Við Íslands bláu fjöll

stefan bogi x2014Í dag er flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi stærsta mál heimsfréttanna. Það er út af fyrir sig gott því að oft hafa heimsfréttirnar verið uppfullar af fréttum sem skipta minna máli en þetta.

Við Íslendingar gerðum líka heiðarlega tilraun til að drekkja því sem máli skiptir í fréttum af því að fjármálaráðherra hefði skráð sig inn á framhjáhaldsheimasíðu (Hvílíkir tímar sem við lifum!). En það er smámál. Það eykur ekki álit mitt á honum, en það er samt smámál og raunar einkamál.

En milljónir manna á flótta undan stríðsátökum og neyð er ekki smámál. Fjölskyldur sem drukkna í örvæntingu sinni við að leita öryggis í Evrópu, sem kafna á leið yfir landamæri í flutningabílum og sem hírast hungraðar og klæðalitlar á ströndum Miðjarðarhafsins og grátbiðja um hjálp. Þetta kemur allri heimsbyggðinni við. Þetta kemur okkur við.

Íslendingar sem þjóð virðast blessunarlega vera að vakna til vitundar um þetta. Við hefðum reyndar vel mátt vakna fyrr. Við höfum lengi heyrt hörmulegar fréttir frá Miðjarðarhafinu. Þar hefur stöðugur straumur flóttafólks legið frá Afríku svo árum skiptir, með tilheyrandi hörmungum, dauða og neyð. Íslendingar hafa lengi getað leitt þennan vanda hjá sér. Við erum þannig í sveit sett að hingað leita engin flóttamannaskip. Hingað er ómögulegt að smygla stórum hópum flóttafólks. Við höfum aðeins séð örlítið horn af þessum vanda í gegnum einstaklinga sem hingað hafa getað keypt sér far og óska síðan eftir hæli sem pólitískir flóttamenn.

Hin nýja Þjóðarsál

Vitund Íslendinga um vandann er helst hægt að merkja í gegnum Facebook – þessa okkar nýjustu gerð af Þjóðarsálinni. Ég hef heilt yfir glaðst yfir því að þar virðast mér vera í miklum meirihluta þeir sem mæla fyrir mannúð og því að við öxlum ábyrgð í alþjóðlegu samhengi. Mín upplifun er sú að þeir séu mun færri sem sjá ofsjónum yfir því að við réttum meðbræðrum okkar hjálparhönd í neyð.

En mér finnst skipta máli hvernig þeir sem vilja veita aðstoð haga málflutningi sínum. Mér hefur fundist of mikið bera á því að það sé verið að leita að andstæðingi. Erum við orðin svo vön því að standa og garga á hvert annað að við kunnum ekki lengur að leita samstöðu? Við þurfum ekki að leita að þessum röddum sem tala gegn því sem við teljum rétt. Við þurfum ekki að ætla sjálfkrafa að ríkisstjórnin sé vond og að hún vilji ekki taka við fleiri flóttamönnum, bara af því að hún er ekki ennþá búin að stökkva til og nefna einhverja tölu. Og við þurfum sannarlega ekki að setja þetta mál í samhengi við verkefni í stjóriðju, eða nokkuð annað ef út í það er farið. Sá samanburður er bara beinlínis fjarstæðukenndur og hjálpar nákvæmlega ekkert til.

Ef við viljum að Ísland taki við fleiri flóttamönnum þá þurfum við að virkja samstöðu. Við þurfum að skapa breiðfylkingu. Að því leyti eru viðbrögð Eyglóar Harðardóttir, og síðan viðbrögðin við þeim, sennilega það besta sem hefur gerst í þessu máli. Og það er svo, þrátt fyrir að með því sé að sumu leyti byrjað á öfugum enda. Það er alveg ljóst að Ísland tekur ekki við flóttamönnum nema að ríkisstjórnin ákveði að gera það. En til þess að unnt sé að ráðast í það verkefni þarf hins vegar samstöðu og velvilja fólksins í landinu og sveitarfélaga um allt land. Hafi viðbrögð ráðherrans verið til þess ætluð að kanna jarðveginn, þá tel ég að hann sé fullkannaður. Við eigum að vinda okkur í þetta verkefni.

Mér finnst stundum að pólitíkin sé of köld. Mér finnst líka stundum að við sem samfélag séum orðin smituð af þessu kaldlyndi. Ég held að það sé hollt öðru hverju að yfirfæra viðfangsefnin yfir á okkar daglega umhverfi og spyrja okkur sjálf hvernig við myndum persónulega bregðast við. Hvað segir uppeldið okkur? Hvað býður samviskan okkur að gera? Kannski þurfum við öll að loka augunum og ímynda okkur að það séu Hornfirðingar eða Fellbæingar sem búa við þá ógn sem nú ríkir í Sýrlandi. Að það sé á Vopnafirði þar sem fólk hleypur um göturnar og reynir að skýla börnum sínum fyrir kúlnaregni og sprengingum. Að bátarnir komi að landi í Borgarfirði, drekkhlaðnir af grátandi börnum og hungruðu fólki.

Að líkin reki að landi í Reyðarfirði.

Það skiptir kannski líka ekki alla máli, en það skiptir mig sannarlega mál, að það er alveg ljóst hvað Jesús Kristur segir okkur að gera í þessari stöðu. Við sem viljum kenna okkur við kristna trú vitum hvert svarið er þegar kemur að því að hjálpa bræðrum okkar og systrum í neyð. Og ég viðurkenni það fúslega að ég sakna þess að kirkjan sem ég tilheyri, og sem langstærstur hluti íbúa þessa lands tilheyrir, skuli ekki hafa stigið fram með afgerandi boðskap hvað þetta varðar. Við eigum að rétta hjálparhönd!

Endurskoðunar er þörf

Núverandi staða er tilefni til þess að endurskoða öll okkar vinnubrögð þegar kemur að flóttafólki. Í mínum huga getum við skipt viðfangsefninu í þrennt. Í fyrsta lagi þurfum við að taka okkur taki þegar kemur að málsmeðferð þeirra sem hingað komast á eigin vegum og leita eftir hæli. Þessir einstaklingar eiga að fá skjóta og réttláta úrlausn sinna mála, því það er allra hagur. Það á ekki að vera markmið að sem fæstir þeirra geti dvalist hér til frambúðar og við eigum ekki að leita allra leiða til að senda vandann til annarra landa. Hins vegar má áfram búast við að stór hluti þessa hóps muni ekki uppfylla skilyrði þess að fá hæli og fyrir því geta verið gildar ástæðar.

Í öðru lagi þá ættum við Íslendingar að vera stöðugt að vinna að því að taka við hópum flóttafólks eins og stundum hefur verið gert með góðum árangri hérlendis. Því miður virðist alltaf vera neyð einhversstaðar í þessum heimi. Sú tala sem hefur verið nefnd af hálfu stjórnvalda, sem er 50 flóttamenn á tveimur árum, ætti í raun að vera árleg tala. Að við séum á hverju ári að skipuleggja komu 25 einstaklinga og vinna í því að búa þeim varanleg búsetuskilyrði hér á landi er að mínu mati ágætis markmið.

Í þriðja lagi eigum við Íslendingar síðan ekki að vera eftirbátar nágranna okkar þegar kemur að því að bregðast við bráðum vanda og yfirstandandi holskeflu flóttamanna. Það kallar á aðeins aðra nálgun en við höfum áður séð í málefnum flóttafólks hér á landi. En ég er sammála þeim sem hafa bent á það að þegar náttúruvá steðjaði að Vestmannaeyjum þá tóku menn höndum saman um að hýsa þá sem þar misstu heimili sín snögglega. Þetta eigum við að geta gert aftur.

Ég ætla mér ekki að eyða mörgum orðum á þá sem segja að við eigum fyrst að bjarga okkur sjálfum. Að við eigum að glíma við eigin vandamál og ekki hugsa um vandamál annarra. Mér finnst einfaldlega augljóst að neyð þeirra sem allslaus flýja ofbeldi og stríðsátök er mun meiri en nokkuð það sem við stöndum frammi fyrir hér heima. En ef ég ætti að nefna eitthvað þá væri það kannski helst það að það er ekkert til sem heitir „við“ og „þau“. Við erum öll fólk, borgarar á þessari jörð og samfélagsleg skylda okkar nær eins til Sýrlendinga og Ísfirðinga.

Og kannski ég myndi þá líka raula fyrir munni mér eitt uppáhalds textabrotið mitt úr íslensku dægurlagi. Það var meistari KK sem samdi lag og texta um þjóðveg 66. Það væri að mörgu leyti viðeigandi að raula þann texta, þar sem meðal annars er vitnað til kreppuáranna í Bandaríkjunum og fjallað um „Fólk í nauðum sem leitaði að náð“ og valið sem það hafði. „Annað hvort að deyja eða fara þessa slóð.“

En það eru ekki þessi textabrot sem ég vil gera að mínum, heldur þessi hér:

„Þá bræður hörfa og herja vítisöfl, til eru höfðingjar við Íslands bláu fjöll sem heldur vilja deyja en lifa í þeirri smán að hafa ekki gefið sem þeir gátu verið án.“

Hvernig er staðan nú? Eru til höfðingjar?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar