Krókur á móti bragði íslenska sumarsins
Ég las mikið þegar ég var unglingur. Andaði hálfpartinn að mér hverri bókinni á fætur annarri. Amma Jóhanna átti stórt bókasafn sem ég leitaði mikið í og lá gjarnan löngum stundum í sófanum hjá henni og las.Einhverntíman datt ég í „ævintýrabækurnar" eftir Enid Blyton – um krakkana sem leystu hverja æsispennandi ráðgátuna á fætur annarri. Þegar ég var komin af stað með síðustu bókina áttaði ég mig á því að það vantaði miðbikið úr henni, hafði augljóslega lent í einhverjum skakkaföllum. Af því leiddi að ég gat ekki almennilega áttað mig á því við hvaða vanda krakkahópurinn snjalli tókst við í það skiptið.
Mig varðaði hins vegar ekkert um það og datt ekki í hug að láta þetta „gap" slá mig út af laginu. Í stað þess að kasta bókinni frá mér og verða fúl, skáldaði ég bara. Lét sem þau hefðu fundið leynigöng sem leiddu til handtöku skartgripaþjófa. Líklegt verður að teljast að eitthvað allt annað hafi átt að standa á pappírnum, en ég ákvað að gera bara gott úr þessu og þótti minn bútur bara fínn.
Samkvæmt dagatalinu er sumar. Hásumar meira að segja. Hér hefur ekkert sumar komið, en samkvæmt veðurdagbók sem mætur maður hér á Reyðarfirði hefur haldið í sumar hafa aðeins þrír heilir sólardagar verið skráðir síðan í apríl. Ég endurtek, þrír heilir sólardagar.
Þó svo við búum á Íslandi sér það hver heilvita maður að þarna er eitthvað „pikkless" í gangi. Svo virðist einmitt sumar-kaflann hreinlega vanti í bókina eins og hjá Blyton forðum.
Vissulega verð ég að viðurkenna að þetta hefur valdið mér og öðrum nokkurri ógleði og pirringi. En þegar komið var undir júnílok, daginn tekið að stytta á ný án þess að ég hefði nokkru sinni sest út með kaffibollann minn, sá ég að þetta gekk ekki lengur. Tók meðvitaða ákvörðun um að skálda bara nýjan kafla fyrst hinn vantaði.
Hjá mér hefur því verið haust síðan 1. júlí. Frekar kalt haust meira að segja, þar sem hefur snjóað í fjöll og fólk ekki farið með dúnúlpuna í bílskúrinn.
Það vill mér til mikils happs að mér líkar einstaklega vel við haustið, þannig að í stað þess að gráta sumarið sem aldrei varð, lengi ég mína uppáhalds árstíð.
Ég er fyrir löngu farin að pakka mér inn í teppi á kvöldin og elda kjötsúpu. Prjóna á kvöldin við kertaljós, klæði krakkana í loðbrækur og plana veturinn.
Eitt þykir mér þó merkilegt í þessu. Í fyrrasumar var hver einasti fréttatími á öllum miðlum landsins í það minnsta hálfur af óveðursfréttum. Þá var víst ekkert sumar heldur, í það minnsta ekki fyrir sunnan.
Það er kannski einhver vitleysa í þeirra bókum líka. Berast líklega engar upplýsingar um kuldatíðina hér fyrir austan, bara um bikinibossa í Nauthólsvík.
En okkur er sama. Hér er notarlegt. Gleðilegt haust!