Í upphafi skyldi endinn skoða
Á fyrsta fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar eftir sumarfrí sátu einungis konur í tilefni af 100 ára afmæli kostningarrétti kvenna.Þótti tilhlýðilegt að halda upp á tímamótin með þessum hætti og er bæði sjálfsagt og eðlilegt að slíkt sé gert, þegar helmingur þjóðarinnar átti slíkum tímamótum að fagna. Rétt er þó að halda því til haga að það var rúmur helmingur sem hlaut kostningarétt þennan dag – verkamenn og margar aðrar stéttir fengu einmitt kosningarétt í fyrsta skipti á sama tíma.
En tilefni þess að undiritaður settist við lyklaborðið og fór að hamra er ekki það að þessi fundur hafi verið haldin með þessum formerkjum, heldur sú staðreynd að á þessum 100 árum sem liðin eru frá því að konur (og fleiri) fengu rétt til að kjósa höfum við náð miklum og nauðsynlegum árangri í því að jafna hlut kynja í stjórnum og ráðum margra sveitarfélaga og er það vel.
Skoðum þetta mál aðeins.
Í Fjarðabyggð eru samtals níu nefndir og ráð. Í þessum ráðum og nefndum sitja í dag 23 konur þar af eru fjórar formenn. Karlar sem sitja í sömu nefndum og ráðum eru 20 og þar af eru fimm formenn.
Í bæjarstjórn sátu fimm karlar og fjórar konur, þar til að ég tók þá ákvörðun að flytjast aftur á æskuslóðir mínar á Djúpavogi og segja af mér í kjölfarið sem bæjarfulltrúi. Í minn stað kom sá einstaklingur sem næstur var á okkar lista, kona, og eru því meirihluti sæta bæjarstjórnar skipaður konum eftir brotthvarf mitt af þeim vettvangi.
Þetta sýnir svo ekki verður um villst að jafnari getur staðan vart verið og því ber að fagna heilshugar þegar svona vel er að verki staðið eins og þessi dæmi sýna svart á hvítu.
Einhverjar ræður voru að sjálfsögðu fluttar á þessum fundi bæjarstjórnar og var farið yfir hin ýmsu mál en hlutarins eðli samkvæmt eru ekki mörg mál til afgreiðslu á fyrsta fundi eftir sumarfrí og gerðu sumir bæjarfulltrúar það að aðalmáli fundarins og vildu meina að lítið væri gert úr hlutverki kvenna í sveitarfélaginu og að á fundi þesssum væru einungis kvenlæg mál til umræðu.
Ég ætti kannski að biðja viðkomandi bæjarfulltrúa afsökunar á því að þessi fundur skyldi lenda á fyrsta fundi eftir sumarfrí, það er að hluta til mín sök, þar sem að bæjarstjórn Fjarðabyggðar vildi nota síðasta fund fyrir sumarfrí til að kveðja mig eftir 17 ára starf í þágu sveitarfélagsins.
En hvað er það sem veldur því að bæjarfulltúinn upplifi sig sem „konu í karlaklúbbi" þegar kemur að stjórn sveitarfélagsins? Ég get ekki svarað því, en tölfræðin segir annað og ekki hef ég orðið var við að lítið sé gert úr skoðunum kvenna á þessum vettvangi, né heldur að þær séu án áhrifa og bara hafðar uppá punt.
Allti innlegg allra einstaklinga sem starfa í pólitísku starfi skiptir máli þegar kemur að því að móta mál og stefnur, þannig hefur í það minnsta verið unnið þar sem ég hef komið að þessum málum.
En aðalkjarni málsins er þessi þegar upp er staðið:
Konur eru í meirihluta ráða og nefnda, þeirra innlegg og áherslur fá fullt vægi í öllum þeim málum sem á borð þessara ráða og nefnda rata og þær leggja línurnar í fjórum af níu nefndum sveitarfélagsins sem formenn þeirra.
Ég hefði talið vera tilefni til að fagna því sérstaklega í ræðustól bæjarstjórnar á slíkum hátíðarfundi hversu margar konur eru virkir þátttakendur í pólitísku starfi og hvetja þær sem huga á slíkt til dáða, frekar en að lýsa eigin upplifun á þessum vettvangi með þeim hætti sem gert var. Ég hef ekki heyrt aðrar konur sem þarna starfa tala með sama hætti, þær sem ég hef talað við upplifa sig sem virka þátttakendur og gerendur en ekki sem fórnarlömb hins meinta „feðraveldis".
Góðar stundir.