Getum við hýst flóttafólk á Hallormsstað?

dagur skirnir odinsson webEins og svo margir Íslendingar þá finnst mér sorglegt að fylgjast með fréttum af ástandi flóttafólks frá Sýrlandi og hafa það á tilfinningunni að ég geti ekki gert neitt sem skiptir alvöru máli.

Innblásinn af “Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar” ákvað ég að senda sveitarfélaginu mínu póst, þar sem ég kasta fram hugmynd um hvernig Fljótsdalshérað getur hjálpað til á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki varanleg lausn og eflaust eru til aðrar betri hugmyndir sem gaman væri þá að heyra. Í versta falli vona ég að þetta komi af stað bolta hér fyrir austan.

Í það minnsta, hér er hugmyndin sem ég kastaði fram fyrst á fésbókinni og síðar í bréfi til bæjarstjórnar:

Til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og þeirra er málið varðar

Ég treysti því umræðan sem átt hefur sér stað í samfélaginu og í raun útum alla Evrópu vegna aðstæðna og örlaga flóttafólks frá Sýrlandi hafi ekki farið fram hjá ykkur.

Börnum er að skola á land, fólk kafnar inní loftlausum vöruflutningabílum, feður og mæður drukkna.
Til að bregðast við þessu ætlar ríkisstjórnin á þessu ári og því næsta að taka á móti fimmtíu flóttamönnum, já fimmtíu.

Mér og svo mörgum öðrum finnst það sorglega lítið og ef að æðsta yfirvald landsins er ekki tilbúið að grípa til aðgerða til þess að bjarga fleiri mannslífum, þá sé ég ekki hvernig nærsamfélagið og sveitarfélögin geta setið hjá og haldið kjafti.

Ég hvet því ykkur í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs til að taka af skarið, sýna frumkvæði dug og þor í þessum málum og bjóða fram aðstoð sveitarfélagsins.

Í því samhengi bendi ég á að sveitarfélagið á ennþá Hallormsstaðaskóla, flott hús sem gæti hýst fleiri fleiri fjölskyldur til að byrja með.

Nú veit ég vel að það stendur til að selja húsið, en með því að fresta sölu um eitt ár og gefa það undir fólk sem þarf virkilega á húsaskjóli og öruggu umhverfi að halda mynduð þið sýna fordæmi sem aðrir gætu fylgt. Þetta myndi kaupa tíma og vænti ég þess að saman gætum við svo fundið lausn fyrir fólkið til langtíma.

Auðvitað hlytist af þessu einhver kostnaður en hvers virði er mannslíf?

Neyðin er núna, desperate times call for desperate measures.
Í það minnsta, ekki gera ekki neitt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar