Um kvennafundi og karlaklúbba
Ræða flutt á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð, 13. ágúst 2015. Á fundinum var 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna fagnað og hann sátu því aðeins kvenkyns bæjarfulltrúar.Í dag sitjum við hér, í fyrsta skipti, bara konur sem kjörnir fulltrúar á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð.
Það er svolítið óhugnarlegt að hugsa til þess hvað í raun og veru er stutt síðan konur máttu ekki kjósa. Hundrað ár. Það er ekki langur tími, ekki margar kynslóðir. Þótt það hafi sem betur fer óskaplega margt gott gerst á þessum hundrað árum og ungt fólk í dag geri sér í raun og veru kannski ekki alltaf grein fyrir því, þá eru næg verkefni framundan líka.
Nú eru sveitarfélög skyldug til að gæta þess að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum og nefndum sé sem jafnast. Þótt það sé auðvitað ekki ákjósanlegast að ná fram breytingum með að þvinga þær fram með lagasetningum, þá segir sagan okkur að stundum sé það beinlínis nauðsynlegt. Sum vandamál lagast nefnilega ekki algjörlega af sjálfu sér. Ég segi vandamál vegna þess að það er engum hópi hollt að vera einsleitur og á sama hátt og við þurfum að tryggja að í nefndum og ráðum sitji fólk á öllum aldri, með fjölbreytilegan bakgrunn, sem býr vítt og breitt um sveitarfélagið, þá þurfum við líka að gæta þess að þar séu konur jafnt sem karlar.
Nú sit ég mitt annað kjörtímabil í þessari bæjarstjórn og nefndum bæjarins. Það gerir Eydís Ásbjörnsdóttir líka og það er í fyrsta sinn í sögu bæjarstjórnarinnar sem það gerist – þ.e. að kona sitji meira en eitt kjörtímabil. Ástæðurnar fyrir þessu úthaldsleysi, ef svo má kalla, eru sjálfsagt margar en nokkrar eru mjög augljósar. Þetta er talsvert áhyggjuefni og eitthvað sem við þurfum að skoða betur. Getum við gert eitthvað til að gera stafið í bæjarstjórn Fjarðabyggðar ákjósanlegra fyrir konur? Hvers vegna vilja þær ekki sitja annað kjörtímabil? Hér ættu að vera hæg heimatökin, því þær konur sem setið hafa í bæjarstjórn í Fjarðabyggð eru nánast í kallfæri. Ég skora á bæjarstjórann, sem leggur hér á eftir fram jafnréttisstefnu sveitarfélagsins, að beita sér fyrir því að þetta verði skoðað sérstaklega og athuga hvort við getum ekki gert eitthvað til að stuðla að því að konur geti hugsað sér áframahaldi þátttöku í pólitísku starfi í Fjarðabyggð.
Seta mín í bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur kennt mér mjög margt, svo ég sé nú dálítið á persónulegu nótunum líka. Þrátt fyrir að hafa aðallega unnið á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meirihluta þá ég hef ekki kynnst samskonar „karlaklúbbi" og bæjarstjórn og bæjarráði Fjarðabyggðar. Í minni hefðubundnu dagvinnu hefur t.d. aldrei neinn sagt „strákar" við hóp sem ég sit í, þrátt fyrir að þar sé ég iðulega eina konan. Þar taka menn ekki ákvarðanir og þykjast svo vilja heyra hvort ég sé ekki örugglega sammála, því þar fæ ég að vera með í samtalinu sjálfu. Ég hef heldur aldrei verið skömmuð eins og óþægur krakki í vinnunni ef ég hef aðra skoðun en vinnufélagarnir. Mér hefur alltaf þótt viðmótið sem ég fæ í vinnunni minni vera það sama og mætti mér ef ég væri miðaldra karl. Það segir auðvitað mikið um hvað ég vinn með vönduðu fólki en það segir mér líka að hér á bæ má bæta hlutina. Og það er alveg hægt að bæta þá – það er ekki einu neitt sérstaklega flókið – en „karlaklúbburinn" þarf auðvitað að vilja það og leggja sig fram um það.
Nú hafa bæjarstjórnarfundir eins og þessir, þar sem einungis konur sitja fundinn, verið haldnir nokkrum stöðum á landinu í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna. Þetta er ein leið til að halda upp á þessi tímamót og ég lumaði ekki á neinni betri, þegar ég heyrði að svona fundur væri áætlaður í Fjarðabyggð. Ég varð hins vegar fyrir talsverðum vonbrigðum þegar mér barst fundarboðið og fyrir því eru tvær ástæður:
Í fyrsta lagi er þetta fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí. Hér eru því engar fundargerðir til staðfestingar. Ekki ein. Þær eru allar til kynningar. Sem sagt, hér er verður ekki tekin alvöru umræða um eitt einasta mál í þessum fundargerðum og ekki kosið um þau heldur. Þetta þykir mér sorglega dæmigert. Nú hljóma ég kannski eins og reið og langþreytt eldri kona sem er búin að svekkja sig á stöðu kvenna í áratugi en ég er bara 31 árs. Samt er ég orðin svo þreytt á svona uppákomum. Hér er okkur konunum ekki treyst fyrir „alvöru bæjarstjórnarfundi". Það var greinilega best að tímasetja hann þannig að við þyrftum helst ekki að hugsa neitt, mynda okkur neinar skoðanir, rökræða eða kjósa. Bara mæta, láta kynna fyrir okkur hvað hefur verið ákveðið, sitja stilltar á meðan og fara svo heim. Þetta er eitthvað svo grátlega dæmigert og auðvitað sérstaklega kaldhæðnislegt og dálítið ósmekklegt, að á fundinum þar sem við fögnum því að hafa mátt kjósa í 100 ár fáum við ekki að kjósa um neitt.
Eða, bíðum nú við. Jú! Hér eru heil fjögur almenn mál. Förum örstutt yfir hver þau eru (og þau eru sem sagt hin ástæðan fyrir því að ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég las dagskrá þessa fundar).
1. mál á dagskrá er þetta sem ég tala nú undir. Umræður um stöðu kvenna í sveitarstjórnarmálum á Íslandi.
2. mál á dagskrá er jafnréttisstefna sveitarfélagsins.
3. mál er almennar umræður um þrjár bókarnir sem búið er að leggja fyrir fundinn. Sú fyrsta fjallar um samstarf vegna heimilisofbeldis, önnur um úttekt á kynjabundnum launamun hjá Fjarðabyggð og síðasta bókunin kemur frá okkur í Fjarðalistanum og fjallar um að efla hinsegin fræðslu í skólum Fjarðabyggðar.
4. og síðasta mál á dagskrá er reglur um gerð fjárhagsáætlunar.
Þetta eru auðvitað allt þörf og mikilvæg mál. Ekki misskilja mig, ég er afar ánægð með að sjá þau öll sömul hér inni í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, en það sem veldur mér vonbrigðum er að þau séu öll tekin fyrir þessum fundi. Á fundi þar sem bara sitja konur. Af því að heimilisofbeldi, jafnrétti og kynjabundinn launamunur eru allt einkamál kvenna? Af því að það er algjörlega ástæðulaust að láta karlmenn koma að umræðu um þessi mál?
Þetta er hræðilega gamaldags hugsun sem ég hélt að væri að deyja út. Auðvitað eigum við að ræða þessi mál öll – ekki bara konur. Þetta eru ekki einkamál kvenna, þótt þau bitni að stærstum hluta á þeim. Það á ekki að láta karlmenn vera stikkfrí í þessari umræðu. Þeim er ekki sama. Þeir hafa ýmislegt til málanna að leggja og þeir bera ábyrgð á því, rétt eins og konur, að þetta breytist og lagist. Rétt eins og það er okkar allra, sama hvaða kynhneigðar við erum og hvort við erum í réttum líkama að passa upp á að allir sitji við sama borð og að öllum líði vel, eins og þeir eru. Það sama á auðvitað við um karla og konur.
Að endingu vil ég óska okkur öllum til hamingju með þessi tímamót, minna okkur á að það hefur gríðarlega margt áunnist á þessum hundrað árum en ekki síður að það er enn af nógu að taka.