér Íslenskt fyrirbrigði, en því fer víðsfjarri. Við erum ekkert einstök, heimurinn er svona.

Fólk er farið að ferðast margfalt meira en það gerði hér áður og þetta á eftir að stóraukast en „takið eftir" ekki bara á Íslandi heldur um allan heim - nema kannski í Norður Kóreu. Ferðamannafjöldi á Íslandi er lítill samanborinn við önnur lönd og enn minni ef tekið er tillit til stærðar landsins og meira að segja mjög lítill miðað við mörg lönd.

Í alvöru ferðamannalöndum dytti engum í hug að hafa frítt inn á alla skoðunarstaði, tíma þess vegna ekki að setja upp klósett og sómasamlega aðstöðu við þessa staði, láta sér síðan detta í hug að bjarga málunum með því að setja rúmlega tvöfalt hærri skatt á hótelgesti en þekkist annarstaðar, eiga þrjár fluggáttir inn í landið en opna aðeins eina sem engan vegin getur annað fjöldanum, dengja þannig líka ferðamönnunum öllum niður á sama blettinn og markaðssetja síðan bara örfáa agnarsmá skoðunarstaði í nágreni flugvallarins og skilja síðan ekkert í því að allt er að fara í óefni og gullgrafararnir mættir á svæðið.

En þetta er ekki bara Ísland í dag, svona hefur Ísland alltaf verið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.